20.12.1978
Efri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

154. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 250 flyt ég stjfrv. til l. um breyt. á lögum nr. 3 12. apríl 1878, um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl.

Þetta frv. er flutt í samræmi við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf launþegasamtökunum um umbætur í félagsog réttindamálum launþega samfara setningu laga um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem samþ. voru á Alþ. í nóvemberlok. Frv. er því hluti af hinum félagslega pakka, sem svo hefur verið nefndur, sem ætlað er að mæta 3% af hækkun verðbótavísitölu á tímabilinu frá því í ágúst þar til í nóv. s.l.

Frv. er flutt samhliða öðru frv. um breyt. á lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot sem félmrh. hefur þegar mælt fyrir. Skv. því frv. tekur ríkisábyrgð aðeins til þeirra vinnulauna eða annarra skuldbindinga atvinnurekenda sem forgangsréttur fylgir skv. lögum um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., en þau lög hafa að geyma reglur um það, í hvaða röð kröfur skuli greiddar við gjaldþrotaskipti.

Í frv. því, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir þeim breyt. á núgildandi lögum um skipti á dánarbúum, félagsbúum o.fl., að forgangsréttur launakröfu svo og annarra þeirra krafna, sem ríkisábyrgð tekur til við gjaldþrot, er lengdur úr 6 mánuðum í 18 mánuði. Slík breyting er nauðsynleg vegna þess að oft líður langur tími frá því, að fyrirtæki komast í gjaldþrot og þar til gjaldþrotaúrskurður er kveðinn upp. Þessi dráttur hefur valdið því, að kröfur um laun eða aðrar lögmætar greiðslur hjá þrotabúi hafa glatast, ýmist algjörlega eða þá að hluta til. Réttur launþega á hendur ríkissjóði hefur þá jafnframt fallið niður þar sem ríkisábyrgðin takmarkast við þær kröfur sem forgangsréttur fylgir.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að nú um áramót taka gildi ný gjaldþrotalög. Með gildistöku þeirra er stefnt að því að hraða gjaldþrotameðferð, en það ætti að koma til góða launþegum sem og öðrum þeim sem kröfur eiga á hendur þrotabúi.

Loks er að finna í frv. það nýmæli, að örorku- og dánarbótum til launþega, maka þeirra og barna er veittur tilsvarandi forgangsréttur og launakröfum. Með frv. um breyt. á lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot er lagt til að ríkisábyrgðin nái einnig til þessara bóta. Dæmi munu til þess, að makar og börn hafa glatað lögmætum dánarbótum við gjaldþrot atvinnurekenda þótt launakröfur fengjust greiddar og hlýtur slíkt að teljast óviðunandi.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2, umr. og hv. allshn.