21.12.1978
Efri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. fékk til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. þetta er hluti af efnahagsráðstöfunum þeim sem gerðar voru 1. sept. s.l. og 1. des. til þess að koma í veg fyrir þá stöðvun atvinnuveganna sem þá vofði yfir.

Fjármagni þjóðfélagsins er ráðstafað til einkaneyslu, félagslegrar þjónustu og fjárfestingar í því sambandi og fjárfestingar einkaaðila. Hafa verið uppi háværar raddir um samdrátt í fjárfestingu, einkum ríkisins, og ég hef áður bent á að ég tel vafasamt að ganga of langt í þá átt, enda þótt óhjákvæmilegt hafi verið að gera það nokkuð í sambandi við afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. Þessar raddir hygg ég að komi einkum frá þeim sem best hafa skilyrðin til að njóta þeirrar félagslegu þjónustu sem þegar er hægt að fá, en aðstaðan er mjög misjöfn til að njóta hennar og það getur ekki gengið til lengdar að sá mismunur haldist.

En það, sem hér er einkum til umr., er hitt, hvernig ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa gengið til móts við þær óskir að auka einkaneyslu. Stjórnarandstaðan hefur haldið því mjög fram, að þessi ríkisstj. sé stjórn skattpíningar og hún sé að draga fjármagnið frá einstaklingunum í þjóðfélaginu. Það var rakið í sambandi við umr. um frv. um kjaramál, hvernig ráðstafanir ríkisstj. hafa orðið til þess að auka kaupmátt launþega verulega.

Hér er á ferðinni frv. til l. um tekju- og eignarskatt. Samkv. því frv. og öðrum þeim, sem ríkisstj. hefur flutt, hækka skattar hjá einstaklingum þannig: Gert er ráð fyrir að eignarskattur hækki á næsta ári um 630 millj., tekjuskattur vegna hins nýja 50% skattþreps, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hækki um 1850 millj., skattur á ferðamannagjaldeyri verði 1600 millj. og flugvallagjald, en frv. um það er einnig á dagskrá þessa fundar, 350 millj. Samtals eru þetta 4430 millj.

Það hefur minna verið minnst á skattalækkun ríkisstj. og aðrar ráðstafanir sem draga úr kostnaði einstaklinga, og þar vil ég sérstaklega nefna lækkun á sölugjaldi á matvörum sem talin er munu vera um 5 milljarðar á næsta ári og gera því meira en það eitt að vega á móti þeirri skattahækkun sem talað er um. Enn fremur er skyldusparnaður felldur niður, en hann hefði verið með sömu reglum 1850 millj. á næsta ári. Þá hafa niðurgreiðslur verið auknar, sem dregur úr rekstrarútgjöldum einstaklinga, og það er talið munu nema 13500 millj. á næsta ári. Þarna er því um margfaldar upphæðir að ræða miðað við þá skatthækkun sem hér er fjallað um. Það er því algert rangnefni að segja að hér sé um skattpíningu að ræða.

Einnig er sagt að ríkisstj. sé að leggja svo þungar byrðar á atvinnureksturinn að hann sé að sligast, og m.a. var okkur í dag afhent bréf um það efni, sem kemur fram í nál. hv. minni hl.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir lækkun fyrninga atvinnurekstrar með því að afnema verðstuðulsfyrningu og draga verulega úr flýtifyrningu. Í sambandi við 10% ákvæði um flýtifyrningarheimild, sem er í þessu frv., vil ég sérstaklega taka það fram, að 10% fyrningarákvæðið á að koma í stað 30% flýtifyrningarheimildarinnar áður, þannig að þeir, sem þegar hafa notað meira en 10% flýtifyrningu, geta ekki flýtifyrnt samkv. ákvæðum þessara laga, en þeir, sem hafa nýtt flýtifyrningu innan við 10%, geta haldið áfram þangað til þeir ná 10%, um 2% á ári. En vitanlega þurfa þeir, sem þegar hafa flýtifyrnt meira, ekki að bakfæra það sem þegar hefur verið gert. Gert er ráð fyrir að heildarlækkun fyrninganna valdi tekjuskattshækkun hjá atvinnurekstrinum upp á 2360 millj. á næsta ári.

Tekjuskattur fyrirtækja er hækkaður, prósentan, úr 53% upp í 65%, sem veldur 1200 millj. kr. skattahækkun að því er talið er, en þar á móti er skyldusparnaðarákvæðið fellt niður, þannig að það jafnar sig út. Eignarskattur er hækkaður. Þar er talið að nokkuð sé gengið í svipaða átt og gert er ráð fyrir í lögum þeim um tekju- og eignarskatt sem samþ. voru á síðasta vori og í gildi eiga að ganga nú um áramótin og koma til framkvæmda við skattlagningu 1980. Þessi upphæð er sem sagt 1200 millj. Síðan kemur sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði að upphæð 550 millj. og nýbyggingagjald að upphæð 300 millj. Samtals er þessi upphæð því 5610 millj., en þar frá dregst raunverulega 1200 millj. kr. skyldusparnaður, ef miða skal við árið í ár.

Það hefur komið fram, að ef 8% hækkun á kaupi, sem orðið hefði 1. des. samkv. kjarasamningum ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar, hefði komið að fullu til framkvæmda, þá hefði það þýtt 24–27 milljarða kr. útgjaldaaukningu fyrir atvinnureksturinn í landinu. Hinn 1. sept. var einnig dregið úr kauphækkunum miðað við þá kjarasamninga, sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert, um álíka mikla upphæð. Þarna mun því vera um 50 milljarða kr. upphæð að ræða. Úr þessu var dregið vegna ráðstafana núv. ríkisstj. Mér finnst það því koma úr hörðustu átt þegar atvinnurekendur segja að þessi ríkisstj. sé einhver sérstakur óvinur atvinnurekstrarins í landinu vegna þess að þarna komi á móti um 5 milljarða kr. skattahækkun til þess að ná þeim markmiðum að draga úr útgjaldaaukningu sem annars hefði orðið samkv. þeim kjarasamningum sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu.

Ég gleymdi að geta þess í sambandi við skatta einstaklinga, að nú hefur verið ákveðið að skattvísitalan hækki að mestu leyti í samræmi við kaupgjald, þ.e.a.s. verði 150 stig. Hún hefði átt að vera 151, ef að fullu hefði verið í samræmi við hækkun kaupgjalds, en á þessu ári gilti það, að hún hækkaði í samræmi við verðlag við álagningu þessa árs. Ef þeirri reglu hefði verið fylgt nú, hefði skattvísitalan aðeins átt að hækka í 143 stig. Þarna munar vitanlega mjög miklu. Er talið að muni um 500 millj. fyrir hvert stig, þannig að þarna er um að ræða 3500 millj. kr. skattalækkun einstaklinga miðað við að reglu fyrrv. ríkisstj. hefði verið fylgt.

Ég vil því leggja áherslu á að talið um skattpíningu og skattahækkun gagnvart einstaklingum og um óvild þessarar ríkisstj. gagnvart atvinnuvegunum er alrangt, enda vitum við að atvinnureksturinn í sjávarútvegi var að stöðvast í byrjun sept., en hélt þá áfram vegna þeirra aðgerða sem þá var gripið til.

Ég skal svo ekki að sinni fara frekar út í þetta mál. Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. mun skila séráliti. Geir Gunnarsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.