21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Samkv. þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram, sýnist mér vera fyllsta ástæða til þess að staldra ögn við og hugsa sig um áður en hv. d, fer að rjúka í það að samþykkja málið sem hér liggur fyrir. Af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði og enn hefur komið fram, sýnist mér í fljótu bragði málið vera það, að ákveðið er að framkvæma tiltekinn hlut og til þess veitt fé. Nú er framkvæmdin komin fram yfir það sem samþykkt var, og er verið að fara eftir á fram á fjármagn. Hv. síðasti ræðumaður sagði að gengisfelling skipti hér máli. Mér sýnist að lánið sé í erlendri mynt, svo að ég sé ekki að gengisfellingar út af fyrir sig skipti máli. En allt um það er kjarnaatriðið í þessu, hvort Alþ. á að samþykkja, a.m.k. án umhugsunar, að framkvæmdaaðilar framkvæmi meira en þeim er heimilt, komi síðan eftir á og biðji um peninga fyrir því sem þeir virðast hafa framkvæmt og það í heimildarleysi. Þetta held ég alla vega að þurfi að skýra betur og frekar en að rasa um ráð fram í svona efnum. Þetta eru einmitt mál sem þarfnast betri skoðunar áður en þau eru ákveðin. Ég beini því enn til hæstv. forseta, sem var gert áður, að þessu máli verði frestað um nokkra stund a.m.k.