20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

23. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. 8. og 9. mál á dagskránni eru að vissu leyti sama málið, þar sem þau mál fjalla bæði um hið sérstaka tímabundna vörugjald að mestu leyti.

Þetta frv., sem nú er til umr., um sérstakt tímabundið vörugjald, er flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 1. júní s.l. Tilefni þeirra var breyt. á lögum um tollskrá o.fl. sem samþ. var á seinustu starfsdögum Alþ. á s.l. vori og fól í sér breytingar á tollskrárnúmerum. Í Ed. — þetta mál kemur þaðan — var hins vegar samþ. breyting á þessu frv. og þurfti það því að koma aftur til þessarar deildar. Þessi breyting er annars vegar fólgin í hækkun 16% vörugjalds í 18%. Hins vegar voru tekin inn í frv. ákvæði V. kafla brbl. um kjaramál frá 8. sept. s.l. um hækkun sérstaks tímabundins vörugjalds úr 16% í 30% á þar til greindum tollskrárnúmerum. Hefur því V. kafli þeirra laga verið felldur niður í Ed.

Ég vil leyfa mér, af því að þessi mál eru í beinu samhengi, að tala fyrir 9. máli, og leyfi mér að vísa til þess þegar það verður tekið á dagskrá, en sum atriði þess máls, sem hér verður til umr., fjalla einnig um tímabundið vörugjald.

Eins og ég gat um áður, felldi Ed. niður V. kafla laganna um kjaramál, en hann fjallaði um breytingu á sérstöku tímabundnu vörugjaldi, og setti öll ákvæði um það inn í lögin um sérstakt tímabundið vörugjald, sem er 23. mál, sem ég er nú að tala fyrir. Enn fremur breytti Ed. 8. gr. frv, til laga um kjaramál á þann veg að fella niður að taka sérstaklega fram um skattlagningu sambúðarfólks, þar sem um skattlagningu þess gilda við framkvæmd skattalaga sömu reglur og um hjón, æski þau eftir samsköttun. Enn fremur hefur orðunum „skuldlaus eign“ verið breytt í: skattgjaldseign, þar sem það orð er notað um þetta hugtak í skattalögum.

Það hefur verið tröppugangur á þessu tímabundna vörugjaldi. Það er nokkuð lífseigt, var í byrjun ársins 18%, en var breytt með brbl. 1. júní í 16%. Með lögunum um kjaramál frá því í sept. var hluta gjaldsins breytt úr 16% í 30% varðandi vörur sem ekki eru taldar eins nauðsynlegar og hinar, sem skildar voru eftir í 16% flokknum, og nú er breytingin í þá átt, að 16% flokkurinn hækki upp í 18%. Ef þessar breytingar verða samþ. hér á hv. Alþ. verður tímabundna vörugjaldið 18% og 30%.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði samþ.