19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

39. mál, kjaramál

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hv. 2. þm. Norðurl. e skuli viðhafa annað eins lýðskrum og hér átti sér stað úr þessum stól áðan. Þykir mér miður að slíkt skuli ástundað nú þegar við erum að reyna að koma í gegn svo þýðingarmiklum frv. sem hér verður að afgreiða.

Við skulum gera okkur það ljóst, að efnahagserfiðleikar hafa hrjáð þjóðina undanfarin ár. Það skal hafa í huga, að verkalýðshreyfingin gaf síðustu ríkisstj. mikinn umþóttunartíma og langan til þess að gera vitrænar ráðstafanir í efnahagsmálum, en þann tíma lét hún líða án þess að gera nokkurn skapaðan hlut. Og tíminn leið, verðbólgan jókst, varð meiri og meiri og var orðin svo óþolandi síðustu mánuðina að við sjáum nú að hún er illviðráðanleg. Það er viðskilnaður fyrri ríkisstj. sem gerir það að verkum að þessi frv. þarf að afgreiða. Ég vil minna á að þegar febrúarlögin voru sett, þá voru þau lög þannig gerð að þau skekktu og skældu alla kjarasamninga, gerðu það að verkum að lægst launaða fólkið, sem mikið þarf að vinna yfirvinnu til að hafa ofan í sig og á, var dæmt til þess að verða af þessari vinnu á þann veg að eftir- og næturvinna var lækkuð í áföngum. Ef því kerfi hefði verið haldið áfram, sem sjálfsagt hefur verið ætlunin, þá hefði verkafólkið í dag eða á næstu mánuðum þurft að starfa í yfir- og næturvinnu á dagvinnukaupi. Það skal hins vegar metið, að vísitala var greidd á allra lægstu laun eftir að verkalýðshreyfingin hafði gert vart við sig, eftir að verkalýðshreyfingin hafði mótmælt allkröftuglega, en það var ekki fyrr. Og það sem verst var við þau lög, að ríkisstj. gerði sér ekki ljóst að verkalýðshreyfingin gat alls ekki við þau unað, og því fór sem fór. Það skal haft í huga, að þessi lög voru í gildi alveg þar til núv. ríkisstj. kom til valda. Jafnframt var ástandið þannig í landinu, að atvinnuleysi var verulegt, atvinnuöryggi var ekki tryggt, — öfugt að það sem ræðumaður hélt fram áðan, — atvinnuvegirnir voru að stöðvast og það var bókstaflega allt í kaldakoli, því að þrátt fyrir aðgerðir frá hendi verkalýðshreyfingarinnar varð febrúarlögunum ekki hnekkt.

Ég vil aftur á móti segja að ég er ekki fyllilega ánægður með það sem gert er nú. Okkur Alþfl.-mönnum finnst að það þurfi að hugsa betur fyrir efnahagsaðgerðum til langframa. Það hefur því miður ekki náðst samstaða um að gera það, en væntanlega næst sú samstaða innan tíðar. En það, sem þó hefur verið gert, hefur verið gert í friði við verkalýðshreyfinguna, með samþykki hennar og stuðningi.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið í félagsmálum nú og sumir gera lítið úr, eru miklu meira virði fyrir launafólkið í landinu en sem nemur þeim 3% sem oft er talað um. Það kemur mönnum alls staðar til góða, hvernig málum verður komið fyrir varðandi eftirvinnu, hvort hún er á föstudögum eða eigi. Það kemur öllum mönnum til góða, að verið er að lögfesta fleiri veikindadaga og slysadaga og annað í þeim dúr. Ég hygg að ef menn skoða málið grannt verði ljóst að það, sem nú er verið að gera, eru stórkostlegar réttarbætur til handa vinnandi fólki.

Ég vil ekki gera lítið úr því, að efnahagserfiðleikarnir eru miklir og þeir eru vandleystir. Við þurfum á öðru að halda nú en því að reyna að rífa það niður sem þó er verið að reyna að gera. Við þurfum að sameinast í því að leysa þau stóru vandamál sem fyrri ríkisstj. skildi eftir sig. Það væri engin gósentími í dag þótt lögin, sem voru sett í febr., væru í gildi. Það væri félagsleg örbirgð og atvinnuleysi í landinu. Og það er ekki aðeins að verðbólgunni hafi verið haldið áfram, verið kynt undir henni á allan hátt, bæði með Kröfluævintýri og öðru, heldur hafði fólk í landinu megna vantrú á þeirri ríkisstj., sem fyrir var, og trúði því bókstaflega af fenginni reynslu að hún réði ekki við neitt. Því var hún rekin frá völdum. Við skulum vona að önnur eins öfl og þar stýrðu og komu efnahagslífinu og launakjörum almennings í landinu á vonarvöl komist ekki til valda aftur.