19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

149. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Þetta er annað frv. í röð þeirra frv. sem ég ræddi um áðan, sem eru efndir á því fyrirheiti sem ríkisstj. gaf launþegasamtökunum um umbætur í félags- og réttindamálum samfara setningu laga um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, nr. 103 frá 30. nóv. s.l.

Með breytingum sem gerðar eru á tvennum lögum — lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot og skiptalögum — er þeirri ábyrgð, sem ríkissjóður tók á sig árið 1974 á launum og fleiri kröfum launþega þegar kaupgreiðandi verður gjaldþrota, verulega breytt. Í raun og veru hafa þessi lög aldrei komið fullkomlega að tilætluðum notum vegna þess að þau náðu einungis til þeirra launa og annarra krafna sem til hafði stofnast á síðustu 6 mánuðum fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Oft er það hins vegar svo, að miklu lengri tími líður frá því að fyrirtæki kemst í greiðsluþrot og þar til úrskurður um gjaldþrot gengur en þessir 6 mánuðir. Voru kröfurnar því oft glataðar að hluta eða öllu leyti þegar til ríkisábyrgðarinnar átti að taka. Nú er þessi frestur hins vegar lengdur í 18 mánuði. Ætti með því að vera tryggt að lögin komi launþegum að því gagni sem efni stóðu til.

Auk þessa eru svo þær breytingar gerðar á ríkisábyrgðinni að hún nær til örorkubóta, sem launþeginn á hjá fyrirtækjum, og einnig þeirra bóta, sem maki og börn eiga tilkall til vegna dauðsfalls fyrirvinnu af völdum vinnuslyss. Tæpast þarf að ræða svo sjálfsagt mál sem það er, að þessar bætur séu ekki látnar fara forgörðum þótt fyrirtæki, sem þær átti að greiða, verði gjaldþrota. Slíkt er auðvitað algjört réttlætismál.

Svo er í þessu frv. nýmæli þess efnis, að hafi launþegi orðið fyrir kostnaði vegna tilrauna til að innheimta kröfu sína hjá launagreiðanda skuli sá kostnaður einnig rúmast innan ríkisábyrgðarinnar.

Loks er með breytingu á reglugerð aukinn réttur launþega til vaxta af þeim greiðslum sem falla undir ríkisábyrgðina.

Herra forseti. Ég leyfi mér einnig að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. þessarar hv. d. og til 2. umr.