19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

139. mál, nýbyggingagjald

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það vekur reyndar athygli, að þetta er fyrsta frv. af þessum þremur, sem hér liggja fyrir um aukna skattáþján þjóðarinnar, sem Alþfl. gerir ekki fyrirvara um eða setur skilmála fyrir, og er það vissulega athyglisvert. Eitthvað hlýtur að vera að gerjast í þeim herbúðum þessa stundina.

Alþfl. lýsti miklum áhyggjum sínum fyrir síðustu kosningar um skattaáþján og skattpíningu þjóðarinnar. Þá var talað mikið um gerbreytta efnahagsstefnu og skattalækkun. Nú heyrist ekkert nema fyrirvarar og skilmálar. Það er jafnframt athyglisvert, að fsp., sem hv. þm. Geir Hallgrímsson varpaði hér fram til fjmrh. eða í fjarveru hans til hæstv. félmrh., sem var þá staddur í salnum, um hvað yrði gert við útsvörin, því að auðvitað hangir þetta allt saman: útsvör, skattar til sveitarfélaga, annars vegar og skattar til ríkisins hins vegar, en engin svör fengust við því, ekki einu sinni svör með fyrirvörum.

Nú er hér til umr, eitt af þremur skattafrv. sem hafa verið til umr. í dag. Hafa farið fram talsverðar umr. um þessi mál og ég skal ekki orðlengja þær mjög. Ég tek það strax fram, að ég hef sömu skoðun á þessum málum og hér hefur verið lýst af hv. frsm. minni hl. fjh.- og viðskn., og enn fremur er ég sammála þeim viðhorfum, sem komu fram hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, og um málsmeðferð alla hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni. Það er augljóst, að ef það er tilgangur löggjafans að koma í veg fyrir að fjárfesting renni í arðsama farvegi, þannig að komi sé í veg fyrir gegndarlausa fjárfestingu í landinu, þá er þetta ekki aðferðin til þess. Á það hefur verið bent margoft hér á hv. Alþ., að aðrar leiðir eru heppilegri, og þær umr. fóru fram þegar rætt var um frv. til breytinga á seðlabankalögunum eða um raunvaxtamálin, þar sem þetta mál bar mjög á góma í þeim umr. Að sjálfsögðu er ekki aðaltilgangurinn að koma í veg fyrir gengdarlausa fjárfestingu, þótt áhrifin verði eflaust þau. Aðaltilgangurinn er auðvitað að ná meiri peningum í ríkissjóð vegna þess að hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur smíðað sér þau axarsköft nú þegar að til þess þarf ærið fjármagn að leysa þann vanda sem hún sjálf hefur skapað.

Í þessum umr. hefur komið fram h á hv. 1. þm. Austurl., að fyrr hefðu setið ríkisstj. á Íslandi sem fundið hefðu upp ýmsa skatta og ég skal gjarnan taka undir þau sjónarmið. En ég held að það sé öllum ljóst núna, að hv. yfirráðh. þessarar ríkisstj., 1. þm. Austurl., á núverandi Íslandsmet í þessum efnum, og ég á satt að segja ekki von á því, að það verði slegið á næstu árum.

Það er athyglisvert í umr. öllum hér á Alþ., að þegar skattar eru hækkaðir er aldrei minnst á kjararýrnun, en þegar skattar eru lækkaðir, eins og t.d. var getið um varðandi aðgerðirnar 1. des. s.l., þá var talað um kjarabót í formi skattalækkana. Ég fæ þetta ekki heim og saman í kollinum á mér, en eflaust fást á þessu einhverjar skýringar síðar.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. sem hér er til umr. Það er brtt. við 2. gr. og henni hefur þegar verið dreift og ég óska eftir afbrigðum, þannig að hún geti komið til atkvgr. nú við 2. umr. málsins. Í 2. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

„Íbúðarhúsnæði er undanþegið gjaldskyldu samkv. lögum þessum. Heimilt er ráðh. að undanþiggja ákveðnar tegundir mannvirkja gjaldskyldu.“

Og í aths. við frv. segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er fjmrh. með reglugerð að undanþiggja ákveðnar tegundir fasteigna gjaldskyldu, sbr. einnig heimild í 10. tölul. 16. gr. laga nr. 94 frá 1976.“

Ef litið er á þessa lagagr., kemur í ljós að þarna er um að ræða mannvirki sem undanþegin eru fasteignamati í 16. gr. Það eru vegir og götur. Það eru einnig auð svæði, rafveitur, vatnsveitur, dýpkanir, flugbrautir, fjarskiptavirki, greftrunarstaðir og vitar, en 10. tölul. fjallar um það, að ráðh. geti í reglugerð undanþegið ákveðnar fasteignir eða tegundir fasteigna fasteignamati. Í þeirri till., sem hér liggur frammi til breytinga á frv., geri ég ráð fyrir því, að enn fremur verði undanþegnar gjaldskyldu samkv. 2. gr. þær nýbyggingar sem um getur í 5. gr. tekjustofnalaga sveitarfélaga, þ.e.a.s. sjúkrahús, kirkjur, skólar, íþróttahús, endurhæfingarstöðvar, barnaheimili, orlofsheimili launþegasamtaka, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, félagsheimili og samkomuhús sem ekki eru rekin í ágóðaskyni o.s.frv. Mér þykir það afar óeðlilegt, að ríkisvaldið, sem nú fer inn á þessa skattheimtubraut, fái að taka gjöld af byggingum, sem sveitarfélögin fá síðan ekki að taka gjöld af. Þess vegna flyt ég þessa tillögu.

Í ræðu hæstv. fjmrh. kom fram, að ríkisstj. gerði ráð fyrir að í ríkissjóð kæmu 300 millj. með þessu gjaldi, sem mun þýða að gjaldstofninn sé um 15 milljarðar. Ég hef því miður ekki gert úttekt á því, hvað þetta þýðir í raun, hvort sé ráðgert að í reglugerð hæstv. fjmrh. verði þau mannvirki, sem ég hef talið upp og um getur í 5. gr. tekjustofnalaganna, undanþegin þessu gjaldi. Komi það hins vegar fram úr ræðustól hjá hæstv. fjmrh., að ætlunin sé að svo verði gert, þá mun ég að sjálfsögðu draga till. mínar til baka. En meðan ekki fást skýrari svör en þau sem hæstv. fjmrh. gaf í umr., þ.e. að eflaust mætti hugsanlega kanna hvort leggja skyldi gjöld á fyrirhugaðar kirkjubyggingar, skólabyggingar o.s.frv., þá tel ég ástæðu til þess að binda hendur handhafa framkvæmdavaldsins þannig að Alþ. fái um þessi mál ráðið. Það skal tekið fram, að flestöll mannvirki, sem hér getur, eru byggð með þeim hætti að lagt er fram fé á móti ríkisvaldinu, annaðhvort frá einstaklingum, félögum þeirra eða sveitarfélögum. Ég tel þess vegna vera óeðlilegt að byrja á því, áður en hafist er handa um byggingarframkvæmdir, að leggja skatt á þessa aðila sem geri það jafnvel að verkum að ekki verði hægt að hefjast handa. Hugsanlega er þó tilgangurinn sá að koma í veg fyrir að umsóknir úr t.d. félagsheimilasjóði og öðrum slíkum sjóðum komi fram á næsta ári, en það auðvitað sparar ríkinu heilmiklar upphæðir. Um það vil ég gjarnan fá skýr svör.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að koma í ræðustól og segja skýrt og skorinort hvernig sú reglugerð verður sem hann hyggst setja í þessu máli, en að öðrum kosti skora ég á hv. þdm. að samþykkja þá brtt. sem ég hef lagt fram.