24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

2. mál, samningar við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt og vekur upp skemmtilegar endurminningar þegar fram fara í sölum Alþingis umr. um landhelgismál. Ég fagna því í sjálfu sér, að þær eru ekki með öllu gleymdar.

Hér eru þrjár till., sem bornar hafa verið fram af hv. þm. Sjálfstfl. Út af fyrir sig er auðvitað ekkert við því að segja að menn taki sig fram um að bera fram till. til þál. En ég vil mjög taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að við megum ekki fara að stofna til deilna eða metings í landhelgismálinu. Við höfum reynt að komast hjá því, og ég vona að sú verði áfram reyndin. Þessar till. eru út af fyrir sig góðra gjalda verðar, en ég sé ekki betur en allar séu þær beint framhald af því sem allir flokkar hafa á hafréttarráðstefnu beitt sér fyrir. Mér mundi þykja það miður, ef hér á að hefjast metingur um það, eins og ég sagði, hverjum það sé að þakka að þetta sé stefna Íslands í hafréttarmálum.

Hér hefur aðeins verið minnst á það, sem áður hefur gerst í þessum málum. Það hefur verið minnst á samningana við Breta sem gerðir voru í Osló. Ég fullyrði, og ég held að enginn beri á móti því, að það, sem samið var í Osló, og það leiðarljós, sem haft var í þeim samningum, er einmitt það sem þessar till. fela í sér, og enn fremur í þeim samningum sem gerðir voru við Norðmenn. Rifjað hefur verið upp, held ég og ég þykist raunar muna það rétt, að í samningunum við Norðmenn héldum við fast á rétti Íslands til hafsvæðanna í kringum Jan Mayen og samningurinn kveður ekki á um skiptingana þar. Þess vegna tel ég að fyrrv. ríkisstj. hafi ekki á nokkurn hátt afsalað neinum þeim réttindum sem hér er um fjallað.

Ég fyrir mitt leyti treysti því fullkomlega, að núv. ríkisstj. undir forustu hæstv. utanrrh. og forsrh. muni áfram hér eftir sem hingað til gæta þess að afsala Íslandi engum rétti í hafréttarmálum. Auðvitað er það óleyst mál, hvernig mörkin verða dregin milli Norðmanna og Íslendinga að því er snertir auðæfi á hafsbotni vegna óvissunnar um hvort Jan Mayen verður talin byggð eyja í þessu sambandi eða eyja sem eigi rétt á landhelgi. En fiskveiðilögsagan er ótvíræð.

Í sambandi við Rockall samningana, sem gerðir voru við Breta, er okkar réttur viðurkenndur. Ég tel ekki neina ástæðu til að trúa öðru en því sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að svo muni enn verða.

Um þriðju till. vil ég segja, vegna þess að menn hafa nú rætt þetta allt í senn, að ég er mjög ánægður með að fram komi eindregin ályktun Alþ. um að frekari rannsóknir fari fram á íslenska landgrunninu. Við erum víst nokkuð á eftir öðrum hvað þær rannsóknir snertir og einkum að því er okkar eigin rannsóknir snertir. En ég minnist þess, að ekki alls fyrir löngu féllst hæstv. iðnrn. á með samþykki ríkisstj., að tvö erlend fyrirtæki fengju leyfi til þess að hefja rannsóknir á þessu svæði undir íslensku eftirliti. Ég tel að það hafi verið rétt stefna og geti verið byrjun á því starfi sem hér er um að tefla, þó að ég dragi á engan hátt í efa að við sjálfir eigum færa sérfræðinga til þess að annast þessi störf.

Hv. þm. Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestf., minntist nokkuð á þá samninga, sem gerðir hafa verið við erlendar þjóðir og lúta að gagnkvæmri fiskvernd. Ég vil mjög taka undir það sem hann sagði í þeim efnum. Þeir samningar voru ekki neinir undansláttarsamningar af Íslands hálfu. Þeir voru ekkert síður í þágu Íslendinga með tilliti til framtíðarinnar heldur en þeirra þjóða annarra sem þá gerðu. Tilgangur þessara samninga, hvort sem þeir eru gerðir við þjóðir austan tjalds eða vestan er að vernda fiskimiðin, að efla fiskstofnana, okkar sjálfra vegna að sjálfsögðu, en einnig til þess að auka þá fæðu sem til ráðstöfunar er fyrir þjóðir heims, og sannarlega veitir ekki af að auka hana.

Nú er svo að sjá sem Efnahagsbandalag Evrópu sé um síðir að koma sér niður á nothæfa fiskveiðistefnu, og ber að fagna því. Þá munu vafalaust koma óskir frá þessu bandalagi um að teknar verði upp viðræður um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Ég tel að eins og sakir standa sé engin forsenda til þess að við getum leyft útlendar veiðar á íslenskum fiskimiðum. Þar af leiðandi getur ekki heldur orðið um gagnkvæma fiskveiðisamninga að tefla, kannske ekki síst vegna þess að Efnahagsbandalagið hefur svo lítið að bjóða okkur af því sem okkur er fengur að að fá. Engu að síður mun ég greiða því atkv. og mæla með því, að samningaviðræður verði teknar upp við bandalagið, ef það óskar þess, á þeim grundvelli sem áðan var minnst á, að þessi ríki hefjist handa um gagnkvæmar fiskverndunarráðstafanir. Á þeim tel ég mikla þörf. Á þeim tel ég að við munum geta hagnast verulega, í fyrsta lagi Íslendingar sjálfir, í öðru lagi þær þjóðir, sem við okkur munu semja, og í þriðja lagi sá hluti mannkyns sem býr við skort.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umr. frekar en orðið er. En mér fannst ástæða til að segja þessi fáu orð, sem fyrst og fremst lúta að því eða áttu að gera að hefja nú ekki deilur okkar í milli um afstöðuna til landhelginnar. Okkur tókst að leiða þau mál til farsælla lykta að því er fiskveiðilögsöguna snertir án þess að til þess þyrfti að koma að menn færu í meting um hver ætti hvað. Ég vona að okkur takist einnig að leysa önnur þau mál, sem hafréttarráðstefnan fjallar um, á þann hátt hér heima að ekki komi til þess sem ég áðan nefndi.