19.12.1978
Neðri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

133. mál, vörugjald

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að nú í kvöld skuli fara fram 3. umr. í þeim málaflokkum sem liggja fyrir þessum fundi, ekki síst þegar menn hafa nú beðið hér á Alþingi í nokkra daga eftir því að fá einhvern botn í það, hvernig mál standa innan stjórnarflokkanna. Ég held að það, sem hafi gerst núna, sé að þm. Alþfl. ætli að loka þessu máli og þar með loka öllum leiðum í þessari d. til þess að hafa áhrif á þessi frv., jafnvel þótt ekki verði komið að neinu leyti til móts við þá í þeim tillögum sem þeir berjast fyrir og kallast stundum tillögur um jafnvægisdans á rósum, svo að ég noti orðalag eins ráðh. í ríkisstj.

Áður en þetta mál, sem hér er til umr., verður afgreitt úr þessari d., tel ég að kominn sé tími til þess, að einhver af hæstv. ráðh. sem hér eru staddir, — ég sé að þeir eru hér a.m.k. þrír, mér dettur í hug að hæstv. iðnrh. væri kannske best til þess kjörinn, — komi hér í ræðustól og geri þingheimi grein fyrir því, hvað hann hyggst gera í sambandi við þau mál sem enn eru óleyst vegna tollalækkana hjá iðnaðinum. Ég held að það sé kominn tími til þess jafnframt, að það fáist botn í þessi mál eins og fleiri mál hér á hv. Alþ. Mér finnst líka fara vel á því, að þetta mál upplýsist um leið og fjallað er hér um auknar skattaálögur. Þess vegna óska ég eindregið eftir því, að okkur í stjórnarandstöðunni og öðrum þeim þm. sem fá ekki að fylgjast jafnmikið með og þeir sem eru í innsta hring þeirra sem hér á Alþ. eru að búa til fréttir og halda að hv. Alþ. sé einhvers konar „sensasjón-fréttablað“, — ég held að kominn sé tími til þess, að okkur sé gerð grein fyrir því, hvað ríkisstj. hyggst gera í þessu máli. Það hafa verið gefnar út alls konar yfirlýsingar um málið, þær helstar þó, að í staðinn eigi að koma einhvers konar ígildi þess sem er í dag.

Ég mælist til þess, að hæstv. ráðh. komi hér í ræðustól og skýri þingheimi frá þessu. Ef hann fæst ekki til þess, þá vil ég að hæstv, yfirráðh. ríkisstj., sem um þessi mál hefur fjallað í fjölmiðlum m.a. í haust, komi hingað og geri grein fyrir máli sínu, því að senn líður að þingfrestun þar sem kratarnir hafa nú gefið eftir í þessu máli og ætla sér að loka umr. hér í hv. Nd.