21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég óskaði að taka til máls, var að skýra frá því, að farið var með rangt mál áðan úr ræðustól varðandi afstöðu sjálfstæðismanna til málsins, sem sagt um það, hvort þeir væru að tefja störf þessarar d., en það hefur hv. þm. Gunnar Thoroddsen, formaður þingflokks Sjálfstfl., þegar útskýrt. Ég vil hins vegar leyfa mér að nota tækifærið til þess að tala um það mál sem hér er á dagskrá, a.m.k. meðan hv. þm. Vilmundur Gylfason ráðgast við sérfræðinga sína, sem mér sýnist hann vera að gera hér í þd. Hann hefur aðallega talað við þá hv. þm. Albert Guðmundsson og Halldór E. Sigurðsson, og eflaust á hann eftir að fara fram og hringja í Gullu litlu, sem var til umr. fyrr, til að spyrja hana hvort hún þoli frekari klyfjar og Pinkla til þess að binda á sig.

Ég skil vel að maður, sem hefur lýst því yfir aftur og aftur að samningar séu siðspilltir, sjái sóma í því, að hér á Alþ. verði efnt til samningsrofa um ýmsar aðgerðir sem hér hefur verið ákveðið að framkvæma. En ég á samt erfitt með að skilja það, hvernig á því getur staðið að hann kemur hér upp og segir að það hafi verið farið langt út fyrir þær heimildir, sem viðkomandi aðilar höfðu til þess að stunda umrætt verk áfram, á þeim forsendum að þetta lán hafi verið fengið erlendis frá. Til að átta sig á þessu þarf ósköp lítinn skilning. Upphæðin er ákveðin í íslenskum kr. í upphafi. Það er það sem skiptir máli.

Síðan er tekið lán erlendis, en það breytir ekki íslenskum upphæðum. Það er þetta sem gerir muninn.

Þar að auki kom það mjög skýrt fram hjá hæstv. fyrrv. ráðh., sem fór með þessi mál, að verkið hefur unnist betur en efni og horfur stóðu til og þess vegna þarf nú á þessum fjármunum að halda. Á þetta þarf að benda.

Það, sem skiptir samt fyrst og fremst máli í þessu sambandi, kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, þegar hann sagði að í þessu máli væri verið að færa hingað til landsins völdin í fjarskiptamálum Íslendinga. Það er kominn tími til þess, að við skiljum það, Íslendingar, að við erum háðir stóru erlendu fyrirtæki í þessum málum — fyrirtæki sem getur ekki tækninnar vegna komið í veg fyrir að Ísland verður við og við sambandslaust við umheiminn, vegna þess að sæsímastrengir slitna, eins og við höfum áþreifanleg dæmi um upp á síðkastið. Það er þess vegna sem fyrrv. ríkisstj. með hjálp góðra og framsýnna manna lét boð út ganga um að nú þyrfti stefnan að breytast í þessum málum. Þar að auki hefur þetta stórkostlega þýðingu fyrir Íslands hönd varðandi beinan fréttaflutning frá útlöndum, því að nota má jarðstöðina til þess að sýna beint í íslensku sjónvarpi erlenda atburði þegar þeir gerast. Þess vegna held ég að þetta sé eitt af betri málum sem að hefur verið staðið, og ef við á annað borð eigum að sækjast eftir erlendum lánum, þá sé a.m.k. ástæða til þess að við notum þau til slíkra hluta, en þurfum ekki að vera upp á aðra komnir í þessum málum.

Ég vil því fyrir mitt leyti ljá stuðning þessari brtt., auk þess sem sjálfsagt er að standa að frv. í heild. Ég minni á það, sem hér hefur reyndar komið fram í umr., þegar verið er að velta sjálfstæðismönnum upp úr því að þeir vilji ekki standa við fyrri samninga, að hv. þm. Albert Guðmundsson, eins og hann réttilega sagði sjálfur, var ekki stuðningsmaður fyrrv. ríkisstj. í þessum málum og var m.a. á móti því, að hún tæki lán erlendis til þessara og annarra hluta. Þetta kom réttilega fram hjá honum og það verðum við að hafa í huga.

En að koma hér upp í ræðustól og rugla saman íslenskum krónum og erlendum gjaldeyri og biðja síðan um umhugsunarfrest, nota frestinn til einskis, en kenna síðan öðrum mönnum um það, að þeir séu að tefja þingstörf, er ekki verjandi. Ég skil orðið ekki neitt í þeim flokki sem hagar sér svona.