20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil gera nokkra grein fyrir einum af þeim frægu fyrirvörum, sem við Alþfl.-menn höfum á málum okkar þessa dagana, og bókun, sem fylgir áliti því sem komið hefur frá minni hl. iðnn. vegna frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku. Bókun þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Óljós er nauðsyn þess að hækka prósentu gjalds þessa um 46%, þ.e. úr 13 í 19%, þar eð rafveitur sveitarfélaga og Landsvirkjun hafa ýmist farið fram á eða hafa í undirbúningi beiðnir um miklar gjaldskrárhækkanir frá 1. febr. n.k.

Eðlilegra er, áður en ákveðin er hækkun jöfnunargjalds, að samræma taxta Rafmagnsveitna ríkisins til jafns við taxta annarra veitna, þ.e. að fækka töxtum og jafna þá.

Þá er nauðsynlegt að taka „marktaxta“ búrekstrar til endurskoðunar með tilliti til hækkunar olíuverðs og einnig að hækka refsitaxta, ef farið er fram úr tilteknu afli.

Verði hækkun jöfnunargjalds raforku samþ. er sá fyrirvari hafður á, að frestað verði um a.m.k. eitt ár fyrirhuguðu framlagi á lánsfjáráætlun til Bessastaðaárvirkjunar. — 800 til 900 millj. kr. framlag til þeirrar virkjunar eykur eðlilega álögur á rafmagnsnotendur, þótt ekki komi þær fram þegar í stað.

Þm. Alþfl., eins og raunar annarra flokka, eru óbundnir í afstöðu sinni um málið, enda skoðanir mjög skiptar um ágæti þess.“

Ég vil fara um þessa bókun örfáum orðum.

Ég tel að allur rekstur Rafmagnsveitna ríkisins á síðustu árum hafi verið óeðlilega slæmur, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Ég tel að taxtar þeir, sem þetta fyrirtæki hefur notað, séu óréttlátir og þá þurfi að jafna og þeim þurfi að breyta. Mér er ljóst að hæstv. iðnrh. hefur fullan hug á því, að þessir taxtar verði endurskoðaðir, þeim breytt og þeir samræmdir innbyrðis.

Ég vil láta þess getið, að þegar lítið er á tölur um rafmagnsverð í hinum ýmsu kjördæmum og þær síðan lagðar saman og meðaltal tekið, þá kemur í ljós að meðalrafmagnsverð í hinum ýmsum kjördæmum er mjög jafnt. Hins vegar er eitt atriði sem sker sig úr, og það er að þar greiðir Reykjavík, þótt undarlegt kunni að virðast, hæst verðið. Innbyrðis innan kjördæmanna eru taxtarnir hins vegar mjög misjafnir og er allt að 20 kr. verðmunur þegar lítið er á þá. Það er einnig alveg ljóst, að hækkun á þessu verðjöfnunargjaldi kemur verst við þá sem hæst greiða raforkuverðið, einfaldlega vegna þess að hér er um prósentuhækkun að ræða, en ekki krónutöluhækkun. Þess vegna er allt tal um jöfnuð eða jafnaðarmennsku í þessum efnum æði tvírætt, svo ekki sé meira sagt. Hins vegar skal ég játa það, að hér er gerð tilraun til þess að aðstoða þau byggðarlög sem verst hafa orðið úti vegna óeðlilega hás rafmagnsverðs. Það er þessi þáttur málsins sem ég get tekið undir og sætt mig við í þessu frv.

Ég vil einnig láta það koma fram, að meiri hl. þingflokks Alþfl. samþ. að flytja þetta frv. sem stjfrv. og ég hef viljað standa við það loforð flokksins að það næði fram að ganga, enda væri það nánast — ja, ekki einstæður atburður kannske, en óvenjulegur, ef slíkt stjfrv. yrði fellt á hæstv. Alþingi.

Ég vil láta það koma skýrt fram, að sá fyrirvari, sem ég hef á þessu máli og vil þá sérstaklega beina orðum mínum til hæstv. iðnrh., er m.a. fólginn í því, að ég vil ekki gangast undir það, ef rétt er, að á lánsfjáráætlun, sem við höfum ekki enn þá fengið að sjá, verði 800–900 millj. kr. framlag til Bessastaðaárvirkjunar á sama tíma og verið er að leggja auknar álögur á rafmagnsnotendur með þessu jöfnunargjaldi. Hvað sem hver segir um það, að ekki sé hægt að tengja þessi tvö mál saman, þá eru þau tengd órjúfanlegum böndum, einfaldlega vegna þess að framkvæmdir og framkvæmdafé til Bessastaðaárvirkjunar er tekið af almenningi í landinu, þó það heiti lán í byrjun, og þessar 800–900 millj., sem ætlaðar eru eða einhverjir munu hafa hug á að komist í lánsfjáráætlun, verða auknar byrðar á almenning í landinu, rafmagnsnotendur, og þar með viðbót við það jöfnunargjald sem hér er um rætt. Það hefði kannske verið eðlilegra að hugsa sér að reyna að leysa fjárhagsvandamál RARIK með þeirri fjárupphæð sem hugsuð er á lánsfjáráætlun til Bessastaðaárvirkjunar eða er hugsunin sú, að þetta jöfnunargjald verði óbeint undirstaðan undir Bessastaðaárvirkjun? Þessari spurningu skulu menn velta fyrir sér. — [Fundarhlé.]