21.12.1978
Neðri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að minnast hér fyrst á nokkuð óvenjuleg vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð af hálfu hæstv, ríkisstj. og sérstaklega hæstv, iðnrh. Við 2. umr. þessa máls í dag var skýrt frá því, að Sjálfstfl. teldi aðra leið æskilegri til að leysa vandamál RARIK og Orkubús Vestfjarða heldur en þá að hækka verðjöfnunargjald úr 13 í 19%. Var stungið upp á því og boðið til samkomulags að taka í staðinn fyrir þessa hækkun inn í fjárlög upphæð sem næmi um 500 millj. kr., en það mundi samsvara því sem inn kæmi á næsta ári af þessu 6% verðjöfnunargjaldi, og að Sjálfstfl. væri reiðubúinn að ganga til samstarfs um lækkun á útgjöldum fjárlaga sem þessu næmi. Ég verð að lýsa furðu minni á því, að hæstv. iðnrh. skuli ekki einu sinni virða þetta tilboð eða þessa fsp. svars. Það gerði hann ekki, heldur tók ekki til máls, sagði ekki eitt einasta orð eftir að þetta tilboð eða þessi fsp. var fram borin af stjórnarandstöðinni. Þetta eru ákaflega óvenjuleg vinnubrögð og ég minnist þess varla að slíkt hafi komið fyrir. Þó að hæstv. iðnrh. sitji nú í fyrsta sinn á þingi ætti þó háttvísi hans að benda honum til þess, að slík vinnubrögð eiga ekki við.

Hæstv. ráðh. hefur flutt brtt. við þetta frv. Hún er á þá leið, að hækkun gjaldsins um 6% — þetta er að vísu ekki rétt orðalag því að gjaldið er ekki hækkað um 6%, heldur miklu meira, en það er hægt að skilja við hvað er átt — skuli varið til að ná fram verðjöfnun á töxtum til heimilisnotkunar og iðnaðar hjá þessum aðilum.

Sannleikurinn er sá, að bæði í grg. frv. og í umr. kennir nokkurs tvískinnungs í því, hvað átt er við og hver tilgangurinn er með þessum 6% viðauka. Annars vegar er þetta rökstutt með því, að gjaldið verði að nota til þess að greiða halla Rafmagnsveitna ríkisins. Fjárþörf Rafmagnsveitnanna er skilgreind þannig í grg. frv., að annars vegar sé beinn fyrirsjáanlegur rekstrarhalli og hins vegar fjármagnskostnaður vegna félagslegra framkvæmda. Ætlunin er að taka inn í lánsfjáráætlun nokkurn hluta af þessu, en hinn hlutann er ætlað að brúa með þessu hækkaða verðjöfnunargjaldi. Hins vegar er gefið í skyn í grg. frv. að þetta eigi að nota til þess að lækka gjaldskrár Rafmagnsveitnanna og þar með að jafna verð eða minnka bilið milli taxta Rafmagnsveitnanna, sem eru mjög háir, og hinna, sem greiða lægra verð fyrir raforkuna. Vissulega er ekki hægt að samrýma þetta að fullu, og nú er gert ráð fyrir í brtt. hæstv. iðnrh., að hækkun gjaldsins skuli varið til að ná fram verðjöfnun á töxtum til heimilisnotkunar og iðnaðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvað hann eigi við með þessu. Beinast liggur við að skilja það svo, að þessa fjárhæð, sem er áætluð á ársgrundvelli 700 millj., þar af líklega um 500 millj. sem koma inn á næsta ári, eigi að nota til þess að lækka gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins, þannig að þessi fjárhæð komi þá viðskiptavinum RARIK til góða. Ef þessi skilningur er réttur, sem er næstur orðalaginu, þá er ekkert afgangs til þess að mæta umræddum halla RARIK. Eða er ætlunin þrátt fyrir þessa till. og þetta orðalag að nota þetta fé til þess að greiða halla RARIK? Þetta finnst mér að þurfi að fá skýrt fram, því að það er ekki hægt að halda áfram þeim tvískinnungi í málflutningi, að það eigi að nota þessar sömu fjárhæðir til hvors tveggja. Ef ætlun hæstv. ráðh. er að nota þetta til að greiða rekstrarhalla og fjármagnskostnað RARIK og halda því svo fram, að þetta muni verða til þess að gjaldskrárhækkanir í framtíðinni verði þess vegna minni en ella hefði verið, þá er líka rétt að það komi fram. Ég vil að það komi skýrt fram og alþm. og þjóðin eiga heimtingu á að vita hver er tilgangurinn.

Mér þykir miður farið að hæstv. ráðh. og ríkisstj. skuli gersamlega hundsa það tilboð sem hér hefur verið boðið um samkomulag í þessu viðkvæma deilumáli. Þessi mál hafa staðið þannig, að einu atkv. munaði í þessari hv. d. um það, hvort þetta 6% gjald yrði samþ. En hæstv. iðnrh. verður auðvitað að ráða því sjálfur, hvaða vinnubrögð hann hefur, þó að mér hafi fundist skorta nokkuð á eðlileg vinnubrögð og háttvísi, miðað við þær venjur sem gilt hafa hér á þingi.