21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég reyndi, eins og flestir vita, á sínum tíma að komast í fjh.- og viðskn. — og komst ekki. Þar af leiðandi hef ég ekki aðgang að henni til þess að leita mér þeirra upplýsinga sem ég tel mig þurfa til ákvörðunar í þessari hv. d. Aðrir, sem komust í n., mæta ekki á fundum og þurfa aukafund til þess að ná saman. Ég vildi að þessu gefna tilefni beina þeirri fsp. til hv. frsm. n., — ég tek fram að ég stóð ekki að síðustu ríkisstj., eins og hv. þm. veit, þannig að ég tel mig ekki ábyrgan fyrir þeirri ákvörðun sem hér er á dagskrá, — hvort ekki sé rétt munað hjá mér, að þetta verk hafi verið boðið út á alþjóðamarkaði og verktakinn, sem vinnur verkið, sé erlendur verktaki sem vinni það náttúrlega samkv. ákveðnum tilboðsupphæðum. Er verktakinn kominn fram úr áætlun eða er um aðrar ástæður að ræða? Er búið að framkvæma meira á staðnum en Alþ. eða ríkisstj. hefur gefið leyfi til að framkvæma? Hvað er verið að fjármagna með þeirri upphæð sem hér er farið fram á, 1550 millj. kr.? Spurningarnar eru: Er verið að borga hér umframkostnað við verkið eins og það var upphaflega hugsað, eða er um að ræða umframkostnað vegna þess að framkvæmdir eru komnar lengra en samþykkt hefur verið að framkvæma á þessu verkstigi?