21.12.1978
Neðri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, greip fram í fyrir hv. 8. þm. Reykv., þegar hann var hér í ræðustól fyrr í dag, til þess að koma því á framfæri að verðjöfnunargjaldið yrði ekki notað til að greiða hallarekstur RARIK, heldur til verðjöfnunar á raforku. Ég vil gjarnan að hv. 1. þm. Austurl. heyri það sem ég sagði. (Gripið fram í.) Má ég endurtaka það sem ég sagði til þess að vera sá sem hefur orðið hér í salnum, herra forseti? Það, sem ég var búinn að segja og ég vonast til að hv. 1. þm. Austurl. hlusti á, var að hann hefði gripið fram í fyrir hv. 8. þm. Reykv., þegar hann var hér í ræðustól fyrr í dag, til þess að koma því á framfæri að verðjöfnunargjaldið yrði ekki notað til að greiða hallarekstur RARIK, heldur til jöfnunar á raforkuverði. Nú hefur hæstv. iðnrh. hins vegar staðfest með tillöguflutningi sínum, að verðjöfnunargjaldið fer a.m.k. að hluta í rekstrarhít RARIK. Ef hv. 1. þm. Austurl., sem er formaður hv. fjh.- og viðskn., hefur byggt afstöðu sína til þessa verðjöfnunargjalds á þeim forsendum, að heildarinnheimta þessa gjalds færi til verðjöfnunar, en veit nú betur, er hann þá ekki reiðubúinn til að breyta um afstöðu til þessarar nýju skattheimtu? Eða er að koma í ljós að hér á sér stað enn ein innheimtan fyrir ríkissjóð til að fjármagna taprekstur stofnunar í fjárhagsvanda? Ef svo er, þá á sér stað skattheimta á fölskum forsendum a.m.k. að hluta. Ég vil því leyfa mér að óska eftir upplýsingum og þá enn þá einu sinni, hæstv. forseti, á þeim forsendum, að ég er ekki í fjh.- og viðskn. eða neinum nefndum, þetta er mín nefnd, Alþingi sjálft: Hvað innheimtist samtals í krónum miðað við nýjan álagningargrunn? Nú er vitað mál, að Landsvirkjun hefur farið fram á hækkun á raforkuverði. Það er vitað mál; að Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur farið fram á hækkun. Og það er alveg útilokað að fjh.- og viðskn. þessarar deildar Alþingis leggi fram ákveðna tölu án þess að geta svarað því á stundinni hvernig hún er til komin og rökin fyrir því, að þessi tala er lögð til. Ég hef áður getið þess í umr., að þau 19%, sem kunna að verða samþ. hér sem álagningarprósenta, leggjast á hærri grunn en 13% voru lögð á. En sem sagt, hvað mundu 13% óbreytt gefa af hinu væntanlega nýja raforkuverði og ég undirstrika að í vændum er bæði hækkun í heildsölu og eins í smásölu? Og hvað mundu 19% gefa? Ég bið ekki um svar við því sem þegar er í grg., að 6%, miðað við sama álagningargrunn og er, eiga að gefa 700 millj.

Annað, sem ég vildi gjarnan fá að vita er, hvað mikið af því sem innheimtist fer til niðurgreiðslu á rafmagnsverði til viðskiptavina RARIK?

Í þriðja lagi spyr ég, og þá er ég með nýframkomna till. hæstv. ráðh. í huga: Hvað fer há upphæð til greiðslu á skuldahala RARIK? Ég spyr um þetta í beinu framhaldi af því sem ráðh. sagði hér áðan, að ekki færi neitt af þessu verðjöfnunargjaldi til að standa undir rekstrarhalla fyrirtækisins í framtíðinni, og þá skil ég það svo, að hæstv. ráðh. eigi við að frá þeim degi, sem þetta nýja gjald er samþ., fari ekkert af þeirri upphæð, sem innheimtist, til að standa undir rekstrarhalla fyrirtækisins.

Þetta eru þrjár litlar spurningar sem ég vildi gjarnan fá svar við. Ef ekki er til svar við þessum spurningum, álit ég að málið sé svo illa undirbúið að alveg útilokað sé fyrir Alþingi að viðhafa þau vinnubrögð að samþ. álagningu þessa gjalds án rökstuðnings. Ég leyfi mér að bíða eftir svari.