21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil gera í örstuttu máli grein fyrir atkv. mínu. Ríkisstj. hóf 1. sept. efnahagsaðgerðir sem reistar voru á afar veikum grunni. Nú er verið að afla tekna m.a. til þess að mæta þeim útgjöldum sem stofnað hefur verið til. Skattabyrði á íslenska þegna verður þung á næsta ári. Ríkisstj. hefur enn ekki markað neina heildarstefnu í efnahagsmálum og er þess vegna enn á rangri braut að því er þetta varðar, hvað sem verða kann í janúarmánuði. Þetta vil ég að komi fram og þetta vil ég rækilega undirstrika, um leið og ég stend með flokki mínum engu að síður og segi já.