21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál við 1. umr. og kom afstaða mín til þess þar fram og er ekki þörf á að endurtaka það.

Það, sem veldur því að ég kem hér upp í ræðustólinn, er einungis að í gærkvöld vitnaði hv. 1. þm. Reykv. til samtals við mig út af bréfi rafmagnsveitustjóra til alþm. og fjölmiðla og var a.m.k. nokkur blæmunur á því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í ræðustólnum, og því, er ég sagði honum í samtali okkar. Þetta bréf, sem undirritað er af rafmagnsveitustjóra, var tilefni þessara orða. Hv. 1. þm. Reykv. viðhafði þau orð, að ég hefði vitað um efni bréfsins, en neitað að skrifa undir það. Hið rétta er, að ég átti hlut að samningu þessa bréfs, en vegna þess að ekki vannst tími til þess að kalla saman stjórnarfund, þá töldum við rafmagnsveitustjóri réttara að rafmagnsveitustjóri skrifaði einn undir bréfið.

Bréf frá Sambandi ísl. rafveitna, sem hér hefur einnig komið til umr., er undirritað af formanni SÍR, Aðalsteini Guðjohnsen, og framkvæmdastjóra þess fyrirtækis. Það bréf var ekki borið undir stjórnarfund í Sambandi ísl. rafveitna og er hér nokkur munur á vinnubrögðum. Ég taldi sem sagt ekki eðlilegt, að ég sem formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins undirritaði bréf sem ekki væri borið undir stjórn fyrirtækisins. En formaður stjórnar Sambands ísl. rafveitna hefur sennilega aðrar starfsaðferðir. Þó er hann einnig stjórnarmaður í Rafmagnsveitum ríkisins.

Það var aðeins þessi leiðrétting, sem ég vildi koma á framfæri og er í sjálfu sér ekki stórt mál. Slíkur blæbrigðamunur í frásögnum af samtölum manna getur vitaskuld iðulega komið fram og er ekkert við því að segja. Ég taldi þó nauðsynlegt að það kæmi hér fram sem réttara er, að það er auðvitað fjarri lagi að ég hafi neitað að skrifa undir þetta bréf. Það var samkomulagsatriði milli okkar Kristjáns Jónssonar rafmagnsveitustjóra að hafa þennan hátt á.