19.12.1978
Neðri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

136. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Vegna heldur ógreiðra svara hæstv. ráðh. áðan við spurningum mínum, ég geri ráð fyrir að það hafi helst verið vegna þess að ekkert var um iðnaðarmál á dagskrá þá, leyfi ég mér að ítreka spurningar mínar. Það þarf ekki að endurtaka þær frá orði til orðs, ég veit að menn misstu ekki af þeim áðan, en ég leyfi mér að ítreka þær.

Í nál. er fskj. þar sem minnst er á jöfnunargjald, og það gefur þm. væntanlega ástæðu til að spyrjast fyrir um það, hvað ríkisstj. hyggist gera í málefnum iðnaðarins vegna væntanlegrar tollalækkunar á næsta ári. Það mál tengist jafnvel hugsanlega jöfnunargjaldinu og ég vil leyfa mér hér, vegna þess að það er verið að keyra mál hér í gegn fyrir jólin, að óska nú eftir því, að hv. þm. í þessari d. verði nú svarað hvernig þetta mál stendur. Það er kominn tími til þess að menn fái að vita hvernig mál standa sem mikið hefur verið rætt um í fjölmiðlum, eða eigum við kannske að lesa það á milli jóla og nýárs eða fyrstu dagana í janúar að sett hafi verið brbl. um þessi mál. Því æski ég þess, að það verði komið til móts við okkur í þessu máli og okkur,verði tjáð hvernig þetta mál standi, ella lít ég svo á að ríkisstj. hafi enga stefnu í þessum málum.