19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

145. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það er rétt, sem hv. þm.Bragi Níelsson sagði áðan, að við ættum öll að fagna í hjarta okkar yfir því, að þarna hefur þessi leiðrétting fengist, þó að hún sé langt frá því að vera nægileg miðað við það sem þurft hefði. Sannleikurinn er auðvitað sá, að hér var um mjög umdeildan tekjustofn að ræða sem var og er sjúkratryggingagjaldið, sem er brúttóskattur án alls frádráttar nema í einstaka tilfellum. Hann var auðvitað gagnrýndur mjög af stjórnarandstöðunni á sínum tíma þegar fyrrv. ríkisstj. setti þetta gjald á og tvöfaldaði það síðan.

Ég tek undir það með hv. þm. Braga Níelssyni, að gjarnan hefði ég kosið að álögur þessar hefðu færst enn neðar, a.m.k. hjá þeim tekjulægstu, við hefðum jafnvel fellt sjúkratryggingagjald þeirra niður með öllu, en haldið því aftur í hámarki eins og það er á hæstu tekjunum til þess að jafna á milli. Hins vegar er það staðreynd, að hér er ekki einungis um að ræða að lækka gjaldið úr 2 í 1.5%, heldur er þarna einnig heimild til þess að nýta þetta í sambandi við persónuafsláttinn. Það er mjög mikils virði fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar.

Ég vil taka það fram út af þeim athugasemdum í þessum efnum, sem án efa eru réttmætar, frá hv. 5. þm. Reykv., að auðvitað getum við endalaust deilt um hvernig við eigum að færa til tekjuöflunina í þjóðfélagi okkar. Við, sem stöndum að tekjutilfærslunni núna í sambandi við sjúkratryggingagjaldið t.d. annars vegar og skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hins vegar, teljum að við séum þarna að framkvæma góða hluti, réttláta hluti í þágu almennings í landinu, í þágu launafólksins alveg sérstaklega. Aðrir geta svo verið á öðru máli um það og e.t.v. talið að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði komi jafnvel verr niður á launamönnum almennt en niðurfellingin eða lækkunin á sjúkratryggingagjaldinu. Um þetta getum við sjálfsagt deilt endalaust, hvaða skattaaðferðir við eigum að taka upp. Ég sem sagt fagna þessu, þó ég taki það fram að ég hefði viljað ganga lengra.

En út af lyfjahækkuninni og sérfræðiþjónustuhækkuninni vil ég aðeins segja þetta: Það er auðvitað alveg rétt, að þessar hækkanir koma býsna hart niður á fólki. En ég vil benda hv. þm. á það, að jafnhliða hækkun sjúkratryggingagjalds á fólk stóð fyrrv. hæstv. ríkisstj. einnig að hækkun þessara sömu gjaldskráa og sló þannig tvær flugur í einu höggi gagnvart því fólki.