21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af því máli, sem hér er til umr., vil ég upplýsa það, að allar þær heimildir og öll þau lagaákvæði, sem þurfti um þetta mál, voru fengin á réttum tíma. Verk þetta var svo boðið út á alþjóðamarkaði. Sjö fyrirtæki sóttu um að vinna verkið og tekið var því tilboði sem lægst var, frá þekktu bandarísku fyrirtæki. Svo voru gerðir samningar um hraða verksins, en gert er ráð fyrir að ljúka verkinu í lok árs 1979.

Verkið hefur gengið samkv. áætlun um hraða og heldur betur. Eins og hv. 1, þm. Austurl. sagði, hefur gengislækkun haft áhrif á verðmætið. Lánsheimildin nægir þess vegna ekki. Hún var í lágmarki. En verkið hefur gengið svo vel sem raun ber vitni um og eitthvað mun vera komið meira af efni til þess en gert var ráð fyrir.

Hér er því aðeins sótt um langtímalán í staðinn fyrir þau bráðabirgðalán sem þegar er búið að taka í sambandi við verkið sem er unnið samkv. samningum.