24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Alþingi hefur að sjálfsögðu allan rétt til þess að halda uppi gagnrýni á embættiskerfi íslenska ríkisins og því ber skylda til að gera það: En það er ósæmilegt að draga einn nafngreindan mann aftur og aftur fram, rægja hann, bera á hann hvers konar óvirðingar í starfi og annað slíkt eins og hér hefur verið gert. Ég vil minna menn á að það eru ráðh. sem bera ábyrgð á þessum málum, og ég bið um að ekki sé verið að draga einstaka starfsmenn, hverjir sem þeir eru, fram á þann hátt sem hér hefur verið gert.

Hv. fyrirspyrjandi sagði að svarið, sem hann fékk við spurningum sínum, væri skóladæmi um hvernig ekki ætti að svara fsp. Svarið er í fullu samræmi við þá bestu hefð sem hér hefur verið. Þegar málefnaleg svör hafa verið gefin við fsp. hafa þau yfirleitt verið unnin af starfsmönnum ráðuneytanna eða þeirra stofnana sem undir þau heyra. Annað er ekki tæknilega hugsanlegt. En ég vil benda á hitt, að þessi fsp. og sá málflutningur, sem henni hefur fylgt, er skóladæmi um hvernig ekki á að leggja fram fsp. á Alþ. og hvernig ekki á að nota fsp.-tímann. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur, þegar sprengiærðir menn í stjórnfærðum og vísindum, komnir utan úr heimi og byrjaðir að kenna íslensku þjóðinni þessi fræði, koma á Alþ. og ganga fram fyrir skjöldu með lágkúrulegum brotum á þeim þingvenjum sem reynt hefur verið að skapa hér og móta í langan tíma. (ÓRG: Í hverju eru brotin fólgin?) Þau eru fólgin í því að spyrja ekki efnislega, heldur meira eða minna út í hött með áróðurs- og skætingsspurningum. Þau eru fólgin í því, að bæði framsöguræðan og síðari ræða þm. var... (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal.) Þar að auki var ræða sú, sem fyrirspyrjandi flutti með fsp. og á samkv. þingsköpum og venjum að vera til skýringar því sem hann er að spyrja um, almennur áróður og seinni ræðutími hans sömuleiðis. Það voru dregnar inn í þetta alls konar vangaveltur og áróður um önnur stórmál, kjarnorkuvopn og hvað eina. Þetta er allt saman þverbrot á því sem fyrirspurnatími á að vera og því sem hann verður að vera ef hann á að ná tilgangi sínum, að menn haldi sér við málefni og noti þennan fyrirspurnatíma til þess að draga fram fyrir sjónir Alþingis, því að sjálfir geta þm. fengið að vita það sem þeir vilja — draga fram fyrir sjónir Alþingis staðreyndir. Þetta stendur í bláu bókinni sem hæstv. forseti lyfti upp í hógværð til þess að benda þm. á.

Ég mótmæli því eindregið, að það svar, sem ég las og auðvitað var undirbúið af starfsmönnum í mínu rn., en ég ber fulla ábyrgð á, og ég viðurkenni ekki, að það hafi verið neins konar yfirklór.Efnislega var spurt um tiltekið atvik sem gerðist. Og svarið var um þetta tiltekna atvik, það var um aðstæður á þeim stað og í kringum það og nokkrar almennar ályktanir út frá því. (Gripið fram í.) Ég tel að fsp. hafi verið svarað eins málefnalega og hægt var að gera út frá því sem prentað var. Svo getur hv. þm. notað tækifærið annars staðar til þess að halda uppi sínum áróðri og draga sínar ályktanir af öllu þessu.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að mér hefur í starfi mínu að sjálfsögðu ekki gefist tími til að átta mig á heildarástandi mála eins og þess, hvaða mengun er eftir styrjöldina og áratugina síðan á þessu svæði, Miðnesheiði. En ég get lofað hv. þm. því, að ég hef fullan hug á að athuga þetta af fyllstu alvöru eins og öll önnur mál þarna suður frá og mun ekki skorast undan því að veita upplýsingar, þegar beðið er heiðarlega um þær, eins og ég best get, og ræða um málin á réttum vettvangi þar sem ástæða er til þess.