24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

2. mál, samningar við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Þrjú fyrstu þingmálin að þessu sinni fjalla um hafréttarmálefni. Stjórnarandstaðan flytur þessi mál og væntir fulls samráðs og býður fullt samstarf við ríkisstj. og stjórnarflokkana, því að mikilvægt er að um mál sem þessi náist full samstaða innanlands. Án þess er hætt við að árangur gæti orðið minni en ella.

Till., sem nú er fyrst fjallað um, gerir ráð fyrir því, að þegar í stað verði teknar upp samningaviðræður við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi, þar sem bæði kæmu til umræðu fiskveiðiréttindi og hagnýting auðæfa landgrunnsins utan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands í norðurhöfum, umhverfis Jan Mayen.

Þótt mikið hafi áunnist á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, þar sem alþjóðaréttarreglur eru í mótun, er enn margt óljóst um réttarstöðu smáeyja á borð við Jan Mayen, sem raunar verður að teljast vera á íslenska landgrunninu, en ekki hinu norska. Nokkur hætta er á að ágreiningur gæti orðið á milli Íslendinga og Norðmanna á næsta fundi hafréttarráðstefnunnar, ef ekki verður leitast við að samræma sjónarmiðin áður en til umr. dregur. Ljóst er að bæði Norðmenn og Íslendingar hafa mikilla hagsmuna að gæta, bæði að því er varðar fiskveiðiréttindi og hugsanlega hagnýtingu auðæfa hafsbotnsins í norðurhöfum. Hitt er jafnljóst, að bæði Norðmenn og Íslendingar vildu mikið til vinna að komist yrði hjá ágreiningi. Þess vegna hlýtur það að vera sameiginlegt áhugamál beggja þjóðanna að ræða málin og skýra sjónarmiðin áður en hætta skapast á því, að í kekki kastist. Raunar er fyllsta ástæða til þess að ætla að slíkar samningaviðræður mundu leiða til happasællar tausnar, en ef slík lausn lægi fyrir, þegar hafréttarráðstefna kemur næst saman, mundi það geta haft veruleg áhrif á þróun hafréttarmála annars staðar og vera í anda þess samkomulags með sanngirnissjónarmið fyrir augum sem að er keppt við heildarlausn hafréttarmála.

Ég held að á þessu stigi sé óhyggilegt að nefna einstök atriði sem hugsanlega gætu valdið ágreiningi. Ég held að fulltrúar þessara frænda- og vinaþjóða ættu að hittast með opnum huga, án þess að hafa bundið sig í kennisetningar eða lagareglur sem ekki eru heldur fullmótaðar. Ég mun því ekki hefja hér ítarlegar efnislegar umr., nema sérstakt tilefni gefist til, og leyfi mér raunar að bera fram þá ósk, að aðrir geri það ekki heldur, því að happadrýgst er áreiðanlega að málið gangi nú til hv. utanrmn., en það er till. mín. Þar yrði það rætt fyrir luktum dyrum og engri leið til samkomulags við Norðmenn lokað fyrr en í fulla hnefana.

Ég endurtek svo tilboð og ósk okkar þm. Sjálfstfl., stjórnarandstöðunnar, um fulla samvinnu við ríkisstj. og þá flokka, sem að henni standa, í hafréttarmálum.