20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson tengdi þessa nýju skattlagningu fyrirhuguðum áformum um virkjun Bessastaðaár eystra þegar hann ræddi það verðjöfnunargjald, sem hér er til umr., í ræðu sinni fyrr í dag. Ég hygg að þessi samtenging hv. þm. eigi allnokkurn rétt á sér — alla vega er hér um svipaðar upphæðir að ræða, það sem innheimtast á í skatti þeim, sem hér er verið að leggja til, og það sem gert er ráð fyrir í þessum fyrsta áfanga Bessastaðaárvirkjunar. Það er líka jafnljóst, að þetta verðjöfnunargjald, þó svo að markmiðið sé heilbrigt og fagurt út af fyrir sig, er einn skatturinn til. Mín sannfæring er sú, að þegar á liður árið 1979 verði fólkið í landinu lítt hrifið af öllum þessum smásköttum, sem á það eru að falla einn og einn, og m.a. af þeirri ástæðu hygg ég að sé ljóst af hverju menn hafa verið andvígir þessu tiltekna gjaldi þegar það er skoðað í þessu samhengi.

Við Alþfl.-menn höfum á undanförnum árum barist fyrir nýrri stefnu í orkumálum landsmanna. Við höfum barist gegn ævintýrum Kröfluflokkanna í orkumálum, en þess í stað lagt áherslu á stefnu sem byggi á hámarksarðsemi þeirrar fjárfestingar sem gerð er í þessum mikilvæga málaflokki. Með flutningi þáltill. um orkusparnað, sem nú liggur í þriðja sinn fyrir Sþ., hafa Alþfl.-menn einnig lagt áherslu á það, að þjóðin fari skynsamlega með þá orku sem hér er unnin eða flutt er til landsins.

Við myndun núv. ríkisstj. batt ég verulegar vonir við það, að nýr og vaskur maður tæki við stjórn orkumálanna. Ég hélt að hann mundi verða fær um að vinna að mótun framtíðarstefnu í orkumálum, jafnvel þótt hann kæmi úr röðum þeirra sem fylgt hafa Kröflustefnunni hvað dyggilegast fram. En satt að segja er ég farinn að hafa nokkrar efasemdir um að þessar vonir mínar muni rætast. Að vísu hefur nú verið hafið starf að sameiningu meginfyrirtækjanna í raforkuvinnslunni, starf að undirbúningi útvíkkaðrar Landsvirkjunar, og því ber auðvitað að fagna. En í samræmi við það er allfurðulegt að hæstv. iðnrh. skuli berjast við að setja af stað nýja virkjun austur á landi, svokallaða Bessastaðaárvirkjun, sem væri dæmigerð Kröfluvirkjun eða Kröfluákvörðun, tekin án samhengis við orkumál landsins í heild, án samhengis við arðsemisjónarmið og í þeim tilgangi einum, að því er séð verður, að fullnægja hrepparígstilfinningum í kjördæmi hæstv. ráðh.

Tilgangurinn með stofnun útvíkkaðrar Landsvirkjunar er einmitt að þar komi aðill sem hafi yfirsýn yfir orkuþörfina í samtengdu landskerfi, aðili sem gæti borið saman hina ýmsu valkosti til að fullnægja vaxandi þörf eða til þess að draga úr henni, aðili sem væri fjárhagslega ábyrgur fyrir þeim framkvæmdum sem hann réðist í. En hæstv. ráðh. berst nú fyrir því að binda hendur þessa væntanlega samræmingaraðila með því að afhenda honum framkvæmd á ákvörðun sinni um virkjun Bessastaðaár. Það væri viturlegra að mínu mati, að þeirri ákvörðun yrði frestað og virkjunin yrði ekki sett af stað fyrr en um hana hefði verið fjallað af væntanlegri Landsvirkjun sem nái til landsins alls.

Það hefur komið opinberlega fram, að Bessastaðaárvirkjun er ekki í röð hagkvæmustu virkjunarvalkosta. En sjálfsagt má kanna það nánar og þá bera þessa virkjun saman við nýja virkjun í Þjórsá, virkjun Blöndu, virkjun Jökulsánna í Skagafirði og möguleika á orkuvinnslu í Kröflu, ásamt virkjun Jökulsár í Fljótsdal, sem í fljótu bragði sýnist hagkvæmari virkjunarkostur austanlands en virkjun Bessastaðaár. Hér verða óháðir sérfræðingar að fjalla um og síðan stjórn sem getur haft heildaryfirsýn um orkumál landsins.

Ég sé satt að segja ekki ástæðu til þess að taka a.m.k. fullt tillit til sjónarmiða, sem augljóslega mótast óhæfilega af hrepparíg, eða til verkhönnuða, sem augljóslega eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta að því er varðar virkjunaráform af því tagi sem hér hafa verið gerð að umræðuefni. Og ég hygg að umfjöllun um Bessastaðaárvirkjun, þegar við erum að ræða um skatt af raforku eins og hér er verið að leggja til, eigi fullan rétt á sér og að betra hefði verið að sams konar umr. hefðu farið fram um Kröflu á sínum tíma — í tíma og áður en hafist var handa með þeim hætti og þeim skelfilegu afleiðingum sem öllum þingheimi er væntanlega nú fullkunnugt um.

Iðnrh. mun nú fara fram á verulega fjármuni til þess að bora nokkrar holur við Kröflu, og 150 millj. kr. á að verja á næsta ári til þess að hafa stöðina fullbúna að starfsliði. Ég vek athygli þingheims á því einu, að í því frv. til fjárlaga, sem nú vefst allverulega fyrir þingheimi að afgreiða, eru einasta 2.2 milljarðar kr. í fjármagnskostnað af þessari virkjun norður í landi, og þrátt fyrir loforð Kröfluflokkanna um birtu og yl, sem átti að streyma um landið allt frá þessari virkjun, sést hvorki merki birtunnar né ylsins. En 2.2 milljarðar fara í fjármagnskostnað einan í sambandi við þessa virkjun.

Í framhaldi af þessu hygg ég að rétt sé að gera sér rækilega og sérfræðilega grein fyrir hvaða ævintýri er verið að hefja í sambandi við Bessastaðaárvirkjun. Nokkurt upphaf þess hygg ég vera þá skattheimtu sem hér er gerð að umræðuefni.

En allt um þetta, þá á samt að halda Kröflustefnunni áfram og um það þarf ekki að hafa ýkjamörg orð. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að ráða tvo vaktmenn til þess að gæta stöðvarhúss og annarra verðmæta við Kröflu og spara þannig óþörf rekstrargjöld í bili, en að öðru leyti ætti að loka stöðinni um sinn. Það má kannske bora eina rannsóknarholu eða svo til að ganga úr skugga um hvort gufa finnist á nýju svæði við virkjunina, en annars er vafasamt að eyða nokkru viðbótarfé þarna á meðan landið rís og sígur á víxl og eldgos er stöðugt yfirvofandi.

Með lagningu Austurlínu er raforkuvandi samtengisvæðis Austurlands leystur í bili, og með því að nýta orkuna skynsamlega og hamla gegn bruðli með það afl, sem línan getur flutt, þarf ekki að setja nýja virkjun inn á kerfið norðan og austan Holtavörðuheiðar fyrr en á árunum 1985–1986. Í júní s.l. kom út orkuspá sem samin er af fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila í raforkuiðnaðinum. Þessa spá verður að taka með miklum fyrirvara, þar eð forsendur hennar eru m.a. þær, að dreifikerfi raforku geti jafnan látið notendum í té ótakmarkað rafmagn. Þá er önnur forsendan sú, að heimilisnotkun á raforku muni þrefaldast á hvern landsmann fram til aldamóta frá því sem nú er. Þarna er gert ráð fyrir að orkuþörf til rafhitunar á Austurlandi fimmfaldist á 10 árum, frá árinu 1976 til 1985, á meðan orkuþörf til heimilisnotkunar 1.8- faldast, til þjónustugreina 1.75 faldast og til iðnaðar 1.78- faldast. Auðvitað er hægt að stýra eftirspurninni eftir raforku til hitunar með gjaldskrá og með leyfisveitingu. Nú eru í undirbúningi fjarvarmaveitur í þéttbýlisstöðum Austfjarða, og munu þær létta verulega á aflþörf raforkukerfisins þegar þær eru fullgerðar.

Sú rafhitasala, sem orkuspáin gerir ráð fyrir á Austurlandi, kallar ekki eingöngu á virkjanir. Hún kallar einnig á gífurlegar fjárfestingar í dreifikerfi, sem Rafmagnsveitur ríkisins geta engan veginn staðið undir án þess að fá mikla fjármuni frá ríkissjóði eða öðrum. Ég tel því að taka eigi raforkumál þessa landshluta til nýrrar endurskoðunar og síðan verði markvisst unnið að því að ná hámarksnýtingu þeirrar raforku sem fyrir er á svæðinu og unnt er að flytja þangað um Austurlínu. Svo er hægt að fara að ræða um virkjun, enda verður þá nýja Landsvirkjunin komin á fót.

Frv. það, sem hér er til 2. umr., er enn eitt dæmið um tryggð hæstv. iðnrh. við Kröflustefnuna, sem ég hef leyft mér svo að nefna. Hér er haldið áfram á þeirri óheillabraut sem fyrirrennarar hans hafa á síðustu árum leitt yfir Rafmagnsveitur ríkisins. Fyrirtækið hefur staðið í mjög mikilli fjárfestingu, sem fjármögnuð hefur verið með lánum er hún hefur eigi getað staðið undir. Fjárfestingarvalið er að sumu leyti byggt á því að fullnægja nær óslökkvandi þorsta eftir raforku til hitunar húsa, sem aftur byggist á því að sú raforka hefur verið seld langt undir kostnaðarverði. Þá hefur fyrirtækið þurft að sinna fjárfestingu sem gerð er í félagslegu skyni og til að fylgja þar byggðastefnu, og þessari fjárfestingu hefur það staðið undir með ónógum tekjum og skattlagningu á raforkusölu annarra. Ég tel að hér hafi verið rangt að staðið. Sem dæmi við ég nefna að fyrir nokkrum árum fengu Rafmagnsveitur ríkisins lán hjá ríkinu Abu Dhabi til þess m.a. að kosta lagningu raflínu frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar. Í Mjóafirði býr m.a. víðkunnur höfðingi sem hér stendur beint á móti mér, hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, og það er vafalaust vilji Alþingis og allrar þjóðarinnar að hann búi þar sem allra lengst. En þeir Mjófirðingar nota ekki mikið rafmagn og þeir hafa fengið það ódýrt. Á s.l. ári var meðalverð marktaxtans svokallaða, sem er ríkjandi sölutaxti raforku í sveitum, 5.63 kr. Það verð er út af fyrir sig langt undir framleiðslukostnaði, og auk þess þarf að greiða Aröbunum í Abu Dhabi vexti af láni þeirra, greiða þeim afborganir, og það þarf að halda við línunni, sem liggur yfir erfiðan fjallveg. Af þessu verður mikið tap. Því er velt yfir á Rafmagnsveitur ríkisins og síðar í verðjöfnunargjaldi yfir á konuna í Reykjavík sem rekur rafknúna saumavél þegar hún er að sauma flíkur á fjölskyldu sína fyrir jólin.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé röng aðferð. Ríkissjóður og Byggðasjóður eiga að standa undir félags- og byggðastefnu með stofnframlögum til slíkra framkvæmda eins og ég hef hér nefnt dæmi um. Almennir raforkunotendur í þéttbýli eiga ekki að vera skattlagðir sérstaklega til þess að greiða niður húshitun með raforku í dreifbýlinu.

Í grg. þessa frv. eru bornir saman rafsölutaxtar á milli RARIK annars vegar og annarra rafveitna hins vegar. Hér hygg ég að sé um villandi samanburð að ræða að því leyti, að ekki er tekið tillit til þess, hvar þungi raforkusölunnar liggur hjá hverjum aðila um sig, og ekki tekið tillit til annarra ákvæða í gjaldskrá sem geta haft bæði þyngjandi og ívilnandi áhrif eftir atvikum. Viðskiptavinir RARIK eiga t.d. miklu auðveldari aðgang að raforkukaupum eftir amp-mælingu en viðskiptavinir Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það er líka allt önnur aðstaða fyrir rafmagnsveitu á hitaveitusvæði að selja raforku utan topptíma á lágu verði en fyrir RARIK, sem nú munu selja um 60% af raforku sinni til hitunar húsa.

Ég hef kynnt mér lauslega yfirlit yfir meðalverð á raforku annars vegar frá RARIK og hins vegar frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þar kemur í ljós að meðalverð RARIK fyrir landið í heild er mun lægra en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Því veldur að sjálfsögðu rafhitasalan og sala á svokölluðum marktaxta. Þótt RARIK hækki síðan aðra taxta verulega upp fyrir taxta Rafmagnsveitu Reykjavíkur, þá dugir það ekki til að tyfta meðalverðinu nema í 9.38 kr. á síðasta ári, þegar meðalverðið hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur var 12.32 kr. Jafnvel þótt skattlagning sé tekin út úr dæminu — það er mismunandi skattlagning á raforku til hitunar og annarrar notkunar — þá verður meðalverðið hærra í Reykjavík.

Það er væntanlega einkamál RARIK, hvort þær selja einum notendahópi svo ódýrt rafmagn að háir taxtar á lýsingu og þvílíku nægja ekkí til þess að lyfta meðalsöluverði upp í kostnaðarverð raforkunnar. En þegar fyrirtækið ætlar að bæta sér það upp með því að skattleggja viðskiptavini annarra rafveitna sem reka aðra verðstefnu, þá er það ekki þeirra mál lengur.

Nú er það svo, að við höfum víða á landinu komið okkur upp hitaveitum sem selt geta ódýra orku til upphitunar. Þegar rætt er um raforkutaxta til hitunar kemur upp það sjónarmið, að óeðlilegt sé að rafhitun sé miklu dýrari en jarðvarmahitun. Samt er miklu meiri kostnaður við vinnslu raforku og notkun hennar til hitunar, ekki síst þar sem eins er staðið að málum og gert er hér á landi.

Ég held að við munum ekki geta náð því að lækka kostnað við rafhitun húsa þannig að hann verði í raun sambærilegur við notkun annarra orkugjafa, nema með því að halda aflþörf hitunarinnar niðri eins og framast er kostur. Til þess þarf að haga þannig gjaldskrá og stýringu á rafhitun hjá RARIK að í því felist mikil hvatning til að nota eins lítið afl og mögulegt er. Þetta getur svo þýtt það, að menn noti ýmiss konar búnað til þess að geyma varma er framleiddur er með raforku á þeim tímum sólarhringsins þegar almenn notkun er minnst. Það getur einnig þýtt það, að menn hafi ýmiss konar brennsluofna til þess að grípa til í kuldaköstum og bæta við rafhitunina. Með slíkri stefnu mundi sparast gífurleg fjárfesting í virkjunum og dreifikerfi. Þess má geta, að í Noregi, þaðan sem fyrirmyndin að marktaxta RARIK er fengin, lenda menn í háum refsitaxta ef þeir fara yfir aflmörk sín, fimm- eða tíföldun á raforkuverði. Hér fara menn bara á heimilistaxta. Það verkar ekki beinlínis hvetjandi til sparnaðar þegar kólnar í veðri. Um allt land setja menn þá rafhitunina á fullt og því myndast samanlagður afltoppur sem búa þarf kerfið undir með stórkostlegri fjárfestingu.

Önnur leið er svo að veita íbúum dreifbýlisins sérstakan húshitunarstyrkt til þess að mæta að einhverjum hluta þeim kostnaði sem þeir hafa umfram íbúa þéttbýlisins, eftir að þeir hafa sjálfir gert ráðstafanir til að spara rafaflið við húshitunina. Nú mun einhver húshitunarstyrkur vera greiddur beint til RARIK, en hann hverfur þar í hítina. Hér kæmi til greina að greiða notendum styrk á svipaðan hátt og olíustyrkinn, en allir slíkir styrkir mega þó ekki draga úr hvatningunni til þess að leita sem ódýrastra lausna á upphitun húsa. Þær lausnir felast bæði í orkutegund þeirri, sem notuð er, í nýtni upphitunartækja og í orkusparandi aðgerðum, eins og bættri einangrun húsa svo dæmi sé nefnt.

Allur samanburður við raforkutaxta Rafmagnsveitu Reykjavíkur er ósanngjarn að því leyti, að vísitölufjölskyldan býr í Reykjavík eins og kunnugt er. Því hafa verðlagsyfirvöld lengi verið á varðbergi gagnvart hvers konar hækkunum á rafmagnsverði í Reykjavík. Fyrir nokkrum árum var fyrirtækinu alfarið neitað um nauðsynlegar hækkanir á gjaldskrá og sagt að taka erlend lán í staðinn. Það skuldar nú milljónir Bandaríkjadala og hefur á síðustu árum ekki fengið að hækka gjaldskrá sína til þess að greiða þá skuld niður. Það hefur því orðið að taka sífellt ný lán til þess að framlengja gömul lán. Hins vegar hafa vextir og gengistöp orðið til þess að kostnaður af raforku til íbúa á höfuðborgarsvæðinu er miklu hærri en hann þyrfti að vera.

Með því að hækka verðjöfnunargjaldið úr 13% í 19%, eins og lagt er til í því frv. sem hér er til umr., er hundraðshlutinn raunverulega hækkaður um 46. Það segir þó ekki alla söguna, þótt svo sé látið í því frv. sem hér er til umr. Rafveitur sveitarfélaganna þarfnast nú verulegra hækkana á gjaldskrám sínum vegna verðbólgunnar að undanförnu, og má reikna með beiðnum um hækkanir sem nema á bilinu 20–40%. Því til viðbótar hefur Landsvirkjun óskað eftir 35% hækkun á heildsölugjaldskrá sinni frá 1. febr. n. k. og 30% hækkun frá 1. ágúst n. k., en við það mun verð til notenda hækka um 14–17% 1. febr. og einhvers staðar á bilinu 12-15% 1. ágúst, ef þessi beiðni Landsvirkjunar verður samþykkt. Hækkun verðjöfnunargjaldsins, sem lögð er til í þessu frv., mun því væntanlega gefa RARIK og Orkubúi Vestfjarða allmiklu meiri tekjur en frv. gerir ráð fyrir.

Þá er óeðlilegt að svona gjald sé lagt á í hundraðshlutum á raforkuverð. Með því greiða þeir hæst gjald sem hæsta verðið borga fyrir, eins og komið hefur raunar fram hjá fyrri ræðumönnum sem talað hafa gegn þessu frv. Annars staðar, þar sem svona skattur er lagður á orkuverð í tengslum við ákveðna orkustefnu, er lagt fast gjald á hverja orkueiningu, svo og svo margir aurar á kwst. eða samsvarandi orkueiningu í olíu, kolum eða hvað sem hér er um að ræða.

Herra forseti. Ég vil ekki lengja mál mitt öllu meira en ég hef þegar gert. Þó kemst ég auðvitað ekki hjá því að minnast á það, sem kannske er ekkert meginatriði í þessu máli, en það er þó staðreynd, að með þessu gjaldi er auðvitað fyrst og fremst verið að leggja sérstakan skatt á suðvesturhornið. Ég held að með hverjum hætti sem sú tenging fari fram, þá sé ekki hjá því að líta að hér er gert ráð fyrir, á þessu stigi málsins a.m.k., svipuðum upphæðum og aftur fara í lítt undirbúna og að ég hygg enn sem komið er vanhugsaða virkjunaráætlun í öðrum landshluta. Ég vil minna hv. d. á það, að hér fór fram of lítil undirbúningsvinna síðast þegar tekin var ákvörðun af þessu tagi, og þar á ég auðvitað við Kröfluvirkjun norður. Ég held að ráðlegt sé að rasa ekki um ráð fram í þessum efnum. Alþingi hefur þegar gert alvarleg mistök í þessum efnum. Þess vegna getum við auðveldlega slegið tvær flugur í einu höggi, frestað skattlagningu á skattpínda þegna þessa lands og farið okkur hægar og forðast með því mistök sem ég hygg að öllum væri fyrir bestu, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem ég vona og vænti að hv. þingheimur hafi nú fengið af þeim virkjunarákvörðunum sem teknar voru fyrir norðan og betur hefðu ekki verið teknar.

Ég hef í ræðu minni lýst andstöðu við Kröflustefnu, sem ég hef leyft mér að nefna svo, hæstv. iðnrh., jafnt við Kröflu, Bessastaðaá og í fjármálum Rafmagnsveitna ríkisins. Ég hygg að skynsamlegra væri að orkustefna þessarar þjóðar yrði tekin til endurskoðunar með tilliti til arðsemifjárfestingar og hagkvæmni í orkunotkun. Ég hygg að skynsamlegra væri að húshitunarstefna yrði alveg sérstaklega athuguð í ljósi þess, að allt að 86% landsmanna gætu hugsanlega átt aðgang að hitaveitum, 6% að fjarvarmaveitum og vandamál þeirra 8%, sem þá eru eftir, leyst annað hvort með rafmagnshitun eða brennsluvarma. Ég hygg enn fremur að skynsamlegra væri að fara að reka hér orkusparnaðarstefnu, bæði að því er tekur til notkunar innlendrar og innfluttrar orku. Ég vek athygli á því, að slík orkusparnaðarstefna hefur verið rekin með árangri í nágrannalöndum okkar, í Danmörku og í Bandaríkjum Norður-Ameríku, og hefur skilað allverulegum árangri meðan ríkisvaldið hér hefur aldrei átt frumkvæði að því, að þegnarnir hegðuðu sér meira orkusparandi, ef svo má að orði komast. Ég hygg enn fremur að skynsamlegt væri að sjónarmiðum, ef ég má svo að orði komast, útnesjamennsku og atkvæðaveiða yrði úthýst við ákvörðun um næstu stórvirkjun Íslendinga og að Rafmagnsveitum ríkisins verði alfarið stjórnað af skynsemi, en ekki eftir duttlungum. Ég skora þess vegna á hæstv. iðnrh. að gera rækilegan uppskurð á Kröflustefnunni í orkumálum. Sá stjórnmálaflokkur á Alþ., sem ekki telst til Kröfluflokkanna, mun a.m.k. áreiðanlega veita honum brautargengi í þeim efnum. Þegar því er lokið, þá skulum við sjá hvað mikið af vanda Rafmagnsveitna ríkisins stendur eftir. Þegar orkustefnan liggur á borðinu, þá er hægt að hugsa sér margháttaðar aðferðir í átt til verðjöfnunar á raforku.

Mér er það ljóst að veikleiki röksemda minna er sá, að jafnframt þessum almennu rökum er ég að fjalla um hagsmuni byggðarlags míns, og mér er alveg ljóst að leiða má að því neikvæð rök, að slíkt búi á bak við, og við verðum að taka því. Ég get auðvitað ekki dregið á það dul, að ég er Reykvíkingur og þar að auki þm. fyrir þetta kjördæmi. Þetta væri skattur sem með allmiklum þunga mundi leggjast á fólkið hér. Ég held að á hinum enda skattheimtunnar, þ.e.a.s. hvernig eigi að nota þennan skatt, sé of margt óljóst til þess að viturlegt væri að fara þessa leið. Ég mun því greiða atkv. gegn frv. sem hér er til umr. Ég hygg að öll þessi mál þurfi frekar að skoða í heild sinni áður en við stígum fleiri skref. Ég minni á að fyrir 4–5–6 árum var önnur ákvörðun tekin hér. Það var dýrkeypt reynsla. Gætum okkar því vel og tökum ekki aðra slíka ákvörðun. Léttum heldur skattbyrðunum af fólkinu í landinu.