20.12.1978
Efri deild: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

136. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. um Iðntæknistofnun Íslands. Frv. gerir ráð fyrir því, að ákvæði um svonefnt iðnaðargjald, sem verið hefur í gildi um alllangt skeið, en fellur að óbreyttu niður við lok þessa árs, verði framlengt fyrir næsta ár, árið 1979. Þetta iðnaðargjald er greitt til Iðntæknistofnunar Íslands fram að lokum þessa árs skv. gildandi lögum, og það nemur 2 0/00 af kaupi tiltekinna aðila, sem rakið er í grg., þ. á m. verkafólks og fagmanna hjá iðnfyrirtækjum, verksmiðjum og verkstæðum. Gert er ráð fyrir að gjald þetta nemi um 70 millj. kr. á næsta ári og renni óskipt til Iðntæknistofnunar Íslands.

Gert er ráð fyrir að hluti af tekjum af jöfnunargjaldi, sem lögfest var fyrr á þessu ári og ætlað var að rynni til Iðntæknistofnunar, að upphæð 91 millj. kr., ráðstöfun á þessu gjaldi til Iðntæknistofnunar lækki sem þessu nemur og það verði fært á lið á fjárl. til iðnþróunaraðgerða, sem hækki að sama skapi. Gert er ráð fyrir að Iðntæknistofnunin njóti eftir sem áður góðs af þessu iðnþróunargjaldi til sérstakra verkefna eftir nánari ákvörðunum rn. og í samráði við stjórn stofnunarinnar.

Ég tel mjög mikilsvert að hægt sé að verja hærri upphæðum en verið hefur til iðnþróunaraðgerða, og tillagan um framlengingu þessa iðnaðargjalds stefnir að því marki.

Ég treysti því, að þetta frv. hljóti góðan hljómgrunn hjá hv. þd. og verði samþ. nú fyrir jólin.