21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

54. mál, fjárlög 1979

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætla að minnast hér á tvö mál, sem varða afgreiðslu fjárlaga. Í fyrsta lagi langar mig til að nefna till. sem meiri hl. fjvn. flytur á þskj. 271, 12. lið, um Byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu. Þar stendur: Fyrir „200 millj.“ kemur: 75 millj. — Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel ekki að þessi mikli niðurskurður á framlagi til þjóðarbókhlöðu sé í samræmi við vilja ríkisstj., ekki í samræmi við þá stefnu sem þar hefur komið fram. Ég tel því að óhjákvæmilegt sé að gera þarna breytingu á, annaðhvort með því að fella þessa brtt. niður ellegar tryggt verði að þær 125 millj., sem þarna vantar á, komi í lánsfjáráætlun. Ég mun beita mér fyrir því, að önnur hvor þessara leiða verði farin. Ég tel það til lítils sóma fyrir ríkisstj. og Alþingi að ætla enn einu sinni að skera niður fjárveitingu til þjóðarbókhlöðu.

Í öðru lagi vil ég minnast hér á námslán og námsstyrki, Lánasjóð ísl. námsmanna. Í þessu frv. er gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til Lánasjóðs ísl. námsmanna sem nemur 2234 millj. kr. Auk þess er um að ræða lántökuheimild í frv. upp á 400 millj. kr., og gengið hefur verið út frá því innan ríkisstj. að í lánsfjáráætlun, sem gengið verður frá innan skamms, væntanlega innan tveggja, þriggja vikna, verði heimild til lántöku að upphæð 700 millj. kr. Samtals eru þetta 3334 millj. kr. Til samanburðar má nefna að framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna nam í fjárl. seinasta árs 1408 millj. og lántökuheimild 270 millj. eða samanlagt 1678 millj. kr. Það er því um það að ræða, að samanlagt fjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna tvöfaldast milli áranna 1978 og 1979. Skýringin á þessu er hins vegar ekki sú, að um sé að ræða hærri fjárveitingar til hvers og eins námsmanns, ef tekið er tillit til verðbólgu. Skýringarnar eru fólgnar í því, að tekið hefur verið tillit til erlendrar og innlendrar verðbólgu og til gengislækkana á s.l. ári. Einnig er um að ræða talsvert mikla fjölgun lánþega, 12–14%. Þar að auki bætist það við, að afborganir af þegar teknum lánum hafa orðið æ stærri þáttur í greiðsluþörf sjóðsins.

Í samræmi við lög um námslán og námsstyrki ber að miða útlán úr sjóðnum við umframfjárþörf hvers námsmanns, en það er þörf námsmanns fyrir framfærslueyri umfram þær tekjur sem hann aflar sér. Á undanförnum árum hefur ríkissjóður mætt 85% af umframfjárþörf námsmanna með lánveitingum úr Lánasjóði. Ég tel að full ástæða sé til að hækka þetta hlutfall, enda segir í lögum um námslán og námsstyrki, í 3. gr., að stefnt skuli að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til tekna námsmanns og maka hans, fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar í því landi þar sem nám er stundað, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Hér segir skýrt að stefnt skuli að því, að umframfjárþörf skuli að fullu mætt með fyrirgreiðslu úr Lánasjóði námsmanna. Þetta verður hins vegar ekki gert að sinni. Það er ekki svigrúm til hækkunar þessa hlutfalls úr 85% þegar tvöfalda þarf fjárveitingu til sjóðsins á milli ára, á sama tíma og aðrar fjárveitingar hækka mest um 40–50% og margar hækka ekki neitt, jafnvel lækka. Lánshlutfallið verður því áfram 85% á komandi ári.

Þess má geta, að hækkun hlutfallsins úr 85% í 100% hefði kostað um 500–600 millj. kr. til viðbótar og hefði þá framlag ríkissjóðs til Lánasjóðsins nálgast 4 milljarða, en var, eins og ég sagði áðan 1678 millj. kr. í fjárl. 1978. Á hitt vil ég minna, að fjárhagsleg fyrirgreiðsla ríkisvaldsins við námsmenn er sannarlega engin gjöf. Þetta eru lán, meira að segja verðtryggð lán. Þau verða endurgreidd að nokkrum árum liðnum. En meðan endurgreiðslur á verðtryggðum lánum eru ekki hafnar er fjárþörf sjóðsins mjög mikil á hverju ári. Í lögum sjóðsins segir, í 3. gr., sem ég las rétt áðan, að tekið skuli eðlilegt tillit til fjölskyldustærðar, og í 11. gr. reglugerðar segir að tillit skuli tekið til fjölda þeirra sem lánþegi hefur á framfæri sínu. Þetta hefur þó ekki verið gert seinustu 3 ár samkv. gildandi úthlutunarreglum. Hafi maki námsmanns hærri tekjur en nemur ákveðinni viðmiðunarupphæð skerðist námslán hans. Hins vegar fær námsmaður í hjónabandi ekkí aukið lán umfram það sem ógiftur námsmaður fær, þótt makinn sé tekjulaus með öllu. Það er sem sagt ekki tekið tillit til þess, ef námsmaður hefur maka sinn á sínu framfæri. Þessar úthlutunarreglur telja námsmenn brot á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Prófmál af þessu tagi kom fyrir bæjarþing Reykjavíkur á s.l. vetri og féll dómur í málinu 26. apríl s.l. á þá leið, að gildandi úthlutunarreglur samrýmist ekki lögunum. Var því veiting námslána 1976 og 1977 dæmd ógild gagnvart stefnanda málsins og Lánasjóði gert skylt að veita honum viðbótarlán, eins og segir í dómi bæjarþings Reykjavíkur, að óhjákvæmilegt sé — með leyfi forseta — „að tillit sé tekið til þess, að stefnandi var kvæntur og maki hans hafði litlar tekjur, enda verður að telja að ríkissjóður beri ábyrgð á framangreindum mistökum stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þessi úrlausn er á því byggð, að nefnd ákvæði laganna og reglugerðarinnar séu það skýr, að vafalaust sé að stjórnvöldum bar að fara eftir þeim.“

Ég held að þessi niðurstaða borgardóms Reykjavíkur sé fullkomlega skýr og ljós, og ég er sammála um þessa niðurstöðu. Ég held líka að hver sem gefur sér tíma til að kynna sér lög um Lánasjóð ísl. námsmanna með því einfaldlega að lesa þá grein sem ég las áðan, sjái að þar er sú skylda lögð á herðar viðkomandi stjórnvalda og stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna að taka eðlilegt tillit til þess, ef lánþegi á maka og börn og er framfærsluskyldur gagnvart þeim lögum samkvæmt af því að þessir aðilar hafa ekki tekjur. Af þessum ástæðum lét ég það verða mitt fyrsta verk, eftir að ný sjóðsstjórn hafði verið skipuð, að fela henni að semja drög að nýjum úthlutunarreglum sem ótvírætt séu í fullu samræmi við landslög. Að tillögum sjóðsstjórnar fengnum verður úthlutunarreglunum breytt, enda tel ég að það væri ábyrgðarleysi, ekki síst eftir að dómur bæjarþings Reykjavíkur liggur fyrir, að viðhalda óbreyttum útlánareglum þannig að ríkissjóður ætti hugsanlega yfir höfði sér bakreikning frá þúsundum námsmanna fyrir úthlutunarárið 1979. En sú er einmitt raunin um úthlutunarárin 1976–1978, ef niðurstaða Hæstaréttar verður samhljóða dómi undirréttar, eins og ég tel varla vafa á.

Eins og ég hef þegar sagt, er gert ráð fyrir 3334 millj. kr. framlagi til Lánasjóðs ísl. námsmanna á árinu 1979 samkv. fyrirliggjandi frv. og áformum í drögum að lánsfjáráætlun. Vafalaust verður þörf á meira fjármagni til sjóðsins á næsta ári en þessu nemur. Oft áður hefur sjóðurinn fengið viðbótarfjármagn þegar á árið hefur liðið. Á s.l. hausti var það eitt fyrsta verkefni mitt í menntmrn. að sækja um viðbótarfjármagn til ríkissjóðs fyrir Lánasjóð, og sú upphæð varð 230 millj. kr. Fjárhagur sjóðsins á næsta ári ræðst af mörgum atvikum, m.a. af verðbólgustigi, gengi krónunnar, verðbólgu í öðrum löndum, fjölda lántakenda og mörgum öðrum breytilegum forsendum sem geta haft áhrif á fjárþörf sjóðsins. Ég tel afar brýnt að lán, sem sjóðnum verða veitt, séu afborgunarlaus fyrstu 3–4 árin, enda útilokað fyrir sjóðinn að hefja afborganir af lánum meðan endurgreiðslur til sjóðsins eru jafnlitlar og nú er. Á þetta atriði hef ég lagt þunga áherslu og mun gera áfram.

Sem sagt, herra forseti, ég vildi að það kæmi skýrt fram, að úthlutunarreglunum verður breytt, en endanlegar ákvarðanir um fjárþörf sjóðsins verða að bíða betri tíma, þegar málið liggur að öllu leyti ljósar fyrir.