21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal fara að tilmælum hæstv. forseta og vera stuttorður. Ég taldi ekki rétt, þegar forseti veitti mér orðið utan raðar á mælendaskrá, að fara efnislega í máið, en vildi samt sem áður koma að ákveðnum atriðum og málaþáttum sem rétt er að hafa í huga við þessar umr. utan dagskrár.

Það er í fyrsta lagi skylda Alþingis og alþm. að starfa sjálfstætt að úrlausn mála, og alþm. eru samkv. stjórnarskránni eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Vitaskuld er það skylda alþm. að hafa samráð við umbjóðendur sína og þá þau stjórnmálasamtök sem þeir hafa boðið sig fram fyrir til starfa á Alþingi. Hins vegar er það algerlega óviðunandi, að þau samráð séu með þeim hætti sem raun ber vitni hvað Alþfl. snertir á undanförnum vikum. Það er algerlega óviðunandi að störf Alþ. séu trufluð með þeim hætti sem ljóst er af atburðarás undanfarandi daga.

Hæstv. forsrh. beindi þeim tilmælum til mín sem leiðtoga stjórnarandstöðunnar, að ég féllist á að umr. utan dagskrár hér og nú yrði frestað og atkvgr. um tiltekin frv., sem eru hér til afgreiðslu við 3. umr., færi fram, svo að Ed. fengi þau til meðferðar. Þessi málaleitun var borin fram í gærmorgun og þá til samstarfsflokksins, Alþfl.Alþfl. hafnaði þessum tilmælum hæstv. forsrh., og því ekki að undra þótt við, stjórnarandstaðan í Nd., tækjum svo sem nokkrar mínútur af fundartímanum til þess að svara þeim fullyrðingum sem fram koma í ræðum hæstv. ráðh. í umr. utan dagskrár sem þeir sjálfir eiga frumkvæði að. Það er algerlega óviðunandi og setur virðingu Alþingis og alþm. niður þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð sem stjórnarflokkarnir hafa gert sig seka um nú á þessu þingi.

Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á að það sjónarspil, sem hófst með frumkvæði hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., í þessum umr. utan dagskrár, sýnir í fyrsta lagi að það var enginn samstarfsgrundvöllur fyrir núv. ríkisstj. og ríkisstjórnarflokka þegar ríkisstj. var mynduð 1. sept. s.l. Þessir flokkar höfðu hver um sig borið fram ákveðna kosningastefnuskrá og talið sig hafa ráð á hverjum fingri fyrir kosningar s.l. vor. Eftir átta vikna samningaþóf var stjórnin mynduð. En í ljós kom að eingöngu var um bráðabirgðaráðstafanir að ræða í efnahagsmálum og því borið við, að tími hefði ekki verið nægur til þess að koma sér niður á ráðstafanir til lengri tíma. Menn bjuggust þess vegna við að næstu þrír mánuðir yrðu notaðir til þessa. En hvað kemur í ljós fyrir og um 1. des. s.l. ? Sama úrræðaleysið, sama stefnuleysið, og stjórnarflokkarnir bera enn fyrir sig að þeir þurfi lengri tíma til þess að gera till. er dugi eitthvað í efnahagsmálum, en þeir skuli bæta ráð sitt fyrir fjárlagaafgreiðslu, og vísað er til grg. með 1. desemberlögunum.

Við fjárlagaafgreiðslu kemur enn í ljós sama úrræðaleysið, sama stefnuleysið, og nú fáum við að heyra af hálfu hæstv. utanrrh., að enn sé tekinn frestur og nú er fresturinn til 1. febr. Það er alveg ljóst, að ekki er byggjandi frekar á þessum fresti en öðrum þeim frestum sem stjórnarflokkarnir hafa tekið sér og eingöngu hafa verið notaðir til þess að efla og auka ýfingar með samstarfsflokkum í ríkisstj. vegna þess að þeir hafa engin sameiginleg úrræði og raunar heldur engin úrræði hver flokkanna fyrir sig.

Í þriðja lagi vil ég leggja á það áherslu, herra forseti, að eftirtektarverðar eru yfirlýsingar hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. yfirráðh., hv. 1. þm. Austurl. Sá síðastnefndi segir: Alþb. er nú reiðubúið að ræða við samstarfsflokka okkar í ríkisstj. um lausn verðbólguvandans til skemmri eða lengri tíma. — Hvílík yfirlýsing! Eftir nær fjögurra mánaða stjórnarsetu er Alþb. nú reiðubúið til þessa. Og hver um sig þessara ágætu manna stígur á stokk og strengir þess heit, að hvað sem fyrri svikum líður, þá skuli nú gert eitthvað, sem mark er á takandi, fyrir 1. febr. En fyrirlýsing Alþfl. og afsökun fyrir því að hverfa frá fyrri skilmálum sínum gagnvart samstarfsflokkunum er á þá lund sem hv. þm. Sverrir Hermannsson lýsti sem Egilsstaðasamþykkt. Þar sem talað er um greiðslujöfnuð og rekstrarafgang fjárl. og lækkun skulda ríkisins hjá Seðlabanka um tilteknar fjárhæðir er eins líklegt, að greiðsluhallinn og rekstrarhallinn og skuldaaukningin hjá Seðlabanka verði jafnhá upphæð og jákvæðar tölur eru sagðar munu vera.

Það er ekki efni til þess eða tími að fara í þessi mál nákvæmlega að sinni, en auðvitað verður fylgst með því, hvernig að þessum yfirlýsingum verður staðið, eins og öðrum þeim yfirlýsingum sem hafa verið einskis nýt pappírsgögn eða orð út í loftið, sem hingað til hafa verið sögð.

Það er í fjórða lagi athyglisvert, að Alþfl. setur þó eða myndast við að setja ákveðin skilyrði, — skilyrði sem hv. þm. vita auðvitað, að verður fallið frá þegar á hólminn er komið samkv, fyrri reynslu.

Alþb. setur líka skilyrði, en þau skilyrði, sem það setur fyrir lausn málsins fyrir 1. febr., hafa raunar þegar að ýmsu leyti verið brotin. Það er talað um að efla íslenska atvinnuvegi. Hér hefur komið fram í umr., að rekstrargrundvöllur þeirra er brostinn. Það er talað um fulla atvinnu. Það er ljóst, að atvinnuleysi er á næsta leiti þegar rekstrargrundvöllur atvinnuveganna er brostinn. Og það er talað um að tryggja þann kaupmátt launa, sem að var stefnt með kjarasamningum 1977. Kaupmáttur launa er ekki sá sem að var stefnt með kjarasamningunum 1977. Kaupmáttur launa er langtum rýrari og ekki í námunda við það sem að var stefnt með samningunum 1977. Hann er mjög sambærilegur við það sem hefði verið hefðu febrúar- og maíráðstafanirnar fengið að njóta sín. Þetta eru þau skilyrði sem Alþb. segist munu setja. Þetta eru þau skilyrði sem þegar hafa verið brotin og verður ekki fullnægt frekar fyrir 1. febr. en stjórnarflokkarnir hafa getað fullnægt þeim hingað til.

Það er talað um að Alþb. vilji standa að niðurskurði á fjárl., sem Alþfl. gerir að skilyrði, en er efnt með þeim hætti sem hv. þm. Ellert Schram greindi frá áðan, en það eigi ekki að skera niður félagslegar framkvæmdir og þjónustu annars vegar og niðurgreiðslur hins vegar. Það er búið að skera niðurgreiðslur niður. Það var krafa hæstv. yfirráðh. áðan, að niðurgreiðslur væru þær sem stjórnarsáttmálinn segði til um, þ.e. á því stigi, að framfærsluvísitalan sé 10.5% lægri en ella mundi verða. Fjárveitingar í fjárl. nægja alls ekki til að halda þessu niðurgreiðslustigi á næsta ári, þar skortir milli 3 og 5 milljarða til þessa.

Það er allt á sömu bókina lært, að þeim skilyrðum, sem Alþfl. og Alþb, hafa sett, er ekki fullnægt. En athygli vekur, að það er einn flokkur sem ekki setur nein skilyrði, og það er Framsfl. Hann setur bara þau skilyrði að fá að vera í ríkisstj.

Í fimmta lagi vil ég svo að lokum vekja athygli á því, að það er rétt vika síðan ég hóf hér umr. utan dagskrár í tilefni af samþykkt flokksstjórnarfundar Alþfl. þá daginn áður eins og nú. Þau svör, sem ég fékk, voru frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, formanni þingflokks Alþfl., að Alþfl, mundi ekki standa að afgreiðslu fjárl. nema áður eða samhliða væri tekin afstaða til efnahagsmálafrv. Alþfl. Þau svör, sem ég fékk frá hæstv. forsrh. voru þau, að ekki væri unnt að taka afstöðu til efnahagsmálafrv. Alþfl. fyrir afgreiðslu fjárl. og fjárlög mundu verða afgreidd áður. Ég sagði ekki annað þá en að þm. skyldu fylgjast með framvindu málsins. Framvindan er nú komin á það stig, að Alþfl. hefur koðnað niður, orð hans og fyrirætlanir eru að engu orðin. Alþfl. var hinn mikli sigurvegari kosninganna s.l. vor. Hann koðnaði fyrst niður þegar hann gekk undir jarðarmen núv. stjórnarsáttmála með þátttöku sinni í ríkisstj. 1. sept. án þess að samið væri um nokkurn skapaðan hlut, eins og komið hefur fram undanfarna mánuði. Hann koðnaði enn frekar niður þegar hann stóð að brbl. 1. des. s.l. Og hann hélt áfram í þriðja sinn að minnka með því að koðna niður nú við afgreiðslu fjárl. Ef svo heldur fram sem horfir verður hann að engu orðinn í lok næsta mánaðar.