21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af þessum ummælum hv. 1. þm. Vestf. vil ég taka það fram, að ég hef ekki gert annað en taka undir eðlileg og sjálfsögð tilmæli um meðferð þingmála sem hæstv. forsrh. bar hér fram. Ég gerði þessi tilmæli hans að ósk minni til dm. og ég tók skýrt fram að þessar umr. mundu fara hér fram án þess að nokkur tímatakmörkun yrði gerð á ræðum manna. Og ég vil þakka hv. þm. Sverri Hermannssyni fyrir að hafa tekið undir þessi tilmæli. En ef það er svo, að það þurfi að leiða til einhverra erfiðleika hér í sambúð við þd., þá mun ég freista þess að halda þessum umr. utan dagskrár áfram í trausti þess, að hv. þdm. misnoti ekki þann tíma sem til ráðstöfunar er.