21.12.1978
Efri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á l. nr. 68 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 7 23. mars 1972, lög nr. 60 30. apríl 1973, I kafla 1. nr. 10 22. mars 1974, II. kafla 1. nr. 11 28. apríl 1975, II. kafla 1. nr. 20 5. maí 1976, lög nr. 32 12. maí 1977, lög nr. 63 28. des. 1977 og III kafla 1. nr. 3 17. febr. 1978, um breyting á þeim lögum.

Með þessu frv. er að því stefnt, að tekjuþörf ríkissjóðs vegna lækkunar skatta lágtekjufólks vegna niðurfærslu verðlags verði mætt með álögum á þá aðila í þjóðfélaginu sem mesta greiðslugetu hafa. Í reynd er greiðslubyrði þessara aðila þó ekki aukin verulega frá því sem nú er, þar eð skattaálögum í þessu frv. er fyrst og fremst ætlað að koma í stað aðgerða í skattamálum á síðasta ári, þó að þær komi nú fram í öðru formi. Þannig kemur skerðing á fyrningarheimildum í stað skatts á hreinar tekjur og fyrningar í atvinnurekstri samkv. 10. gr. brbl. nr. 96 frá 1978, um kjaramál. Nýtt 50% skattþrep einstaklinga og hækkun skatthlutfalls félaga kemur í stað skyldusparnaðar, sem lagður var á svipaðan stofn á árinu 1978. Hækkun eignarskattshlutfalls kemur í stað eignarskattsauka 8. gr. brbl. frá því í sept. Þá er þess gætt, að aukin skattbyrði tengi einungis á þeim sem mesta greiðslugetu hafa. Skerðing á fyrningarheimildum og hækkun tekjuskattshlutfalls félaga eykur þannig einungis greiðslugetu þeirra rekstraraðila, er besta afkomu hafa, og hið nýja 50% skattþrep leggst einungis á hátekjur. Skattbyrði almenns launafólks mun hins vegar verða mun minni en orðið hefði samkv. þeirri tekjuöflun sem ráðgerð var í fjárlagafrv., og munar þar mestu um hækkun skattvísitölu og lækkun sjúkratryggingagjalds, en ákvæði 4. og 6. gr. frv. þessa um lækkaðan útsvarsstofn og léttari eignarskatta á elli- og örorkulífeyrisþegum stefna í sömu átt.

Þetta frv., sem hér er til umr., er í sjö greinum og síðan er ákvæði til bráðabirgða.

1. gr. frv. fjallar um að fella niður svokallaða verðstuðulsfyrningu. Þetta eykur tekjur ríkissjóðs um 1300 millj. kr. á árinu 1979 samkv. áætlun sem þó er erfitt að henda fullkomlega reiður á. Tilfellið er að verðstuðulsfyrningarheimildin hefur ekki reynst eins vel og menn ætluðu í fyrstu, og m.a. af þeirri ástæðu er ekki ástæða til að halda henni áfram.

2. gr. frv. skerðir svokallaða flýtifyrningu úr 30% í 10%. Eru líkur á að þessi breyting muni færa ríkissjóði um 1060 millj. kr. í auknar tekjur á árinu 1979.

Þótt þessar breytingar séu gerðar á verðstuðulsfyrningum og flýtifyrningum, þá er að sjálfsögðu ekkert hróflað við almennum fyrningum tekju- og eignarskattslaganna.

Samkv. 3. gr. fellur skyldusparnaðurinn niður, — hann átti lögum samkv. að falla niður um n.k. áramót, — en í stað hans kemur nýtt skattþrep við tekjuskattsstigann og er það 50%. Miðað við meðalnýtingu frádráttarheimilda leggst þessi viðbótarskattur að meðaltali á einhleypinga, sem hafa yfir 4 millj. 527 þús. kr. í brúttótekjur, og á hjón, sem hafa yfir 6 millj. 751 þús. kr. í brúttótekjur.

4. gr. fjallar um það, að ónýttur persónuafsláttur verði nýttur til greiðslu sjúkratryggingagjalds áður en hann gengur til greiðslu útsvars. Þessi breyting mun rýra tekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr.

5. gr. frv. fjallar um að skyldusparnaður félaga falli niður. Í stað þess hækkar tekjuhlutfall félaga úr 53% í 65%. Áætlað er að tekjuauki ríkissjóðs af þessari breytingu verði 1200 millj. kr. á árinu 1979.

6. gr. frv. fjallar um eignarskattinn. Eignarskattur einstaklinga hækkar um 50% og eignarskattur félaga um 100%. Skattfrelsismörk elli- og örorkulífeyrisþega verða 50% hærri en annarra gjaldenda. Hjá slíkum verða mörkin um 17.1 millj. kr. hjá einhleypingum og 25 millj. 650 þús. kr. hjá samsköttuðum hjónum.

Með þeim breytingum, sem nú er verið að leggja til að gerðar verði á skattalögum, verða hæstu beinir skattar samtals 63% af skattgjaldstekjum. Seinustu 10% leggjast á tekjur einhleypinga, eins og ég gat um áður, sem eru yfir 4 millj. 527 þús. kr., og tekjur hjóna, sem eru samsköttuð, yfir 6 millj. 751 þús. kr.

Ef þessar breytingar verða að lögum, verða hámarksskattar á hæstu tekjur 50% tekjuskattur, 11% útsvar og 2% sjúkratryggingagjald eða samtals 63%. Á þessu ári eru þessir hæstu skattar 40% tekjuskattur, 11% útsvar, 2% sjúkratryggingagjald og 6% hátekjuskattur, sem lagður var á samkv. brbl. frá því í sept., eða samtals 59%. Til viðbótar kemur svo á þessu ári skyldusparnaðurinn, sem auðvitað er ekki skattur, en er 10%, þannig að hámarksskattaálagningin ásamt skyldusparnaðinum á þessu ári er 69%. Á næsta ári lækkar hún því niður í 63%. Áður en brbl. komu til frá seinasta hausti var þetta þannig, að hámarkið var 53% og skyldusparnaðurinn til viðbótar 10%.

Ef þessi mörk eru borin saman við þau þjóðlönd sem við berum okkur venjulega saman við í ýmsum efnum, þá eru þessi mörk miklu lægri en t.d. hjá Norðurlandaþjóðunum, þar sem mörkin eru milli 70 og 80% og í Bretlandi 83%, Vestur-Þýskalandi 56%. En þess er að gæta og það verður að hafa í huga í sambandi við þessi málefni, að við greiðum okkar skatta af tekjum næsta árs. Við greiðum skatta okkar eftir á og við verðbólguaðstæður, eins og við búum nú við og komum áreiðanlega til með að búa við á næsta ári, lækkar auðvitað þessi prósenta talsvert verulega þegar borið er saman við önnur lönd. Ég nefni þetta hér af því að mér finnst ástæða til þess. Það hefur ekki verið gerð úttekt á þessum málum og mér er auðvitað fullljóst að þessi samanburður er engan veginn tæmandi, en þetta eru staðreyndir sem ástæða er til að nefna þegar rætt er um þessi málefni.

7. gr. fjallar um gildistöku og síðan er ákvæði til bráðabirgða sem leiðir af þeim miklu breytingum sem verið er að gera á þessum málum. Ég sé ekki ástæðu til að fara um það neinum sérstökum orðum, það skýrir sig sjálft.

Í Nd. flutti ég nokkurt mál um aðdragandann að þessari lagasetningu. Það var skipuð sérstök nefnd þm. til þess að undirbúa hana, og þær till., sem hér koma fram, ásamt fleiri till., sem koma fram í öðrum lagafrv., eru í meginatriðum í samræmi við niðurstöður skattalaganefndarinnar. Ég vil endurtaka það hér, sem ég sagði í Nd., að ég þakka skattalaganefndinni fyrir störf hennar. Hún hafði takmarkaðan tíma og vann ágætt starf.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.