21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., steig hér í stólinn áðan, eins og menn heyrðu og sáu, og hann er vissulega boðinn velkominn til að taka þátt í störfum Alþingis. Alþingi og þjóðin öll hefur á undanförnum dögum orðið að hlusta á málflutning og heyra hvernig Alþ. hefur hagað störfum sínum, og vissulega hefur það ekki verið til þess að auka virðingu og veg Alþingis með hvaða hætti það hefur verið gert. Störf Alþ. hafa á undanförnum vikum, eða frá því að Alþ. var sett í haust, verið með mjög óvenjulegum hætti, sem birst hefur skýrast í athöfnum og vinnubrögðum stjórnarliðsins við afgreiðslu fjárlagafrv., sem hefur verið til umr., svo og fylgifrv. við fjárlagafrv.

Ósamstaða stjórnarflokkanna og reyndar stefnuleysi ríkisstj. hefur komið glögglega í ljós. Hér hafa forustumenn stjórnarflokkanna dag eftir dag verið með yfirlýsingar sem þeir hafa gefið til þess að kynna mikinn skoðanaágreining um lausn mála, og langtímum saman hefur verið beðið eftir ákvarðanatöku og afgreiðslu hér á Alþ. Þegar svo loksins eitthvað hefur heyrst frá þessum ágætu mönnum, þá hefur það ýmist verið í formi fyrirvara eða hótana. Allur málflutningur og afstaða Alþfl. hafa þó verið einna fálmkenndust. Hefur það komið fram í flóði þeirra fyrirvara sem rignt hefur yfir Alþ., sem sjálfsagt hefur verið ætlað það hlutverk að sýnast og láta þjóðina halda að um sérstöðu þeirra til afgreiðslu mála sé hér að ræða. Þeim hefur sumum hverjum verið ljóst, að þeir hafa hrakist fyrir vindi í þessu stjórnarsamstarfi og engu fengið framgengt af sínum stefnumálum eða kosningaloforðum þrátt fyrir það að að sögn formanns Alþfl. séu mörg orð úr stefnu Alþfl. í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Meira að segja sagði einn hv. þm. Alþfl. í Ed. fyrir tveimur dögum að hingað til hefði ekkert verið gert af viti. (Gripið fram í.) Hv. þm. Karl Steinar Guðnason situr í Ed., ef formaður þingflokks Alþfl. veit það ekki, en þetta voru hans orð í umr. í hv. Ed. fyrir tveimur dögum. Þessi vitnisburður hv, þm. er lýsing þeirra á störfum núv. ríkisstj. og stjórnarflokka það sem af er þessu þingi. Þetta kemur þeim, sem til þekkja og horfa á, ekkert á óvart, og á það hefur verið bent, að Framsfl. hefur látið Alþb. með hv. 1. þm. Austurl. í fararbroddi ráða algerlega ferðinni og hefur Alþfl. setið undir því öllu saman.

Þrátt fyrir alla þessa fyrirvara og yfirlýsingar síðustu daga, sem hafa stórlega truflað störf Alþingis, liggur nú ljóst fyrir eftir yfirlýsingu formanns Alþfl., að enn einu sinni verður Alþfl. að sætta sig við það, að ekkert tillit sé tekið til stefnumála hans og háttalag Alþfl.-manna hér á Alþ. er sjónarspil eitt. Það er ljóst af því, sem fram hefur komið, að þeir hyggjast standa að fjárl., sem í reynd munu leiða til halla á ríkisbúskapnum á næsta ári þrátt fyrir stefnumið og þrátt fyrir þær miklu skattaálögur sem núv. stjórnarliðar í óðaönn samþykkja þessa dagana. Og því miður er ljóst, að áfram verður hér mikil verðbólga í landinu á næsta ári, og þau fjárlög, sem nú er hugsað að afgreiða, munu ekki draga úr henni nema síður sé.

Ég vildi vekja athygli á þessu í tilefni af yfirlýsingu hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., og tel rétt að þjóðin fái að vita það og gera sér grein fyrir því, hvert sjónarspil Alþfl. hefur verið að leika hér á Alþ. og annars staðar allt frá því í kosningunum í sumar.