21.12.1978
Neðri deild: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr. um þetta mál nú, sem ég tel óhjákvæmilegt að gera að umræðuefni og leiðrétta sum.

Í hinni löngu framsöguræðu hv. frsm. minni hl. iðnn., hv. 3, þm. Vestf., Kjartans Ólafssonar, mátti skilja svo af orðum hans, að fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins stafaði fyrst og fremst frá tíma síðustu ríkisstj. Ég hafði í stuttri framsöguræðu gert grein fyrir því, að hér væri um að ræða fjárhagsvanda, sem safnast hefði saman á áratugum, og rakti ástæðurnar til þess. Aths. hv. frsm. minni hl. gefa ekki rétta mynd af þessu máli og vil ég aðeins til viðbótar því, sem ég sagði áður, taka þetta fram:

Það er óvefengjanlegt, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa átt við fjárhagsleg vandamál að stríða áratugum saman. Það er líka rétt, að það stafar af því, að Rafmagnsveitunum hafa verið falin verkefni, sem eru félagslegs eðlis, sem ekki hafa getað staðið undir sér að því er kostnað snertir, og fengin í hendur ýmis virkjunarmál þar sem ekki hefur verið um jafnhagkvæma virkjunarkosti að ræða og önnur virkjunarfyrirtæki hafa haft. Samhliða þessu hafa ríkisstj. hver eftir aðra vanrækt — og ég tek alls ekki undan síðustu ríkisstj. — að sjá Rafmagnsveitum ríkisins fyrir nauðsynlegum óafturkræfum fjárframlögum í fjárlögum.

Það er villandi hjá hv. þm. að kenna þetta aðallega síðustu ríkisstj. Ég vil benda á það, að í vinstri stjórninni sem sat 1971–1974, þar sem Alþb. hafði iðnrh., Magnús Kjartansson, var þessi vandi, í lok ráðherratíðar hans, í rauninni stærri en sá vandi sem nú blasir við.

Það mun hafa verið í októbermánuði 1973 sem iðnrh. Magnús Kjartansson skipaði nefnd manna til þess að kanna fjárhagsörðugleika Rafmagnsveitna ríkisins og gera tillögur til úrbóta. Í nál. kom fram að vandinn væri mjög mikill: samansafnaður rekstrarhalli áranna 1972 og 1973 og fyrirsjáanlegur 1974. Í tillögum þessarar nefndar, sem iðnrh. Magnús Kjartansson byggði síðan á frv. sem hann lagði fyrir Alþ., er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að gefa eftir í verulegum mæli lán sem ríkissjóður hafði veitt Rafmagnsveitunum, að ríkissjóður þyrfti enn fremur að endurgreiða bráðabirgðalán frá Seðlabankanum til Rafmagnsveitnanna. Enn fremur þyrfti að breyta lánum, sem Orkusjóður hafði veitt Rafmagnsveitunum, og fallast á að þau lán Rafmagnsveitnanna skyldi endurgreiða með þeim kjörum sem ríkisstj. teldi Rafmagnsveitum ríkisins fært að standa undir, það þyrfti ekki að greiða vexti og afborganir fyrr en Rafmagnsveitur ríkisins hefðu fjárhagslegt bolmagn til þess. Til viðbótar öllum þessum eftirgjöfum var lagt til að taka upp verðjöfnunargjald, 13%, það sem verið hefur í gildi undanfarin ár.

Þessar till. nefndarinnar, sem iðnrh. skipaði, báru vott um að halli og fjárhagsvandi Rafmagnsveitnanna á árinu 1974 var orðinn gífurlegur og hlutfallslega miklu stærri en hann er nú.

Iðnrh. Magnús Kjartansson lagði vorið 1974 fram frv. til l. um að leggja á það 13% verðjöfnunargjald sem nú hefur verið um hríð í lögum. Vegna þingrofsins vorið 1974 náði þetta frv. ekki fram að ganga, en á aukaþingi, sem haldið var þetta sumar, lagði iðnrh., sá hinn sami, fram þetta frv. að nýju. Nú urðu stjórnarskipti áður en því máli yrði lokið, og það féll í hlut viðtakandi iðnrh. að koma málinu í gegnum þingið svo til óbreyttu að þessu leyti. En sem sagt, tillögur um þetta 13% verðjöfnunargjald urðu til 1973–1974 og frv. var flutt fyrir Alþ. tvívegis af iðnrh. Alþb.

Ég nefni þetta ekki í því skyni að gagnrýna eða deila á nokkurn hátt á þennan iðnrh., heldur þvert á móti til þess að benda á þann mikla vanda sem alltaf annað veifið hefur komið upp hjá Rafmagnsveitum ríkisins af þeim ástæðum sem ég hef greint áður, en um leið til þess að afsanna það, sem hv. frsm. minni hl. Kjartan Ólafsson gaf í skyn, að þessi vandi Rafmagnsveitnanna hefði fyrst og fremst orðið til í tíð síðustu ríkisstj.

Menn spyrja kannske: Hvernig stendur á því að þeir, sem hafa átt þátt í því að lögfesta þessa 13% gjaldtöku, skuli vera á móti því að bæta þar örlitlu við, þ.e.a.s. hækka það úr 13% upp í 19%? Þá er því til að svara í fyrsta lagi, að mönnum hefur verið ljóst að þessi 13% skattur hefur ýmsa alvarlega annmarka. Kemur það m.a. fram í því, að menn hafa aldrei treyst sér til að lögfesta hann nema til eins árs í senn í von um að finna aðrar hagkvæmari leiðir.

Þessi rafmagnsskattur er náttúrlega í rauninni ekki rétt nefndur verðjöfnunargjald, en það er það heiti sem nefnd Magnúsar Kjartanssonar valdi þessu gjaldi. Auðvitað er það ekki rétt heiti vegna þess að þetta miðar ekki fyrst og fremst að verðjöfnun. Komið hefur greinilega fram í þessum umr., að einmitt þeir, sem búa við erfiðust kjör og þurfa að borga hæst gjald fyrir rafmagnið, þurfa að borga í krónutölu líka langtum meira en aðrir sem búa við hagstæðari kjör, þannig að í stað þess að nú þurfa sumir notendur á vegum Rafmagnsveitna ríkisins að greiða tvöfalt heimilistaxtagjald á móts við það sem er í þéttbýlinu, þá þurfa þeir eftir þessa hækkun á verðjöfnunargjaldinu um 6% að greiða tvöfalt fleiri krónur fyrir hverja kwst. en þeir, sem í þéttbýlinu búa og búa við hagstæðust kjör. Að því leyti verkar þetta ekki til verðjöfnunar, heldur þvert á móti til að auka í krónutölu misréttið.

Önnur ástæða til þess, að ekki er hægt að fallast á þessa hækkun, er sú, að skattar hins opinbera eru það háir á raforkunotkuninni að lengra verður ekki með góðu móti gengið, því að það er ekki aðeins þetta 13% verðjöfnunargjald og till. um að hækka það upp í 19%, heldur auk þess 20% söluskattur. Þegar þessi opinberu gjöld á hvern rafmagnsreikning eru komin upp undir eða um 40%, þá er það auðvitað óhæfilegt.

Nú spyrja menn að sjálfsögðu: Hvaða leiðir á að fara til þess að leysa þennan vanda bæði Rafmagnsveitna ríkisins og sömuleiðis Orkubús Vestfjarða, sem ætlað er að fái 20% af hækkuninni eins og það fær af verðjöfnunargjaldinu sem nú er? Hefur verið rætt hér ítarlega, að það koma ýmsar aðrar leiðir til greina, en fyrst og fremst hefur það verið tillaga stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, að ríkissjóður yrði fyrst og fremst að axla þessa byrði með einum eða öðrum hætti. Ég skal ekki fara frekar út í það hér, en bendi á eitt.

Ég held að ég hafi rætt það hér áður, að ein af þeim leiðum, sem nauðsynlegt er að fara, er að létta fjármagnskostnaði af Rafmagnsveitunum vegna hinna miklu lána — og sumra óhagstæðra — sem á þeim hvíla. Mér er kunnugt um að rafmagnsveitustjóri ríkisins hefur haft uppi tillögur um og farið beinlínis fram á að fá heimild til þess að leita hagkvæmra lána til þess að greiða önnur óhagstæðari lán og létta þar með verulegri greiðslubyrði af Rafmagnsveitunum, sumpart með því að fá lán til lengri tíma, sumpart leita eftir lánum með lægri vöxtum og sumpart þá að sjálfsögðu með það í huga, að meðan mestir eru erfiðleikarnir hjá fyrirtækinu verði afborganir engar eða litlar. M.ö.o.: þessar hugmyndir um að leita hagkvæmari lána, umbreyta þeim eða „konvertera“ hafa vissulega verið uppi bæði í iðnrn. undanfarin ár og hjá stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, og nú ekki alls fyrir löngu mun rafmagnsveitustjóri ríkisins hafa viljað gera úr þessu alvöru og leita eftir slíku. En það undarlega skeði, að hann fékk ekki leyfi til þess hjá fjmrn. eða fjárlaga- og hagsýslustofnun, þar sem hún taldi það vera sitt verkefni, en ekki í verkahring RARIK. En hvað sem líður verkaskiptingu er þetta ein af þeim leiðum sem er óhjákvæmilegt að fara, að reyna að breyta lánum — eins og raunar hefur verið gert áður.

Ég endurtek, að 1974 lagði Magnús Kjartansson fram tillögur um að ríkissjóður greiddi lán, sem á RARIK hvíldu og höfðu verið veitt af Seðlabankanum, og að breytt yrði lánum Orkusjóðs til Rafmagnsveitnanna þannig að þau þyrfti ekki að greiða nema þegar Rafmagnsveiturnar gætu staðið undir því. Það er nokkuð hliðstætt með hin víkjandi lán sem Landsvirkjun hefur fen ið til sumra framkvæmda sinna.

Ég endurtek því, að ég tel ákaflega óheppilega leið að ætla nú að leysa vandann með því að hækka þetta verðjöfnunargjald, sem er miklum annmörkum háð og hefur alvarlega ágalla eins og ég hef áður minnst á. En ég vil að lokum skýra frá því í framhaldi af því sem við höfum áður sagt, að Sjálfstfl. telur að við afgreiðslu fjárl, sé hægt að leysa þetta mál. Þessi 6% hækkun á verðjöfnunargjaldinu er talið að gefi um 700 millj. kr., en ljóst er að það er ekki öll sú upphæð sem mundi innheimtast og greiðast til RARIK og Orkubúsins á árinu 1979, þannig að miðað við greiðslustöðu ættu um 500 millj. — eða kannske liðlega 500 millj. — að nægja í fjári. til þess að báðir þessir aðilar fengju svipaða fyrirgreiðslu og 700 millj. af verðjöfnunargjaldi á næsta ári eru. Sjálfstfl. leggur til, og ég vil beina því til þess fulltrúa hæstv. ríkisstj. sem hér er, hæstv. iðnrh., að það verði tekið til athugunar að taka slíka fjárhæð — um 500 millj. — inn í fjárl. Sjálfstfl. er reiðubúinn til að standa að lækkunartillögum um sömu upphæð á móti í fjárlögum.

Ég vil að lokum taka það fram, að mér sýnist, þar sem það er ljóst hversu alvarlegur og djúpstæður ágreiningur er um þetta mál hér á Alþ. og kann að muna ákaflega mjóu á hvorn veginn atkvgr. fara um þetta mál, að hæstv. ríkisstj. ætti að taka alvarlega til athugunar að leita annarra leiða og þá fyrst og fremst þeirra sem ég hef bent á.