19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég gat þess þegar ég talaði fyrir hönd meiri hl. fyrir því máli sem rætt var áðan, að það tekjuöflunarfrv. væri í fylgd með öðrum, og ræddi þá jafnframt um leið nokkuð um það frv. sem nú er á dagskrá, þ.e.a.s. frv. til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Fjh.og viðskn. hefur fjallað um þetta mál. Hún varð ekki sammála um afgreiðsluna, eins og kemur fram í nál. meiri hl. á þskj. 239. Fulltrúar Sjálfstfl. í n. skila séráliti.

Með tilvísan til þess, sem ég hafði sagt áður um þessi mál, þar sem ég ræddi nokkuð um þau öll í einu, sé ég ekki þörf á því að hefja hér miklar almennar umr. um þetta frv., en vil þó rétt aðeins í leiðinni svara örlitlu af því sem hefur komið fram í ræðum hv. þm. Sjálfstfl. sem gert hafa að umtalsefni þessar nýju skattaálögur.

Ég vil segja það, að þeir njóta þess að það er ekki langur tími hér til umr. Þeir njóta þess, að við höfum ekki tíma til þess að fara að rifja upp fyrir þeim hvað þeir hafa sjálfir gert í þessum efnum. Þeir tala um að núv. hæstv. ríkisstj. hafi sýnt alveg sérstakt frumkvæði í því að leggja á ný skattgjöld. Kannske ég minnist aðeins á í leiðinni nokkur ný gjöld sem fyrrv. ríkisstj. fann upp.

Hún lagði á svonefnt olíugjald með þeim hætti, að þegar búið var að leggja á ákveðið gjald til þess að styðja við bakið á þeim sem þurftu að kynda hús sín með notkun á olíu sem fór ört hækkandi í verði, þá hrifsaði ríkisstj. þetta gjald í ríkissjóð og gerði að föstum tekjustofni. Þetta var mjög frumlegt á sínum tíma.

Það var fyrrv. ríkisstj. sem fann upp skyldusparnaðarskattinn. Það var hún sem fann upp flugvallaskattinn. Það var hún sem fann upp að leggja sérstakan skatt á gjaldeyrisleyfi. Það var hún sem fann upp sjúkratryggingagjaldið sem nemur, eins og komið var, um 6 milljörðum kr. á almenning í landinu. Það var hún sem fann upp tímabundið vörugjald. Það var hún sem margsinnis hækkaði söluskattsprósentuna. Og það voru einmitt þeir, sem voru í þeirri stjórn, sem fundu upp launaskattinn á sínum tíma.

Þetta er ekki nema lítið brot af því sem ég gæti talið upp, enda var það svo, að í tíð fyrrv. ríkisstj. voru fjárl. um 40 milljarðar kr., en voru auðvitað komin hátt í 200 milljarða kr., þegar hún fór frá, sem sýnir að hún hafði sig allvel í frammi í sambandi við skatttöku. En eins og allir vita er auðvitað ekki tími til þess nú að fara út í almennar umr. um hvorki fjármálastjórnina í landinu né efnahagsmálin, það verður ekki gert við þessa umr.

En ég verð að segja það, að mér þykja endurtekin ummæli hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstfl., um eitt atriði varðandi aðgerðir í efnahagsmálum svo athyglisverð, að ég hlýt að minnast á þau. Hann endurtók það nú í ræðu sinni, en hefur margsinnis sagt það að undanförnu, að núv. ríkisstj. hafi greitt niður verð á matvælum, greitt niður vísitöluna og, eins og hann sagði nú, þar með falsað vísitöluna. Formaður Sjálfstfl. er farinn að gera þetta að föstu viðlagi í ræðum sínum, að sú aðgerð að greiða niður verðlag, sem auðvitað hefur áhrif nú eins og alltaf áður á vísitöluútreikning, þýði fölsun vísitölunnar. Það er býsna athyglisvert, að hann skuli halda þessu fram. Ég vil nú minna hann á að síðast þegar hann greip til þess að auka niðurgreiðslur, nokkru áður en hann fór frá völdum, þá minntist enginn á að þær auknu niðurgreiðslur þýddu fölsun á vísitölu, af því að það hefur verið viðurkennt allan tímann, að niðurgreiðslur á nauðsynjavarningi kæmu þeim til góða sem þurfa að kaupa þennan varning og nota hann. En hv. þm. formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, munar ekki mikið um að reyna að fleyta sér áfram á fullyrðingum eins og þessum.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni, þá get ég að vísu tekið undir það með honum, að það fer illa á því, þegar tími er naumur til afgreiðslu á málum á Alþ., að það skuli ekki geta legið sem skýrast fyrir, hvernig ætlunin er að standa að afgreiðslu þeirra mála sem afgreiða þarf á tiltölulega skömmum tíma, t.d. fyrir jólaleyfi. En ég hlýt að benda honum á það, að hæstv. forsrh. hefur gefið hér yfirlýsingar um það ítrekað, hvaða mál það séu sem hann stefni að að láta afgreiða hér fyrir jólaleyfi, og auðvitað er það fjárlagafrv. Ég tel því að það eina, sem hægt er að styðjast við í þeim efnum, séu þessar yfirlýsingar forsrh. fyrir hönd ríkisstj., og við það eitt verður auðvitað að miða.

Hvort ríkisstj. hefur svo endanlega nægilegan styrk á Alþ. til þess að koma fram þessum málum, úr því verður vitanlega aldrei skorið fyrr en atkvgr. fer fram um málin. Þá reynir auðvitað á það, hvort sá fyrirvari, sem Alþfl.menn hafa í sambandi við þessi mál, leiðir til þess, að þeir snúist gegn afgreiðslu fjárl. og tekjuöflunarfrv. ríkisstj. sem þeir hafa fyrirvara um, eða hvort þeir telja að þeir geti stutt afgreiðslu þessara mála, svo að tal um þessi mál hefur auðvitað ekki mikið gildi við þær aðstæður sem við búum við.

Vegna þess að mér er ljóst að hér er um lítinn tíma að ræða, þá skal ég ekki fara út í frekari umr. um málið, en segi, að meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur yfir farið þetta frv. og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. Hér er um viðbótarskattlagningu að ræða á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem áætlað er að muni gefa ríkissjóði í auknar tekjur um 550 millj. kr.