21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það er rétt til getið hjá hv. 4. þm. Reykv., að ég gaf honum orðið nú að gefnu tilefni, og ég vil minna hv. þdm. á það, að forseti hefur það á valdi sínu að raða á mælendaskrá eftir því sem honum þykir hyggilegt og eðlilegt. Ég vil líka taka það fram, að það eru mjög margir menn á mælendaskrá utan dagskrá. Það eru engar hömlur á því af forseta hálfu að menn fái að tala, það eru engar hömlur á því, og ég set engin tímamörk í því sambandi.

Hitt er annað mál, að hér liggur fyrir dagskrá sem ég hygg að allir viðurkenni að forseti hafi líka á valdi sínu að rædd verði. M.a. eru hér a.m.k. fjögur mál sem brýnt er að komist frá d. og hafa legið nokkuð lengi fyrir d. Hæstv. forsrh. hefur komið með mjög eðlileg og kurteisleg tilmæli um að atkvgr. um þessi mál fari fram áður en haldið verður áfram þeim sýnilega löngu umr. utan dagskrár sem hér verða. Ég mun því einnig vinsamlegast leyfa mér að fara fram á það við hv. þdm., að þeir verði við þessum tilmælum hæstv. forsrh. sem ég geri jafnframt að mínum tilmælum og ósk til d. En ég mun fyrst gefa hv. 5. þm. Austurl. orðið.