19.12.1978
Neðri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

145. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þessu frv. á þskj. 213 um breyt. á l. nr. 70 31. des. 1977, sbr. lög nr. 9 12. apríl 1977 og lög nr. 95 31. des. 1975, um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67 frá 1971, með síðari breytingum. Hæstv. heilbr.- og trmrh. er ekki viðstaddur og ég hleyp í skarðið og mæli fyrir þessu frv. sem kemur frá Ed.

Þetta frv. er eitt af mörgum frv., sem eru fylgifrv. með fjárlagafrv., og fjallar um breytingar á sjúkratryggingagjaldi sem nú er 2% af gjaldstofni útsvara. Breytingin er fólgin í því, að gjaldið verður 1.5% á gjaldstofninn af fyrstu 3 millj. 450 þús. kr. tekjum hjá einstaklingum og 2% af því sem er umfram. Hjá samsköttuðum hjónum verður gjaldið 1.5% af gjaldstofni af fyrstu 4.6 millj. kr. og 2% af því sem umfram er. Er áætlað að þessi breyting rýri tekjur ríkissjóðs um 1450 millj. kr. á næsta ári.

1. gr. þessa frv. fjallar um álagningu gjaldsins og að gjaldstofninn skuli vera hinn sami og gjaldstofn álagðra útsvara 1979 samkv. 1., 2. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 8 18. maí 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, þó að frádregnum bótum samkv. II. og IV. kafla laga nr. 67 frá 20. apríl 1971, með síðari breytingum, námsfrádrætti er skattstjóri ákveður vegna þeirra er stunda nám í a.m.k. 6 mánuði á hverju ári, lækkunum skattgjaldstekna er skattstjóri ákveður samkv. 52. gr. laga nr. 68 1971, með síðari breytingum, og í viðbót við þær fjárhæðir elli- og örorkulífeyrisbóta, sem frá eru dregnar samkv. a-lið þessa töluliðs, skal draga frá hjá þeim einstaklingum, sem nutu elli- og örorkulífeyris á árinu 1978, 450 þús. kr. hjá einstaklingum og hjá hjónum 750 þús. kr.

Eins og ég gat um áður skal gjaldið vera um 1.5% samkv. 3. tölul. 1, gr. af fyrstu 3 millj. 450 þús. af gjaldstofni, en 2% af því sem umfram er hjá einstaklingi og hjónum telji þau fram hvort í sínu lagi. Hjá hjónum, sem samsköttuð eru, skal gjaldið vera 1.5% af fyrstu 4 millj. 600 þús. af gjaldstofni, en 2% af því sem umfram er. Þessi lög eiga að öðlast gildi 1. jan. 1979.

Í frv. til fjárl. fyrir árið 1979 er gert ráð fyrir því, að á árinu 1979 verði lagt á sjúkratryggingagjald með sama hætti og gert var á grundvelli ákvæða laga nr. 70 frá 1977 á árinu 1978, og er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að álagt gjald muni nema um 6 milljörðum 350 millj. kr., er gæfi 5 milljarða og 600 millj. í innheimtar tekjur ríkissjóðs á næsta ári.

Með 2. gr. laga nr. 103 frá 1978, þ.e.a.s. ráðstöfunum sem gerðar voru 1. des., er gefið vilyrði um að ríkisstj. muni beita sér fyrir lagasetningu er feli í sér lækkun skatta og gjalda á lágtekjufólki sem metin sé 2% af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram að 1. des. 1978 og þá miðað við skattalækkun frá forsendum fjárlagafrv. Till. ríkisstj. um skattalækkun þessa eru tvíþættar. Annars vegar er lagt til að skattvísitala hækki frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlagafrv., en hins vegar er lagt til að sjúkratryggingagjald lækki, og felst sú lækkun í þessu lagafrv. Til að tryggja að lækkun sjúkratryggingagjalds komi lágtekjufólki og þeim, er hafa lágar miðlungstekjur, fyrst og fremst til góða er lagt til að sjúkratryggingagjaldið verði stighækkandi, eins og ég hef gert grein fyrir áður og kemur fram í frvgr.

Eins og ég gat um í upphafi kemur þetta frv. frá Ed. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.