21.12.1978
Efri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa frv, sem hér er til umr. Meiri hl., fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til að frv. verði samþ., en minni hl., fulltrúar Sjálfstfl., leggur til að frv. verði fellt.

Frv. þetta er einn liður í hinni óstjórnlegu skattheimtustefnu núv. stjórnarflokka, en þessi skattáþjánarstefna þeirra er fyrir löngu komin langt fram yfir þau mörk sem eðlileg og sanngjörn skattheimta í lýðfrjálsu landi á að byggjast á. Ef svo heldur áfram sem nú horfir í skattaálögum núv. ríkisstj. verður ekki um eðlilega skattheimtu að ræða, heldur almenna eignaupptöku.