25.10.1978
Efri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

15. mál, happdrættislán vegna framkvæmda við orðurveg og Austurveg

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um þetta frv. Umr. um samgöngumál almennt og sérstaklega vegamál eru ærnar hér á Alþ. og þá alveg sérstaklega í kringum vegáætlun. Þær eiga áreiðanlega eftir að verða miklar hér í vetur einnig, enda var hv. flm. að boða till. um stefnumörkun þeirra sjálfstæðismanna í vegamálum almennt, og nú þegar hefur verið flutt till. í Sþ. um 10 ára áætlun um bundið slitlag á aðalvegi landsins, þannig að væntanlega gefast næg tækifæri til að ræða þessi mál í heild í vetur.

Hins vegar ber að fagna hverri þeirri tilraun sem gerð er til að reyna að finna leið út úr þeim mikla vanda sem við erum í varðandi okkar samgöngu- og vegamál alveg sérstaklega, og vissulega ber að taka þetta frv. til náinnar athugunar með fullum velvilja og skilningi.

Það er rétt, sem flm. kom inn á, að það er sorgarsaga hvernig lögin um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs frá 1975 hafa verið meðhöndluð af Alþingi og af fyrrv. ríkisstj. Það er einnig rétt, að því var mótmælt harðlega, hvernig þarna var farið að, og hv, flm., þáv. stjórnarþm., gerði harða hríð að flokksmönnum sínum á sínum tíma út af því, hvernig þarna væri að staðið. Þarna var óneitanlega um vanefndir að ræða, og inn í þetta kom hið mikla dæmi um Borgarfjarðarbrúna sem hann tók réttilega fram að hefði verið allt of fljótt í farið.

Í þeim mikla niðurskurði vegaframkvæmda, sem verið hefur á undanförnum árlim, hafa þessi lög samt sem áður óneitanlega fleytt okkur nokkuð áleiðis og fjáröflunin vegna þeirra, og ekki ber að vanmeta hana að öllu þó að svona illa hafi verið að málum staðið.

Ég tel hins vegar í sambandi við þessi mál í heild, að við þurfum að reyna að samræma alla þætti samgangna okkar sem allra best. Ég veit um hug hæstv. samgrh. í þessu efni. Hann er því miður ekki viðstaddur, er erlendis, þannig að hann hefur ekki möguleika á að koma með það hér inn í deildina, en ég veit um hug hans í þessu efni og veit að hann hyggst á næstunni skipa sérstaka n. til að reyna að samræma alla þessa þætti sem best fyrir landsmenn og þá landsbyggðarfólk alveg sérstaklega, flutninga á fólki og flutninga á vörum í lofti, á láði og legi. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða.

Ég minni á það einnig, að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. eða samstarfssamningi hennar eru áhersluatriði varðandi þessa samræmingu mjög ákveðin. En varðandi vegamálin er lögð sérstök áhersla á tvennt: annars vegar í sambandi við það að koma aðalvegunum í varanlegt horf, bundnu slitlagi, og svo aftur hitt, sem ég vil ekki leggja minni áherslu á, þó ég viti um mikilvægi þessa verkefnis, og það er að koma framleiðsluvegunum, sem svo mætti kalla, vegunum í sveitahéruðunum, í betra horf en nú er, því að sannast sagna er þar um miklar vegleysur að ræða og verðugt verkefni að bæta þar verulega úr.

Hv. flm. kom inn á það, hve miklir skattar væru nú þegar teknir af umferðinni. Spurningin er hins vegar um það, að hve miklu leyti þeir renna til vegaframkvæmda og að hve miklu leyti þeir renna almennt í ríkissjóð. Hér er e.t.v. erfitt að greina á milli nákvæmlega hver er hinn gullni meðalvegur. Engu að síður höfum við t.d., sem höfum verið í stjórnarandstöðu síðustu ár, gagnrýnt það hve vaxandi hluti af þessum sköttum hefur farið í annað en að bæta samgöngur á landi.

Ég vil ekki segja meira um þetta nú. Ég veit að hæstv. samgrh. hefur lagt á það mikla áherslu við fjárlagagerð nú, að þar yrði sem best að þessum þætti mála staðið, vegamálunum. Hvernig honum tekst þar til er kannske ekki alveg útséð enn þá, en ég geri mér vonir um að þar takist sem allra best að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt í stjórnarsáttmálanum. Öllum viðbótartillögum, sem eru til hjálpar í þessu, eins og hv. flm. þessa frv. er hér með, ættum við stjórnarþm. að taka með fögnuði. Og vissulega fögnum við hverri þeirri tilraun sem menn gera í þessu efni. Ég hef ekki athugað þessa leið svo nákvæmlega. Ég verð að viðurkenna það, að í ljósi þeirrar reynslu, sem er af fyrri lögunum, set ég ýmis spurningarmerki varðandi þessa aðferð. En ef þetta yrði samþ. og hæstv. ríkisstj. stæði við þessi lög, en svikist ekki um að framkvæma þau, eins og hæstv. síðasta ríkisstj. gerði, þá gæti orðið að þessu verulegt gagn og það ber ekki að vanmeta.