20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja örfá orð um þetta mál áður en það fer héðan úr d. Ég vildi út af orðum næstsíðasta ræðumanns, sem hér talaði, Vilmundar Gylfasonar, segja það, að hann talaði mikið um hreppasjónarmið, en í lok máls síns henti það hann sjálfan, hinn mikla mælskumann, að „það, sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.“

Hæstv. ráðh., sem síðast lauk máli sínu í þessu máli, talaði mikið um jólagjafir sem dreifbýlisþm. væru að senda þjóðinni. Ég er ekki á því að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé skemmtileg jólagjöf. Það er mjög langt frá því.

Svo sem kunnugt er fór nýlega fram undirskriftasöfnun í Rangárvallasýslu, þar sem mótmælt er hinu háa raforkuverði sem héraðsbúar sem og aðrir viðskiptavinir RARIK búa við. Meginhluti orkunnar, sem notuð er í landinu, er framleidd í Rangárvallasýslu eða á sýslumörkunum, þannig a.m.k. af þeirri ástæðu er í hæsta máta óeðlilegt að við skulum búa við eitt hæsta orkuverð sem þekkist. Rafmagnsnotendur í Rangárvallasýslu munu vera um 1000, þar af nota 70% hina venjulegu taxta RARIK. Eftir því sem ég hef dæmi um mun gjaldið fyrir raforkuna vera allt upp í 45 kr. á kwst. á ársgrundvelli, svo dæmi sé tekið af hjónum í einu kauptúnanna í sýslunni. 30% nota hins vegar marktaxta, en flestir þeirra eru með meiri eða minni yfirnotkun að auki vegna sveiflna milli árstíða. Í þessu sambandi er rétt að benda á hið háa fastagjald sem fylgir þar töxtum RARIK, en er hverfandi lágt hjá öðrum rafveitum.

Ég leyfi mér að vitna til eftirfarandi úr bréfi frá RARIK, sem lagt hefur verið á borð þm.:

Samkvæmt þeim upplýsingum stafar fjárhagsvandi þeirra aðallega af miklum kostnaði við orkuöflun, mjög erfiðum markaði í hinum dreifðu byggðum landsins og þeirri staðreynd, að fjár til félagslegra og óarðbærra framkvæmda hefur verið aflað með óhagkvæmum erlendum lánum og vísitölutryggðum lánum sem auka fjármagnskostnað stofnunarinnar óeðlilega. Tillögur RARIK hafa verið þær, að leysa bæri þennan fjárhagsvanda fremur með þeim hætti að eigandinn, þ.e. ríkissjóður, yfirtæki þennan hluta fjármagnskostnaðar en að hækka í sífellu smásölugjaldskrá sem leitt hefur til þeirrar miklu mismununar á raforkuverði sem er í dag. Samkvæmt síðustu tillögum Rafmagnsveitnanna var lagt til að ríkissjóður legði fram á fjárlögum ársins 1979 til frambúðarlausnar fjárhagsvandans 800 millj. kr. til þess að vega upp á móti hinum mikla fyrirsjáanlega halla 1979 og veitti enn fremur 680 millj. vegna hinna félagslegu þátta framkvæmda ársins 1979.

Í lok bréfsins treystir RARIK á óendurkræf framlög á fjárlögum, en tekur þó undir hækkun verðjöfnunargjalds sem tímabundna ráðstöfun. En er eftir nokkru að bíða í þessum efnum? Þennan vanda ber Alþ. og ríkisstj. að leysa án þess að bæta við á lævíslegan hátt einum skattinum enn á landsmenn alla og atvinnuvegina og mismununin óleyst eftir sem áður. Ég segi lævíslega, vegna þess að skatturinn er kallaður verðjöfnunargjald, en er það sannarlega ekki, því hann leggst þyngst á þá, sem mest greiða fyrir, og eykur þannig á óréttlætið. Með því að hækka þetta gjald í hlutfallslega er aukið á vanda notenda í dreifbýlinu. Frekar hefði átt að nota sömu peningaupphæð á selda kwst. Með núverandi fjárhæð verðjöfnunargjalds og söluskatti er þessi upphæð, svo dæmi sé tekið, t.d. í Reykjavík 5.92 kr. á kwst., en verður 6.81 kr. með samþykkt frv. óbreytts. Hjá RARIK er hún hins vegar nú 9.24 á kwst., en yrði 10.92 með samþykkt frv. Þarna er miðað við heimilistaxta.

Þótt þetta frv. leysi að einhverju leyti fjárhagsvanda RARIK, þá hefur það í för með sér enn þá meiri öfugþróun í jöfnun raforkuverðs og þótti flestum nóg komið áður, sbr. mótmælaskjal það er ég minntist á í upphafi. Eina leiðin í þessu máli er að fara að tillögum RARIK og fá óendurkræft framlag á fjárlögum. Það eitt er raunhæf byggðastefna. Það má í raun teljast furðuleg till. að vekja upp ágreiningsefni milli dreifbýlis og þéttbýlis í þessu máli í stað þess að veita fé á fjárlögum til þessa. Nóg er um ágreiningsefnin fyrir því og tímaleysi hér á Alþ. þessa dagana. Það var því í hæsta máta óeðlilegt að henda þessu máli hér inn, að öðru leyti en að framlengja óbreytt gjald.

Í viðtali við fjmrh. í blaði í gær kom fram að tekjuafgangur í fjárlagafrv, mundi verða 7–8 milljarðar. Er ekki leið til enn þá, áður en fjárlög verða afgreidd, að leysa þetta mál á þann eina hátt sem Alþ. sæmir, þ.e. að auka ekki á þann ójöfnuð sem nú er, heldur stefna þvert á móti að raunhæfri jöfnun raforkuverðs á sem allra stystum tíma?