21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil í stuttu máli lýsa stuðningi við þá till. sem hér er um að ræða í sambandi við byggingu jarðstöðvar. Ég tel rétt að það komi fram hér, eins og þm. sjálfsagt vita, að undanfarnar vikur hefur þetta land verið meira og minna sambandslaust við umheiminn, eftir því sem sæsímastrengirnir hafa slitnað á víxl í austur og vestur. Ég vil líka minna á í þessu sambandi, að þegar svo hefur staðið á, þá hefur varnarliðið hlaupið undir bagga með Pósti og síma og léð okkur farskiptarásir. Það er sjálfsagt vilji hv. þm. Kjartans Ólafssonar að svo verði áfram. Ég held hins vegar að hér sé um hið nytsamasta mál að ræða. Við erum raunar samningsbundnir um þetta mál og þetta er hluti þess, að við erum að taka fjarskiptin við umheiminn í eigin hendur og afnema það nýlendufyrirkomulag sem samningurinn við Mikla norræna ritsímafélagið hafði í för með sér. Það hefur verið vel að þessu máli staðið, skynsamlega að því unnið, og þetta er gott mál.