21.12.1978
Neðri deild: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að það sé komið að lokum þessarar umr. um þetta frv. um verðjöfnunargjald, og ég vil því stikla á því helsta, sem fram hefur komið í þessum umr., til frekari áréttingar á því sem ég hef reyndar sagt áður.

Ég vil þá byrja á því að minnast á þau ummæli einhverra ræðumanna, að það bréf, sem barst þm. frá Sambandi ísl. rafveitna, hafi ekki verið sent út í umboði þeirrar stjórnar, og geta þess að ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá formanni Sambands ísl. rafveitna að þetta bréf varð til með þeim hætti, að haft var samband við alla stjórnarmenn sambandsins, áður en það var sent út, nema einn. Þetta er ekki óalgengur háttur á vinnubrögðum þegar um það er að ræða að afgreiða frá sér ályktanir með stuttum fyrirvara og þarf ekki að koma á óvart. Þær aths. og þær skoðanir, sem fram komu í bréfi Sambands ísl. rafveitna, voru samþykktar af öllum þeim, sem til náðist. Þess hefur verið getið að fulltrúa RARIK í stjórn Sambands ísl. rafveitna hafi ekki verið kunnugt um þessa ályktun, en um það er það að segja, að til hans náðist ekki, en haft var samband við hann síðar og þá upplýsti hann að hann hefði gert ýmsar aths. við þessa ályktun og einhverjar breytingar á grg., ef honum hefði unnist tími til þess. Þessum upplýsingum vil ég koma á framfæri, svo að það valdi ekki frekari misskilningi, að þetta bréf frá Sambandi ísl. rafveitna var sent í fullu umboði stjórnar sambandsins og sambandsins sjálfs.

Það er athyglisvert við þessar umr., að nánast allir ræðumenn hafa látið í ljós þá skoðun, að það verðjöfnunargjald, sem hér er til umr., sé mjög gallað. Menn hafa lýst skoðunum sínum á því að rétt væri að fara aðrar leiðir til þess að leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins. Síðast þegar hæstv. iðnrh. talaði féllst hann a.m.k. óbeint á að leita mætti og leita bæri annarra leiða, en mér skildist á honum að þar sem lítill tími væri til stefnu, þá væri ekki unnt að víkja frá þessu frv, sem hér er nú lagt fram. Hins vegar hefur hæstv. iðnrh. lýst því yfir hér í umr., að hann væri með í athugun ýmsar aðrar leiðir til lausnar á vandanum, og ég tel, eins og reyndar áður hefur komið fram í máli mínu, að þeirra lausna skuli leitað og hvað sem verður um þetta frv., þá sé mjög brýnt að fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins sé leystur með öðrum hætti en þeim að hækka sífellt verðjöfnunargjald frá ári til árs.

Frsm. minni hl., hv. þm. Kjartan Ólafsson, flutti langa framsögu. Það kom og fram í máli hans, enda þótt hann styddi frv. eins og það liggur fyrir, að hann taldi að stefna sú, sem í þessu frv. fælist, væri mjög gölluð. Enn fremur kemur í ljós við lestur á ýmsum grg., sem borist hafa frá Rafmagnsveitum ríkisins, og við lestur á ummælum rafmagnsstjóra, að hann og Rafmagnsveitur ríkisins hafa lagt fram tillögur um aðrar lausnir en þetta frv. felur í sér. Ég hef áður bent á það, að nú síðast þegar Rafmagnsveitur ríkisins lögðu fram tillögur sínar var ekki gert ráð fyrir að verðjöfnunargjald væri hækkað. Tillaga RARIK hefur verið sú, að brúa það vandamál, sem nú er fyrir hendi, með óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði og yfirtöku á fjármagnskostnaði. Ég er enn sannfærður um það við þessar umr. og við að kynna mér þetta mál betur þessa dagana, að þær leiðir eru miklu skynsamlegri en hækkun á verðjöfnunargjaldi og áframhald á notkun þess.

Einn nm. þeirrar n., sem um þetta fjallaði í þinginu, hv. þm. Árni Gunnarsson, hefur skrifað undir meirihlutaálit með fyrirvara. Mér hefur láðst að taka það nál. með mér, en það er athyglisvert að í þeirri bókun, sem hv. þm. hefur látið fylgja nál., hníga öll rök að því, hversu óefnilegt og óhagkvæmt þetta gjald sé. Hann tekur fram, að það sé óljós nauðsyn þess að hækka prósentugjald um tiltekna prósentu. Hann telur eðlilegra að áður en ákveðin sé hækkun jöfnunargjalds þurfi að samræma taxta Rafmagnsveitna ríkisins, og hann telur að nauðsynlegt sé að taka marktaxta búrekstrar til endurskoðunar. Öll þessi rök, sem eiga rétt á sér, mæla gegn því, að þetta frv. verði samþykkt, og ég vil enn leyfa mér að vona það, að þrátt fyrir að hv. þm. Árni Gunnarsson skrifi undir það álit minni hl., að þetta frv. verði samþykkt, þá fylgi hann þeim rökum, sem hann hefur sett fram, og greiði atkv. gegn því á þeim forsendum sem hann hefur sjálfur tíundað í bókun sinni. Þetta allt, ummæli ráðh., ummæli rafmagnsstjóra, sjónarmið þeirra, sem skrifa undir minnihlutaálitið, og svo síðast sú bókun, sem ég var hér að vísa til, staðfesta það sem hér hefur komið fram hjá andmælendum þessa frv., að hér er farið út á ranga braut. Hér er verið að leggja til að hækka gjald, sem er að stofni til alrangt og eykur á það misræmi, sem nú er fyrir hendi. Það kemur fram í því, eins og hér hefur verið margtekið fram, að verðjöfnunargjaldið er lagt á hlutfallslega. Það gerir ráð fyrir prósentuhækkun og felur það í sér, að þeir borga hærra verðjöfnunargjald sem eru stærri notendur raforkunnar. Þetta frv. hefur ekki heldur gert ráð fyrir því, að raforkuverð muni óhjákvæmilega hækka nú á næstu vikum eða mánuðum, en till. liggja fyrir um það t.d. frá Rafmagnsveitum ríkisins að gjaldskrá verði hækkuð um 22%. Miðað við frv., eins og það er lagt fram núna, er gert ráð fyrir að það gefi um 700 millj., en það má gera ráð fyrir að við hækkun á gjaldskrá um 22% muni þessar tekjur aukast enn um a.m.k. 300 millj. Ekki er gert ráð fyrir því í frv., að þessar tekjur komi inn, né heldur er fjallað nokkuð um það, hvaða áhrif þetta hefur á notkun, hvað þá á það misrétti sem nú ríkir og eins og bent hefur verið á mun ekki minnka við enn þá hækkaða gjaldskrá og aukið verðjöfnunargjald.

Þetta gjald mun að sjálfsögðu verða mjög íþyngjandi fyrir allan atvinnurekstur og er þó vart á það bætandi eftir þær skattaálögur, sem yfir hafa dunið að undanförnu, og þá erfiðleika, sem atvinnureksturinn á almennt í.

Þá hefur nokkuð verið fjallað hér um hina einstöku taxta og gerður samanburður á ýmist heimilistaxtanum eða marktaxtanum eða öðrum töxtum. Nú hefur verið upplýst, sem reyndar flestir vissu, að marktaxtarnir myndast af þrenns konar notkun rafmagns, þ.e.a.s. heimilisnotkuninni, raforku til súgþurrkunar og til upphitunar húsa. Í þessum þáttum, sem marktaxtarnir byggjast á, er ákaflega mikið misvægi. Þannig er miðað við gjaldskrá 1977 taxtinn á rafhitunina 2.70 kr. meðan taxtinn á heimilisnotkun er 12 kr. og taxtinn til súgþurrkunar um 20 kr. Til þess hefur verið vísað hér í umr., að ekki væri skynsamlegt og ekki væri sanngjarnt að hækka marktaxtann vegna þess að einn þáttur hans væri miðaður við upphitun með olíu. En þá er á það að benda, að sú viðmiðun er gerð eftir að olíuhitun hefur verið greidd niður með olíustyrkjum. M.ö.o.: eftir því sem Alþ. eykur olíustyrkinn, því lægri eru marktaxtarnir. Með því að greiða niður olíunotkun vegna upphitunar húsa erum við jafnframt að halda niðri marktaxtanum þeim taxta sem er áberandi vitlausastur af þeim töxtum sem hér eru til umr. Það liggur alveg ljóst fyrir, að sá taxti er langt undir kostnaðarverði. Ég er ekki að ásaka stjórn Rafmagnsveitna ríkisins fyrir þá gjaldskrá sem um þennan marktaxta gildir, en sú stefna, sem fram kemur í þeirri gjaldskrá, hefur verið ákveðin af stjórnvöldum, af ríkisstj., og ég held að við endurskoðun og athugun á þessum málum sé alveg nauðsynlegt að taka sérstaklega til athugunar gjaldskrá marktaxtans. Ég tók reyndar eftir því í ræðu hæstv. ráðh., að hann gat þess, að einmitt þessi taxti skyldi verða endurskoðaður. Ég geri ráð fyrir því, að þetta hafi verið tekið fram vegna þess að honum sé ljóst að hann er vitlaust uppbyggður. Það er alveg útilokað að reka Rafmagnsveitur ríkisins á töxtum sem eru langt undir kostnaðarverði. Og það er alveg útilokað að ætlast til þess, að landsmenn borgi niður raforku, sem seld er hjá RARIK, vegna þess að taxtarnir séu svona rangir. Meðan taxtar eru ekki meira í samræmi við kostnað og eru jafnranglega uppbyggðir og raun ber vitni varðandi þennan ákveðna taxta, þá er ekki hægt að fara fram á það, að alþm. eða þjóðin samþykki orðalaust að hækka verðjöfnunargjaldið svo mikið sem hér er gert ráð fyrir. Þá er rétt að víkja lítillega að þeirri verðjöfnun sem hér er sífellt verið að tala um. Þetta gjald heitir verðjöfnunargjald og maður skyldi halda að það gjald væri lagt á til þess að jafna verðið, til þess að greiða ákveðinn taxta niður, til þess að jafna þann mun sem á er. En þetta er alrangt. Það hefur reyndar verið bent á það hér í umr. margoft, að þó að þetta gjald, verðjöfnunargjaldið, yrði hækkað núna úr 13% í 19%, þá mundi það ekki hafa nein áhrif á þá taxta sem hæstir eru. Og reynslan hefur sýnt okkur það, að þrátt fyrir að verðjöfnunargjaldið hafi verið í gildi um nokkurn tíma, þá hefur það ekki verið notað til þess að jafna þann mun sem á er. Þó að maður geti út af fyrir sig tekið undir það, að illt sé við það að una að t.d. heimilistaxtar séu afskaplega mismunandi eftir því hvar fólk býr á landinu, þá er ekki hægt að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sett eru fram helst til stuðnings því að þetta gjald sé hækkað núna, þeirra sjónarmiða sem segja að þetta sé gersamlega óþolandi, vegna þess að þetta verður ekki notað til þess að jafna þennan mun sem nú er. (Gripið fram í: Það er búið að gefa yfirlýsingar um það.) Það hafa verið gefnar ýmsar yfirlýsingar um þetta áður, hv. þm., m.a. þegar þetta gjald var sett á. Reyndar ber heitið það með sér, að hér eigi að vera um verðjöfnun að ræða, en því miður hefur reynslan sýnt allt annað. Og ef við lítum á dæmið eins og það er í dag, þá er um það að ræða, að 800 millj. kr. halli er hjá Rafmagnsveitum ríkisins og til viðbótar eru um 650 millj. kr. framkvæmdaáætlun. Það er alveg ljóst, að þetta gjald, sem nú er verið að taka, þ.e.a.s. hækkunin sem nú á að koma til, mun renna til þess að greiða niður þennan halla og til þessara framkvæmda, eins og gert hefur verið allt fram að þessu. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fara í samræður við hv. þm. úr ræðustólnum, en þessi hv. þm., sem grípur hér fram í, vill gjarnan að þessu sé breytt, og ég held að það væri til nokkurs ávinnings og væri kannske málinu til framdráttar að einhverjar slíkar breytingar verði þá gerðar á þessum lögum til þess að tryggja að það gjald, sem hér er um að ræða, þetta verðjöfnunargjald og hugsanlegar hækkanir af því, renni til þess að jafna verðið, en ekki til þess að standa undir skuldum og til frekari framkvæmda. Það er full ástæða fyrir mig að taka þetta fram og gera það hér að umtalsefni, vegna þess að allt fram að þessu hefur þessi háttur verið hafður á í stað þess að nota þetta fé til þess að jafna þann mun sem hér er.

Ég vil einangra þetta vandamál, sem hér er á dagskrá um mismun á töxtum, við annars vegar þá, sem kaupa raforku sína frá hinum ýmsu rafveitum, og svo hins vegar við þá, sem búa í kauptúnum, í þéttbýli, á þéttbýlli stöðum í dreifbýli, sem kaupa ekki raforku frá sveitarafveitum. Ég hef ekki fengið nákvæmar upplýsingar um það, hversu mikill fjöldi notenda þetta er, en mér er sagt, að þeir séu um 20 þús. Ég held að þegar þessi munur er leystur með einum eða öðrum hætti, þá eigi að einangra það vandamál við þetta fólk og þessa staði og reyna að greiða niður þá taxta, en ekki alla þá taxta sem RARIK styðst við, eins og t.d. hitunartaxtana eða marktaxtana.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að hér er verið að leggja skatt á alla landsmenn. Það hefur verið talað um það hér í umr., að þessi skattur legðist fyrst og fremst á þá sem hér væru á höfuðborgarsvæðinu. En það er ekki rétt að því leyti til, að þessi skattur, þetta verðjöfnunargjald, leggst að sjálfsögðu á alla landsmenn — þá sem á annað borð kaupa raforku. En hins vegar leggst þessi skattur auðvitað þyngst á höfuðborgarsvæðið einfaldlega vegna þess að þar eru flestir notendur. Og menn verða að skilja það og verða að fallast á þau rök, að það er erfitt fyrir t.d. Reykvíkinga að sætta sig við sífellt hækkað verðjöfnunargjald, sætta sig við að gjöld hins opinbera séu orðin hartnær 40%, ef þetta frv. verður að lögum, á sama tíma og ekki er gerð nein alvarleg tilraun að öðru leyti til þess að leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins.

Hér hefur verið bent á það, að Rafmagnsveiturnar sjálfar og rafmagnsstjóri hafi gert tillögur um að breyta skuldum eða yfirtaka skuldir með óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði og með því að yfirtaka fjármagnskostnað. Mér hefur heyrst í þessum umr., að þingheimur sé fús til að leita þessara ráða og samþykkja þessar aðferðir. Nú síðast tjáði formaður þingflokks Sjálfstfl., formaður þingflokks stjórnarandstöðunnar, þingheimi og hæstv. ráðh. að Sjálfstfl. væri tilbúinn til þess að athuga það mál í sambandi við afgreiðslu fjárl. Ég vil eindregið mælast til þess, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. taki það til athugunar að leysa þennan vanda, sem nú blasir við, eftir öðrum leiðum en hækkun á verðjöfnunargjaldinu. Það er enn þá tími til þess og það er vilji til þess hjá þingheimi. Ég mælist eindregið til þess að þetta sé gert í staðinn fyrir að knýja á um að þetta frv. verði samþ. hér gegn mjög háværum og eindregnum mótmælum frá fjölda þm. Allar líkur eru á því, að ef þetta frv. verður samþ., sem ég reyndar veit ekkert um, þá verði ákaflega mjótt á mununum og í mikilli andstöðu við næstum helming alþm.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðh., að hann taldi að þeir, sem mæltu gegn samþykkt þessa frv., væru að senda landsmönnum kaldar jólakveðjur. Ég veit ekki hvaða landsmenn hann hefur í huga. Ég geri mér grein fyrir því, að margt fólk býr við háa taxta miðað við það sem gerist annars staðar. En það yrðu sannarlega kaldar jólakveðjur sem þeir fengju sem þyrftu að greiða þetta hækkaða verðjöfnunargjald sem núna er gerð till. um. Ég á von á því, að hæstv. ráðh. taki tillit til þeirra röksemda, sem fram hafa komið í máli mínu og margra annarra, og skilji að þetta mál verður að leysa til frambúðar með öðrum hætti en sífellt auknu verðjöfnunargjaldi. Ég held að nú þegar sé kominn tími til þess og það séu enn þá möguleikar á því, enn þá tími til þess að ganga í það að leysa vandamálið á þann hátt sem hér er verið að gera till. um af einstökum þm.