20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég vona að ég þurfi ekki að hafa jafnmörg orð um þetta mál, sem hér er til umr., og hv. síðasti ræðumaður, sem eyddi u. þ. b. 45–50 mínútum í að ræða þetta mál, þrátt fyrir að afstaða hans var í meginatriðum orðin skýr til málsins og búið að lýsa öllum meginefnisatriðum á fyrstu 15 mín. Þess vegna vona ég, herra forseti, að mér takist að hætta áður en langur tími er liðinn.

Ég vil í fáeinum orðum lýsa afstöðu minni til þess máls sem hér er til umr., um hækkun á verðjöfnunargjaldi af raforku úr 13% í 19%. Ég er aðili að meirihlutaáliti sem leggur til að sú grein frv., er kveður á um hækkunina, verði felld. Ég er andvígur því að verðjöfnunargjald verði hækkað úr 13% í 19%. Ég get að svo stöddu samþ. að 13% gjaldið verði framlengt um eitt ár og sá tími verði nýttur til að mál RARIK, skipulag og rekstur, verði endurskoðuð þannig að tímabundið verðjöfnunargjald verði afnumið að ári liðnu. Ég er þeirra skoðunar, að samhliða ofangreindri endurskoðun á starfsemi RARIK verði að leita annarra ráða til jöfnunar verðlags á raforku í landinu en að fara eilíft þá leið, sem einu sinni var valin, tímabundin leið, að leggja á verðjöfnunargjald og hækka það síðan eftir þörfum.

Prósentuhækkun á raforkuverði er að mínu viti ekki ráðleg aðferð til jöfnunar á raforkukostnaði, sem miðar að því að andvirði jöfnunargjaldsins renni í Orkusjóð sem síðan í þessu tilfelli skilst mér að eigi að nota fyrst og fremst til þess að grynnka að einhverju leyti á skuldum RARIK, þannig að RARIK geti haldið áfram á sama grundvelli og fyrr og safnað meiri skuldum. Því legg ég áherslu á að skipulag þessarar stofnunar, rekstur þessa fyrirtækis verði tekinn til nánari endurskoðunar og athugunar þannig að það fjármagn, sem í þessa stofnun verður eytt, nýtist að einhverju leyti til bættrar skipunarmála. Fremur væri ráðlegt að breytingar yrðu gerðar á taxtafyrirkomulagi og verðmati á töxtum raforkusölunnar í landinu. Ljóst er að fjármál RARIK eru komin í óefni, en þau verður að leysa eftir öðrum leiðum.

Hækkun verðjöfnunargjalds kemur sýnilega harðast niður á íbúum og atvinnurekstri á Reykjanesi og í Reykjavík. Í Reykjaneskjördæmi er málum nú svo komið, og þá sérstaklega á Suðurnesjum, að atvinnurekstur þar, en hann byggist nánast eingöngu á sjávarútvegi og fiskiðnaði, stendur mjög höllum fæti og atvinnuleysi þegar orðið umtalsvert. Fiskiðnfyrirtæki á þessu svæði og útgerð standa mjög höllum fæti. Atvinnufyrirtæki á Suðurnesjum hafa verið í fjársvelti á undanförnum árum, þannig að ekki hefur verið um að ræða þar þá endurnýjun og enduruppbyggingu í fiskiðnaði og útgerð sem fram hefur farið víða annars staðar um land með fjárframlögum úr fjárfestingarsjóðum hins opinbera. Síðasta olíuverðshækkun kom sérstaklega illa við atvinnulífið á Suðurnesjum, og ef enn ný orkuverðshækkun kæmi til, þ.e.a.s. hækkun á raforkugjaldi eða jöfnunargjaldi, þá eru atvinnulífið og neytendur á þessu svæði ekki í stakk búin til að bera þær álögur. Þann aðstöðumun, sem atvinnulíf á Suðurnesjum hefur orðið að þola gagnvart ýmsum öðrum landshlutum á undanförnum árum, verður að leiðrétta tafarlaust. Á meðan svo hefur ekki verið gert, verður það ekki réttlætt að leggja nýjar álögur á atvinnulífið á þessu svæði til þess að rétta hag einstakra landsbyggðarhluta í raforkukaupum með álagningu hækkaðs jöfnunargjalds á raforku, sem kæmi vissulega hart niður á atvinnulífinu á Suðurnesjum. Þess skal einnig getið, að mörg atvinnufyrirtæki á Suðurnesjum eru nú þegar vafin vanskilaskuldum gagnvart orkusölum á þessu svæði. Það er því að bera í bakkafullan lækinn að íþyngja þessum fyrirtækjum með hækkuðu rafmagnsverði sem frv. það, sem hér er til umr., felur í sér.

Herra forseti. Ég vil að lokum vekja athygli á samþykkt sem gerð var á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 19. þ.m., þar sem þessi mál voru m.a. til umr. Sú samþykkt hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mótmælir þeim fyrirætlunum, sem felast í frv. er nú hefur verið lagt fram á Alþ., að hækka verðjöfnunargjald á raforku úr 13% í 19%. Skattheimta af rafmagnssölu er nú þegar 33%, en mundi verða 39% við umrædda hreytingu.

Fyrir notendur Rafveitu Hafnarfjarðar þýðir þetta aukin útgjöld sem nema 25–30 millj. kr. við núgildandi verðlag. Telja verður eðlilegra að leita annarra ráða til að leysa vandamál RARIK en frekari skattlagningar á þegar háskattaða nauðsynjavöru svo sem rafmagnið er og hlýtur að koma illa við hinn almenna notanda. Slík endurtekin skattlagning til lausnar vanda RARIK virðist ekki leiða til þeirrar sjálfsögðu ráðstöfunar að reyna að gæta fyllstu hagkvæmni í fjárfestingu, rekstri og eða notkun eðlilegra taxta fyrir veitta þjónustu.“

Það er ljóst af þessari samþykkt og einnig því sem fram hefur komið í fyrri orðum mínum, að það er tvennt sem fyrst og fremst þarf að athuga varðandi RARIK, þ.e. að endurskoða þarf taxtafyrirkomulagið og verðmatið, sem því tengist, og gera uppskurð á því skipulagi, sem þar hefur viðgengist á undanförnum árum, þannig að aukinni hagkvæmni megi beita fremur en gert hefur verið á undanförnum árum, sem leitt hefur til þessara vanskilaskulda sem fyrirtækið er vafið.