20.12.1978
Efri deild: 42. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

156. mál, tollskrá

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á l. nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o.fl., sbr.l. nr. 24 10. maí 1977 og l. nr. 83 1. júní 1978, um breyt. á þeim lögum. Þetta frv. er á þskj. 265.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. er ákvæði þess efnis, að reynt verði með opinberum aðgerðum að sporna við óeðlilegri samkeppni erlends iðnaðar, m.a. með tollalækkunum. Hér var fyrst og fremst átt við frestun á tollalækkun á iðnaðarvörum skv, samningum Íslands við EFTA og EBE. Ekki hefur reynst unnt að ná fram á þessu stigi samkomulagi um frestun þessara tollalækkana, eins og kunnugt er.

Í 1. gr. gildandi tollskrárlaga, nr. 120 frá 1976, er hins vegar ákveðin lækkun tolla á ýmsum vörum sem ekki er samningsbundið að eigi sér stað. Hér er fyrst og fremst um að ræða svokallaða ytri tolla, þ.e. tolla af vörum frá löndum sem eru utan EFTA og utan EBE, enn fremur tollalækkanir á ýmsum fjárfestingarvörum svo og hátollavörum. Ljóst er að innlendur iðnaður er einnig í samkeppni við vörur frá löndum utan EFTA og Efnahagsbandalagsins og er þar fyrst og fremst um að ræða fatnað frá löndum í Asíu, en verulegur innflutningur á fatnaði á sér stað þaðan. Ekki sýnist eðlilegt að lækka tolla á þessum vörum þótt samningar knýi til lækkunar tolla á sömu vörum frá löndum innan EFTA og EBE. Sömu sögu er að segja um skófatnað, en innlendur skóiðnaður á nú mjög erfitt uppdráttar.

Verði heimild frv. notuð að fullu er tekjuauki ríkissjóðs af frestum ytri tollalækkana af fatnaði og skóm í hinum tilgreindu köflum tollskrárinnar áætlaður 150 millj. kr. á árinu 1979, og um leið er í þeirri ráðstöfun fólgin nokkur vernd fyrir innlendan fata- og skóiðnað.

Eins og hv. þdm. sjá á þessu, er hér um að ræða heimildarákvæði, en ekki beina lagasetningu, — heimildarákvæði sem ekki verður notað nema að athuguðu máli í samráði við þá aðila sem um er að tefla. Það vandamál, sem hér er um að ræða, er fyrst og fremst tengt ýmsum greinum iðnaðar, í þessu tilfelli sérstaklega fataiðnaði og skóiðnaði, en þar vinnur mjög margt fólk, og ýmsir hafa áhyggjur af því, að slíkur iðnaður bíði of mikinn hnekki af óheftum innflutningi slíkra vara, sérstaklega frá Asíu-löndum. Flestar þjóðir í Vestur-Evrópu hafa gripið til þess að gera ráðstafanir til þess að vernda hliðstæðan iðnað hjá sér, og þegar af þeirri ástæðu sýnist eðlilegt að við höfum a.m.k. opna leið til þess að gera ráðstafanir í því efni.

Ég leyfi mér svo að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.