24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þótt tilefni þeirrar umr., sem var utan dagskrár í gær, hafi í rauninni verið smávægileg fsp. um það hvort frétt í Morgunblaðinu um samráð ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna væri á rökum reist var í rauninni gott að þessi umr. skyldi fara fram, vegna þess að hún staðfesti að þessi frétt var ekki úr lausu lofti gripin. En það er annað í þessu máli sem mér finnst ástæða til að ræða alveg sérstaklega og það er hvort í raun og veru sé um nokkurt sérstakt samráð við verkalýðshreyfinguna að ræða frá hæstv. núv. ríkisstj.

Ég vil í upphafi þessa máls vekja athygli á því, að þau ummæli hv. 3. landsk. þm., að einn af miðstjórnarmönnum Sjálfstfl. hafi tekið jákvæðan og virkan þátt í störfum samstarfsnefndar, eru gersamlega úr lausu lofti gripin þegar af þeirri ástæðu, að þessi nefnd hefur í rauninni ekki enn þá tekið til starfa. Á því sjá menn að náttúrlega er gersamlega út í hött að fullyrða nokkuð um þau efni, þó að ég efist hins vegar ekki um starfshæfni þess manns sem hér er um að ræða.

Ég vil þá fyrst víkja nokkrum orðum að því, hvort um sérstakt samstarf sé að ræða milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj.

Nú liggur það fyrir í fyrsta lagi, að þær efnahagsráðstafanir, sem núv. ríkisstj. greip til, brjóta í stórum atriðum í bága við yfirlýsta stefnu launþegahreyfingarinnar í landinu, eins og augljóst er þegar af þeirri stefnu sem ríkisstj. hefur markað í sambandi við skattamál. En það hefur frá árinu 1973 verið ein af þýðingarmestu kröfum verkalýðshreyfingarinnar, að beinir skattar væru lækkaðir, en ekki hækkaðir hér á landi. Þetta efnisatriði sýnir svo glöggt sem verða má, að sú stefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur markað í efnahagsmálum, er ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu launþegahreyfingarinnar í landinu.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að þýðingarmikil samtök launþega hafa lýst andúð sinni á stefnu ríkisstj. Eitt af þessum samtökum er Bandalag háskólamanna, en formaður þess segir með leyfi hæstv. forseta í viðtali við Morgunblaðið á sunnudag:

„Það mun koma til aðgerða af okkar hálfu eftir helgina. Í því sambandi hefur komið til tals að beita vinnustöðvunum og auk þess viðnámi á öllum vígstöðvum. Ákvarðanir um okkar samningsmál hafa áður verið teknar, þar sem við höfum hvergi fengið að koma nærri, en nú er mælirinn fullur. Þetta er í hæsta máta ólýðræðislegt og ég sé ekki betur en það nálgist það að hægt sé að tala um ofsóknir á hendur okkar fólki.“

Þessi samtök héldu fund á Hótel Sögu í dag. Ég hef ekki frétt af niðurstöðum þess fundar, en opinberar yfirlýsingar, bæði frá formanni þessa stéttarfélags og frá formanni launaráðs háskólamanna, benda ekki til þess m.a., að þessi stóru og miklu samtök hafi lýst yfir neinni sérstakri ánægju með stefnu núv. hæstv. ríkisstj. varðandi þeirra kjör né heldur ýmis önnur samtök, og ég vil þá sérstaklega nefna til sjómannasamtökin. Ég vil einnig minna á það, að Landssamband verslunarmanna hefur neitað tilmælum Alþýðusambands Íslands um að sætta sig við það launahlutfall, sem nú ríkir í landinu, og ég vil enn fremur benda á að félagi bankamanna er haldið utan við þessa samstarfsnefnd. Þess vegna er algerlega úr lausu lofti gripið, að launamenn séu í einhverju sérstöku samráði við núv. hæstv. ríkisstj., að öðru leyti en því, að því miður finnast innan launþegasamtakanna menn sem meta meir flokkshagsmuni sína en hagsmuni launafólks í landinu.

En ég vil líka vekja athygli á því, að sá hv. þm., sem hóf þessar umr., er kunnur að því að sýna hinu háa Alþ. lítinn sóma. Kjarni ræðu hans var sá, að það ætti að byrja á því að kynna fjárlagafrv. í einstökum atriðum úti í bæ. Ef við rifjum upp skrif þessa hv. þm. á undanförnum árum, þá munum við eftir því, að hann hefur skrifað hvatningargreinar um að alþingi götunnar taki völdin í landinu, knýi hið þjóðkjörna Alþingi til undanhalds. Þessi krafa hans er í rauninni í samræmi við þær lýðræðishugmyndir, sem þessi hv. þm. hefur að öðru leyti, og ekki til fyrirmyndar og þess síst að vænta, að hann geti búist við að bergmál af þessum skoðunum sé látið athugasemdalaust hljóma um sali hins háa Alþingis.

Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. viðskrh., vegna þess að hann er nú staddur hér í þingsalnum, hvað hann hafi átt við, þegar hann segir í stefnuræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta orðrétt að það væri eitt af grundvallaratriðunum „að gæta þess vandlega að útiloka ævinlega áhrifavald flugumanna stéttarandstæðingsins.“

Hvað þýða þessi orð? Hvernig ber að skilja þau? Hvers konar útilokunarstarfsemi er það sem þessi hæstv. ráðh. hugsar sér að reka sem ráðh. í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar? Um þetta er nauðsynlegt að fá skýr og undanbragðalaus svör nú. Við höfum tekið eftir því, að ýmis fyrirtæki hér í landinu eru farin að loka dyrum sínum. Ég held að nauðsynlegt sé að þessi hæstv. ráðh. skýri þetta nokkru nánar.