25.10.1978
Efri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

15. mál, happdrættislán vegna framkvæmda við orðurveg og Austurveg

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni og láta í ljós ánægju mína með þann áhuga, sem fram kemur í þessu frv., um að unnið sé sem best að vegamálum. Ég hef notað hvert tækifæri sem ég hef getað til að leggja áherslu á það í þeim umr. sem nú fara fram um efnahagsvanda og þá um leið þörf á að draga eitthvað úr fjárfestingu, að það mætti ekki draga úr fjárfestingu til vegamála, þau séu svo mikilvæg og framkvæmdir í þeim málum séu svo brýnar, að þrátt fyrir sparnaðarviðleitni megi ekki draga þar saman.

Eins og drepið var á áðan eru horfur á að umr. um vegamál verði miklar á þinginu í vetur eins og á undanförnum þinginu, þannig að ekki er ástæða til þess kannske að fara ítarlega út í þau mál núna. Það hafa a.m.k. á tveimur síðustu þingum orðið umr. um þáltill. um vegamál og þar hafa komið fram þau sjónarmið, sem hv. síðasti ræðumaður benti á og taldi að væru nokkuð andstæð, annars vegar að koma bundnu slitlagi á vegina og hins vegar, eins og hann orðaði að, að koma framleiðsluvegunum í viðunandi horf. Ég vil ekki draga úr þörfinni á því síðarnefnda, en ég hef lagt áherslu á að það fyrrnefnda, þ.e.a.s. að koma bundnu slitlagi á vegina, muni frekar stuðla að því síðarnefnda, þar sem yfirleitt hefur verið rætt um að fá aukið fjármagn til vegagerðar og aukið fjármagn til vegagerðar hlýtur að hraða framkvæmdum þar í heild, enda er það svo, að bundið slitlag verður vitanlega ekki sett á vegi nema því aðeins að þeir séu byggðir upp. Ég vil leggja áherslu á að ég tel mikinn misskilning að þarna sé um andstæð sjónarmið að ræða, heldur sé þetta sameiginlegt áhugamál og þess vegna þurfi ekki að vera að della um það.