20.12.1978
Sameinað þing: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Það kann að skjóta nokkuð skökku við að hefja umr. um þetta mál núna mitt í jólaönnunum. Hins vegar á þetta mál nokkuð sammerkt með þeim umr. sem hafa farið hér fram undanfarna daga. Það fjallar um gjaldtöku, það fjallar um skatt. Í þessu tilviki er þó nokkuð jákvæður skattur að því leyti, að ætlunin er að taka hann af útlendingum, en ekki Íslendingum.

Það eru tæpir tveir mánuðir frá því að þetta mál kom á dagskrá hér á hinu háa Alþingi, og þetta er þriðja tilraunin sem gerð er til þess að ljúka 1. umr. málsins. Þetta segir mér þá sögu, að hér hafi raunverulega verið meiri hagsmunir í húfi en ég bjóst við þegar ég gekk frá þessu máli til flutnings hér í Sþ., bæði peningalegir og persónulegir hagsmunir sem eru þarna í húfi, enda margir rætt málið og margir á mælendaskrá enn þá.

Ég vil taka það fram strax, að í máli manna hér um þá þáltill., sem ég er 1. flm. að, hafa ekki komið fram neinar staðreyndir sem hagga á nokkurn hátt þeim tölulegu staðreyndum og upplýsingum sem ég kom á framværi við framsögu í þessu máli.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég lít ekki svo á, að þessari þáltill. eða afgreiðslu hennar sé beint gegn bændum, eins og hér hefur verið sagt æ ofan í æ. Hún er ekki til þess að koma í veg fyrir veiðar erlendra manna á Íslandi. Hún er eingöngu til þess að reyna að jafna hlut Íslendinga og útlendinga við laxveiðar á Íslandi. Hún er ekki lögð fram til þess að rýra tekjur bænda, það er ekki efni hennar. Og hún er ekki lögð fram til þess að svipta veiðiréttareigendur rétti sínum. Allar þessar fullyrðingar hafa verið bornar hér fram og eru að mínu mati úr lausu lofti gripnar.

Þetta mál er í grundvallaratriðum það að leggja gjald á erlenda laxveiðimenn er renni til fiskræktar á Íslandi og geti örvað fiskbúskap, m.a. fiskbúskap bænda og fiskbúskap í sjó. Það er verið að leita þarna að tekjulið sem gæti runnið til þessara mála. Þetta er einnig gert til þess að reyna að jafna hlut Íslendinga og útlendinga í samkeppninni um íslenskar laxveiðiár, enda hafði framlagning þessa máls þau áhrif, að í gang fóru þegar í stað samningaumleitanir og undirritanir á samningum við útlendinga um góðar laxveiðiár hér á landi. Menn vildu flýta sér áður en gjaldið yrði lagt á.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um helstu atriðin, þau sem ég tel svaraverð, sem komið hafa fram í ræðum hv. þm. við umr. um þetta mál.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. landbrh. góðar undirtektir við þessa till. Hann kvaðst vera sammála báðum höfuðsjónarmiðunum sem fram komu í þáltill., þ.e.a.s. gjaldtökunni og fiskræktarsjónarmiðinu.

Ráðh. efaðist um að þessi till., ef fram næði að ganga, mundi hamla eða draga úr veiðum útlendinga hér á landi. Þetta kemur þvert á skoðun veiðiréttareigenda, sem túlkuð hefur verið rækilega hér á hinu háa Alþ., og fulltrúa þeirra, sem hér hafa talað.

Hv. þm. Páll Pétursson gerði að umtalsefni að útlendingar hefðu haft hér á síðasta ári 5 þús. veiðidaga, Íslendingar 19 þús. og 8900 hefðu verið óseldir, og hann spurði: Hvers vegna nýta Íslendingar ekki þessa 8900 veiðidaga? Ástæðan er afskaplega einföld. Þessir 8900 veiðidagar, sem þarna eru afgangs, eru ýmist í vatnslitlum eða laxlausum ám. Það mætti t.d. kanna hvort það yrði ekki bylting til hins betra ef verðið yrði lækkað á þeim ám sem Íslendingum standa til boða. Nýtingin gæti þá orðið eitthvað skárri en kemur fram í þessum tölum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði að seljendur veiðileyfa, þ.e. veiðiréttareigendur eða umboðsmenn þeirra yrðu að taka þetta gjald á sig. Þetta er alls ekki rökrétt. Þetta gjald kæmi á veiðileyfin og kaupendur þeirra greiddu það nákvæmlega eins og menn greiða söluskatt af bíómiðum og öðrum aðgöngumiðum að danshúsum eða skemmtistöðum hér.

Páll Pétursson, hv. þm., sagði að ef þetta yrði nú að veruleika, þetta mál, þessi till., þá mundu bændur snúa sér að netaveiði í laxveiðiám. Þetta er lítt dulbúin og heldur ógeðfelld hótun sem ég kann ekki alls kostar við.

Þá tók Páll Pétursson Miðfjarðará sem dæmi um á þar sem arðskipting væri sérstaklega góð, eðlileg og væri á þann hátt, að allir veiðiréttareigendur gætu vel við unað. Það er von að hv. þm. taki þetta dæmi. Miðfjarðará er þekkt einmitt fyrir þetta og hún er bara undantekningin sem sannar regluna. Þess vegna nefndi hv. þm. þetta dæmi.

Hann lét að því liggja eins og margir aðrir, að nú ætti að fara að hirða eignarréttinn af bændum. Ég hef tekið það skýrt fram í máli mínu og gerði það í framsöguræðu, að þessi þáltill. snerist ekki um það, og ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þann þátt málsins.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson talaði þannig, að ég held að ég mundi kjósa að hann yrði einhvers konar farandræðumaður Alþfl. eða á hans vegum, þannig að hann sneri mönnum frá villu síns vegar og til réttrar trúar, þ.e.a.s. til sósíaldemókrataisma. Ég held að það væri eitt besta ráðið sem þeir, sem kenna sig við sósíalisma, gætu fengið, að láta landslýð hlusta á ræður eins og hv. þm. flutti hér. (Gripið fram í.) Til sósíalisma, einmitt. Ég hirði ekki um að fara mörgum orðum um þessa ræðu hv. þm. Hann lét að því liggja, að 1. flm. þessarar þáltill. gengi erinda Landssambands stangveiðifélaga. Í fyrsta lagi er 1. flm. ekki í neinu stangveiðifélagi, og þetta er heldur ósmekkleg aðdróttun. Ég gæti með nákvæmlega sama rétti sagt, að hv. þm. Ólafur G. Einarsson væri í þessu máli málpípa erlendra auðmanna. Þetta gæti ég sagt með nákvæmlega sama rétti og hann lætur að því liggja hér, að 1. flm. gangi erinda Landssambands stangveiðifélaga.

Hv. þm. Pálmi Jónsson flutti óvenjulega skörulega ræðu að því leyti, að hann tók í strákinn Tuma og sagði honum til syndanna á þann hátt sem mér skilst að hv, þm. sé ekki tamt að gera í þingræðum hér á þingi, hann sé hógværari en það, að hann taki svo til orða sem hann gerði í ræðu sinni. Ég ætla ekki að deila við hann.

Þá vil ég aðeins að lokum til þess að lengja ekki þessa umr., sem .ég tel að sé orðin fulllöng og einum of löng, leiðrétta mjög leiðan misskilning sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, sem hafði mörg orð um það og náttúrlega hefur haft í huga reynsluleysi ungra þm., að þau fáheyrðu tíðindi hefðu gerst hér á Alþ., að 1. flm. þessa máls hefði talað fyrir þáltill. og síðan boðað í lok máls síns að hann mundi flytja frv. um nákvæmlega sama mál. Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur líklega ekki verið í þingsalnum eða ekki hlustað á ræðu mína eða lesið útskrift úr henni, því það, sem ég segi orðrétt í lok ræðu minnar um þetta: atriði, er, með leyfi hæstv. forseta:

„1. flm. þessarar till. mun innan skamms fylgja henni eftir með tillögu um nýskipan fiskræktar í sjó og vötnum og um nýtt átak á því sviði.“

1. flm. var ekki að boða frv. um þetta sama mál, heldur um allt annað mál, og hæstv. landbrh. tók það fram í ræðu sinni, því hann skildi mig, að hann væri einmitt að láta athuga þessi atriði öll í sambandi við fiskræktina, sem er eitt af merkustu málum sem hafa komið upp á síðustu árum og gæti stórbætt bæði búskaparhorfur bændastéttarinnar, sem hefur verið næsta lánlaus að því leyti að hafa ekki gefið þessum málum meiri gaum en hún hefur gert, og einnig gæti þetta orðið stórmál í sambandi við fiskrækt í sjó. Menn hafa látið sig dreyma um það, að hægt væri að rækta uppi á landi eða í eldiskerum í sjó keilu-, þorsk- og ýsustofnana, og mér virðist að þjóðinni veitti ekki af því, ef það reyndist unnt að gera það. A.m.k. skaðaði ekki að gera tilraunir og undirbúa málið þannig að menn gætu farið að gera eitthvað verklegt.