20.12.1978
Efri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

143. mál, lögræði

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 199 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. um lögræði, nr. 95 5. júní 1947, sbr. lög 7511967, um breyt. á þeim lögum.

Frv, það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir að lögræðisaldur lækki úr 20 árum í 18 ár. Þessi breyting er að vísu ekki fyrirferðarmikil, en þarfnast þó nokkurra skýringa.

Síðast var lögræðisaldri breytt hér á landi árið 1967, þegar aldurinn var lækkaður úr 21 ári í 20 ár. Sú breyting var gerð í tengslum við lækkun kosningaaldurs. Þá þótti óeðlilegt að kosningaaldur væri lækkaður án þess að lögræðisaldur lækkaði að sama skapi. Aftur á móti er ekki eins sjálfgefið að lækkun kosningaaldurs fylgi lækkun lögræðisaldurs. Vel er hægt að hugsa sér að maður sé lögráða þótt hann njóti ekki kosningarréttar né kjörgengis. Líklegt er hins vegar að kosningaaldur verði lækkaður hér á landi, eins og gert hefur verið í flestum nágrannalöndum okkar Íslendinga. Er þá eðlilegt að lögræðisaldur hafi áður verið færður niður, enda er sennilegt að það eitt ýti á eftir lækkun kosningaaldurs í 18 ár.

Til skamms tíma hafa litlar umræður verið um breytingar á lögræðisaldri. Nú um nokkurt skeið hefur lækkun lögræðisaldurs aftur á móti verið meira í sviðsljósinu en áður. Ástæður þessa eru fyrst og fremst þessar:

Á árinu 1972 samþykkti Evrópuráðið ályktun þar sem mælt var með því, að aðildarríki Evrópuráðsins lækkuðu lögræðisaldur í 18 ár. Ýmis Vestur-Evrópuríki hafa þegar farið að tillögum ráðsins, svo sem England, Vestur-Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Lúxemburg. Árið 1974 var lögræðisaldur lækkaður í 18 ár í Svíþjóð og það sama gerðist í Danmörku og Finnlandi tveimur árum síðar. Lögræðisaldri í Noregi hefur hins vegar ekki verið breytt enn þá og er hann því enn 20 ár eins og hér á landi.

Á fundi ríkisstj. í okt. s.l. hreyfði ég því, að lögræðisaldur yrði lækkaður í 18 ár og lagafrv. þess efnis lagt fyrir Alþingi hið fyrsta. Var á þessa málaleitan mína fallist.

Á fundi dómsmrh. Norðurlanda, sem haldinn var í Helsingfors í nóvemberbyrjun, var spurst fyrir um það, hvort við Íslendingar og Norðmenn hygðumst breyta lögræðisaldri til samræmis við fyrrgreinda ályktun Evrópuráðsins. Á þessum fundi kom fram að Norðmenn búast við að lagafrv. þessa efnis verði lagt fyrir Stórþingið á þessum vetri. Einnig greindi ég frá því, að ég mundi leggja fram slíkt frv. nú í vetur.

Við höfum reyndar ekki verið neinir eftirbátar Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði ef lítið er nokkru víðar. Sjálfræðisaldur hefur á Íslandi frá ómunatíð verið 16 ár og lægri hér en á öðrum Norðurlöndum þar sem hann er 18 ár. Ég sé ekki nein rök fyrir því, að sjálfræðisaldur verði hækkaður hér á landi, enda mælir þróun síðustu ára og áratuga á móti því.

Sú skoðun er ótvíræð, að með aukinni menntun og lengri skólagöngu samfara aukinni velmegun hafi æskufólk náð skjótari þroska en áður fyrr, eðlilegt sé því, að yngra fólk fái fyrr forráð eigin mála en nú tíðkast. Þá má og nefna að fjárráð ungs fólks, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, hafa aukist til mikilla muna og þeim fylgja að sjálfsögðu meiri umsvif á sviði eigna og fjársýslu en áður þekktust. Fólk virðist einnig stofna fyrr til fjölskyldu og heimilis, enda var hjúskaparaldur alfarið lækkaður í 18 ár á árinu 1972.

Lögræðisaldur hefur að sjálfsögðu þýðingu á mörgum sviðum löggjafar. Ljóst er að breyta verður aldursmörkum í lögum eins og hjúskaparlögum og ættleiðingarlögum, en aftur á móti er spurning hvort breyta eigi aldursmörkum í öðrum lögum. Er rétt að láta slíkt bíða uns séð verður hvort frv. það, sem hér er til umr., nær fram að ganga eða ekki.

Herra forseti. Ég vænti þess, að hv. alþm. taki frv. þessu vel, þótt mér sé fullljóst að það þurfi vandlegrar athugunar við. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.