19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

139. mál, nýbyggingagjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um það meistarastykki stjórnarliða sem gengur undir nafninu: Frv. til l. um nýbyggingagjald, og bið þá hv. þm., sem kunna að hafa áhuga á sveitarstjórnarmálum, að hlusta augnablik. Um þetta nýbyggingagjald, sem er 2% og á að gefa 300 millj. kr. tekjur í ríkissjóð, segir svo, með leyfi forseta, og þá ætla ég að leyfa mér að lesa upp 6. gr.:

„Taka má gjald samkv. lögum þessum lögtaki hjá byggingarleyfishafa eða eiganda mannvirkis. Nýbyggingagjaldinu fylgir lögveð í mannvirki því sem gjaldið er lagt á og skal ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla. Ef mannvirki eyðileggst eftir að gjaldið er fallið í eindaga er sami lögveðréttur fyrir því í tryggingaupphæðum þess.

Sveitarstjórn er óheimilt að gefa út byggingaleyfi fyrir mannvirkjum, sem gjaldskyld eru samkv. lögum þessum, nema fyrir liggi sönnun þess að gjaldið hafi verið að fullu greitt. Sé þessa ekki gætt er sveitarstjórn ábyrg fyrir greiðslu gjalds af viðkomandi eign og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið beint að sveitarstjórn við innheimtu þess.“ — Ég ætla að endurtaka þetta: „Sé þessa ekki gætt er sveitarstjórn ábyrg fyrir greiðslu gjalds af viðkomandi eign og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið beint að sveitarstjórn við innheimtu þess.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa þessa grein frekar, en með leyfi forseta hljóðar 7. gr. svo:

„Brot gegn lögum þessum skulu varða sektum allt að 7 millj. kr., sem renna í ríkissjóð, nema þyngri refsing liggi við í öðrum lögum. Um meðferð slíkra mála skal fara að hætti opinberra mála.“

Ég vil aðeins draga athygli þeirra, sem eiga þennan króga, á því, að hér er verið að gera sveitarstjórnir ábyrgar fyrir þessari gjaldtöku eða skilum á þessu nýbyggingagjaldi.

15. gr., sem snertir Reykjavík, segir svo, með leyfi forseta:

„Gjald samkv. lögum þessum skal lagt á og innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.“ Ég sé ekki heldur ástæðu til þess að lesa alla 5. gr. Ég hef haldið að tollstjóraembættið væri alveg nógu upptekið embætti við þau verkefni sem það hefur á hendi að vinna. Það sýnir biðtíminn eftir einföldustu afgreiðslum þar, hvort sem er um skattgreiðslur að ræða eða tollafgreiðslur. Og ég tel alveg fráleitt að bæta meiri vinnu á tollstjóraembættið en gert er, eins og ég tel fráleitt að innheimta það gjald sem hér er lagt til að verði innheimt.

Hvernig á svo að standa að þessu? Það er ekkert ákveðið. Það er eins og það sé eftir geðþótta annars vegar Hagstofunnar og hins vegar Fasteignamats ríkisins hvað þetta gjald á að vera og það á að vera á mati einstakra embættismanna, hvers konar álagning á sér stað. Getur það verið, ef tvö hús eru afskaplega lík, annað er byggt á stórri súlu til að halda uppi viðkomandi byggingu, en hitt er ekki á súlum, að það eigi að hafa áhrif á gjaldtökuna? Hér segir, með leyfi forseta, og gríp ég þá inn í 3. gr.:

„Skal byggingarkostnaður í þessu sambandi miðast við rúmmetratölu mannvirkis og áætlaðan byggingarkostnað á þeim tíma er sú áætlun fer fram. Skal Hagstofa Íslands gefa út skrá um áætlaðan byggingarkostnað á rúmmetra í hinum ýmsu tegundum mannvirkja og skal gjaldstofn miðaður við þá áætlun. Skrár þessar skulu gefnar út í desembermánuði og júnímánuði ár hvert og skal gjaldtaka miðuð við þær næstu sex mánuði miðað við 1. jan. og 1. júlí ár hvert.“

Sem sagt: í öllum venjulegum byggingum utan íbúðabygginga. Liggur við að þm. stjórnarandstöðunnar ættu að standa upp hver á fætur öðrum og þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þá manngæsku, að hún skuli sleppa íbúðabyggingum við þennan skatt. Það er Hagstofa Íslands sem á að meta á hverjum tíma þetta gjald. Og eftir þessu á áætlun í upphafi byggingarframkvæmda eða þegar byggingarleyfi er gefið út að vera hið endanlega skattverð sem goldið er. En svolítið neðar í 3. gr. segir:

„Heimilt er að ákveða með reglugerð að skrár Hagstofu Íslands samkv. 2. mgr. skuli ekki taka til ákveðinna tegunda mannvirkja.“

Hvaða tegundir mannvirkja eru það? Það er ekki nokkur leið að fá þá hugsun, sem liggur bak við þessa lagagerð, fram hjá hæstv. ríkisstj. Á þetta að vera geðþóttaákvörðun hverju sinni? Hver á að meta hvað hátt gjald skuli taka? Er það Hagstofan eða Fasteignamat ríkisins? Og hver á svo að innheimta þetta? Við vitum að það á að falla á tollstjórann í Reykjavík.

Ég verð að segja alveg eins og er, að ef hreinsunardeild Alþfl. lætur sér stundum detta í hug líkingar eins og t.d. kálgarðsráðh., þá verð ég að segja alveg eins og er, að þegar ég horfi á sumt af því sem kemur frá hæstv. ríkisstj. lítur það út eins og brotajárnshaugur, og það er ekki góð samlíking. Vildi ég þá heldur halda mig við kálgarðinn.

Að sveitarstjórnir skuli vera gerðar ábyrgar fyrir innheimtu á opinberum gjöldum er nákvæmlega það sama og öll verslunarstéttin eins og hún leggur sig er hneppt í fjötra í sambandi við innheimtu á söluskattinum. Verður öll verslunarstéttin og þeir sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur og fyrirtæki einstaklinga að vinna kauplaust fyrir ríkissjóð sem innheimtumenn ríkissjóðs. Og nú á að „móbilisera“ — ef ég má nota það orð — allar sveitarstjórnir á landinu sem innheimtuaðila fyrir ríkissjóð. Er ekki komið nóg af svona lögum og þvingunar- og þrælahaldi á vegum ríkisstj.? Það er ekki nóg að hver og einn einasti einstaklingur og fyrirtæki eru orðin fyrirvinna ríkisstj. að því marki, að tæplega er nóg eftir fyrir rekstri atvinnufyrirtækjanna og heimilanna, heldur á að taka það sem eftir er og gera sveitarstjórnirnar sjálfar að hálfgerðum þrælum og innheimtumönnum ríkissjóðs.

Ég vil aftur benda á það atriði, að sveitarstjórnirnar eru hér gerðar ábyrgar fyrir skattheimtu til ríkissjóðs. Þarna er verið að skipta á milli annars vegar Hagstofunnar og hins vegar Fasteignamats ríkisins að ákveða hvaða gjald skuli tekið af viðkomandi mannvirkjum án þess að skilgreina hvað á að vera hlutverk Hagstofunnar að meta og hvað á að vera hlutverk Fasteignamats ríkisins. Fyrir utan að mótmæla þessu, taka undir öll þau mótmæli sem hafa komið gegn þessum nýbyggingaskatti, vil ég líka benda á það, að það fer ekkert á milli mála, að auðvitað dregur þetta úr byggingarframkvæmdum, auðvitað er þetta ein tilraun til viðbótar til að draga úr vinnumarkaðinum. Það fer ekkert á milli mála, að ríkisstj. stefnir að því að skapa hér minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli, sem getur leitt til atvinnuleysis, og líklega hugsar hún sem svo: Það vantar svolítið atvinnuleysi til þess að við getum pínt fólk áfram og ráðið betur við það. Fólki vegnar of vel, það er orðið of auðvelt að vinna fyrir sér á Íslandi. — Ég vil vara við þessu hættulega frv.