21.12.1978
Neðri deild: 43. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það hafa komið til þm. ótal erindi út af því máli sem hér er til umr., og ég mun ekki nota tækifærið til að lesa upp úr þeim bréfum sem þm. hafa borist, enda geri ég ráð fyrir að flestir þeirra séu sæmilega læsir. Ég mun ekki heldur fjalla hér um einstaka þætti raforkuverðsins, en leyfa mér samt af ákveðnum tilefnum að ræða þetta mál sem virðist ætla að kljúfa alla þingflokkana á Alþ. Ástæðan fyrir því, að þessi klofningur verður í öllum flokkum, er að sjálfsögðu auðsær þegar tekið er tillit til þess, að ekki einn einasti stjórnmálaflokkur hefur ákveðna og skýra byggðastefnu til að styðjast við og Alþ. hefur aldrei nokkurn tíma tekist að koma saman raunverulegri byggðastefnu.

Við verðum að átta okkur á því, að það mál, sem hér er til umr., er hluti af jafnvægismálum byggða hér á landi ásamt öðru, svo sem samgöngumálum, jafnvel símamálum og fleiri þáttum sem skipta mönnum í hópa eftir búsetu, þannig að fólk, sem býr í vissum landshlutum, greiðir eins og er lægra verð en þeir sem búa annars staðar. Ég tel að það verði að fara varlega inn á þá braut að jafna verð hér og þar án þess að menn hafi yfirsýn yfir þetta. Við verðum — og það er löngu kominn tími til þess — að átta okkur á því þegar rætt er um jafnvægi í byggð landsins og rætt er um þessa hluti, að jafna verð hér og þar, að finna út hvaða áhrif þetta hefur þegar allt er skoðað í senn.

Það er nú einu sinni þannig, að hlunnindum er misskipt hér á landi og því verður ekki breytt. Þótt auðvitað megi jafna margt með verðjöfnun, þá færum við t.d. ekki fiskimið til, við breytum ekki rekanum, svo að minnst sé á mál sem var hér til umr. fyrr, og á vissum stöðum á landinu er hagstæðara að virkja fallvötn en á öðrum. Sums staðar er jarðhiti, annars staðar ekki o.s.frv. Við verðum að átta okkur á því, að það, sem veldur m.a. búsetu manna hér á landi, eru einmitt þessi skilyrði og með því að fikta of mikið í einum þætti getum við haft óheppileg áhrif sem síðar leiði til þess að búseta manna verður ekki eins og best verður á kosið.

Með þessum orðum er ég alls ekki að segja, að ekki megi með nokkrum hætti hafa áhrif á búsetu manna, slíkt er sjálfsagt og eðlilegt undir vissum kringumstæðum og liggja til þess ýmis rök, þ. á m. félagsleg rök, svo að ég nefni einn þátt þeirra mála. Það, sem um er að ræða, er fyrst og fremst það, að við séum ekki blint að fikta í einu atriði án þess að vita hvaða áhrif það hefur á önnur.

Það mál, sem hér er til umr., er eitt af þeim málum sem allir stjórnmálaflokkar hafa ýtt á undan sér um margra ára og jafnvel áratuga skeið með þeim afleiðingum að við stöndum nú í því að fá enn einu sinni framlengt verðjöfnunargjald sem í gildi hefur verið, auk þess sem lagt er til viðbótar á sama stofn.

Ég vil taka undir mál manna sem hér hafa talað, þ. á m. hv. þm. Ellert B. Schram, sem hefur bent á að það er kominn tími til að við reynum að einanga sérstaklega það sem við getum kallað félagslegt og byggðalegt hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins. Við verðum að viðurkenna þann vanda, sem til úrlausnar er, og reyna að ráða bót á honum með eðlilegum hætti. Ég er nærri því viss um að ef það hefði verið gert einhvern tíma, þá hefði ekki verið valin sú leið sem við stöndum frammi fyrir. Ég leyfi mér að efast um, að sú leið hefði þá verið valin að skattleggja þannig að þeir, sem í dag verða að greiða hæst raforkuverð, verða að greiða mest, eins og nú er um að ræða.

Þá finnst mér mjög athyglisvert og það vil ég undirstrika sérstaklega, að formaður þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Gunnar Thoroddsen, lagði til í ræðu sinni, að vandinn yrði leystur með því að hæstv. ráðh. og þm. reyndu að ná samkomulagi í þessu máli, þannig að hægt væri að greiða úr vandamálum Rafmagnsveitna ríkisins með beinu framlagi úr ríkissjóði. Hann lýsti því jafnframt yfir, að hann væri tilbúinn til þess ásamt þingflokki Sjálfstfl. að skera niður að sama skapi í fjárl. Ég held að hér sé um það merkilegt tilboð að ræða, að fyllsta ástæða sé til að kanna hvort hæstv. ráðh. hafi ekki svör við því, hvort hann vill ganga til samstarfs um þetta mál, og hvort hæstv. forseti d. getur ekki séð af einhverjum tíma til þess að þm. nái einhvers konar samkomulagi í þessu máli. Ég er sannfærður um það, að þeir, sem búa á svæðum eins og hér í Reykjavík og njóta þess vegna þéttbýlis og þeirrar aðstöðu sinnar, að framleiða rafmagn með ódýrari hætti en aðrir landsmenn, — ég er sannfærður um að þeir eru tilbúnir til þess að leggja sitt fram af almennu skattfé á meðan reynt verður að leysa þetta mál með öðrum og farsælli hætti en við höfum gert hingað til.

Ég vil þess vegna ítreka áskorun mína til hæstv. ráðh. um að koma hér í ræðustól og tjá sig um það, hvort hann sjái sér ekki fært að verða við þessu tilboði sem hefur komið frá formanni stjórnarandstöðunnar, og ég veit að langflestir, ef ekki allir þm. Sjálfstfl. eru tilbúnir að taka undir þá áskorun.