20.12.1978
Sameinað þing: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

142. mál, fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi er um að heimila að fullgiltur verði fyrir Íslands hönd samningur sem undirritaður var 24. okt. s.l. um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi. Hafa nýlega borist mjög eindregnar óskir frá öðrum aðilum um að samningur þessi verði fullgiltur fyrir áramót, og er það ástæðan fyrir því að þetta mál er seint á ferð. Hefur málinu raunar verið skipt í tvennt. Annars vegar er till. til þál. sem hér er til umr. og er eingöngu um staðfestingu. Hins vegar er frv. til I. varðandi samning þennan, 141. mál, sem ekki þarf að afgreiða fyrr en síðar, en með frv. er texti samningsins í heild.

Samningur þessi á að koma í staðinn fyrir samning frá 8. febr. 1949, um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi, en þann samning fullgiltu Íslendingar í febrúar 1950 og gekk hann í gildi þá um sumarið.

Við útfærslu fiskveiðilögsögu strandríkja við Norðvestur-Atlantshaf gjörbreyttist skipan fiskveiðimála á því svæði. Hafist var handa um gerð nýs samnings sem tæki mið af hinu breytta ástandi. Endanlega var gengið frá þessum samningi á ráðstefnu í Ottawa 11.–21. okt. 1977 og á fundi sérfræðinga í maí á þessu ári. Samningurinn var undirritaður í Ottawa 24. okt, s.l, af fulltrúum Danmerkur (vegna Færeyja), Íslands, Kanada, Noregs, Portúgals, Rúmeníu, Sovétríkjanna, Þýska alþýðulýðveldisins og Efnahagsbandalags Evrópu. Samningurinn mun öðlast gildi hinn 1. janúar næstan eftir að sex ríki hafa fullgilt hann, þ. á m. að minnsta kosti eitt strandríkjanna er fiskveiðilögsögu hafa á samningssvæðinu.

Samningurinn gerir ráð fyrir að komið verði á fót nýrri stofnun, Norðvestur-Atlantshafs-fiskveiðistofnuninni, er taki við af fiskveiðinefnd þeirri sem starfandi er skv. samningnum frá 1949. Í tengslum við stofnunina munu starfa vísindaráð og fiskveiðinefnd. Vísindaráðinu er ætlað það hlutverk m.a. að verða vettvangur samvinnu um rannsóknir varðandi fiskveiðar á samningssvæðinu og að safna tölfræðilegum upplýsingum. Fiskveiðinefndin skal hins vegar vera ábyrg fyrir stjórnun og verndun fiskstofna sem liggja utan fiskveiðilögsögu strandríkja á samningssvæðinu. Er hlutverk og valdssvið n. í fullu samræmi við löggjöf strandríkja við Norðvestur-Atlantshaf.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þingið vísi till. til hv. utanrmn., en hún hefur fyrirhugað fund í fyrramálið, þannig að unnt ætti að vera, ef enginn ágreiningur rís, sem ég á ekki von á, að afgreiða till. áður en þingi lýkur fyrir jól og án þess að það taki nema lítið af starfstíma þingsins.