21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

54. mál, fjárlög 1979

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hæstv. menntmrh. vil ég segja nokkur orð vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Það er svo með verðbólguna, að hún skerðir fyrst og fremst kjör láglaunafólks. Í þessum hópi er námsfólk í framhaldsskólanámi. Stofnaður var Lánasjóður ísl. námsmanna á sínum tíma til þess að létta undir með námsfólki, og síðar, 1968, var gerð allsherjarbylting á þessu sviði, sem miðaði að því að svara auknum kröfum í námi, sem þá var farið að gera, og líta svo á, að nám væri vinna, en ekki, eins og áður hafði verið, vinna í atvinnulífinu samhliða vinnunni í háskólanum. Námið gerði þær kröfur og gerir þær kröfur, að þar þarf að koma til framlag af opinberu fé til þess að fjármagna þetta starf.

Nú er það svo, að Lánasjóður ísl. námsmanna er gengistryggður eða vísitölutryggður sjóður. Þessi breyting var gerð hér á Alþ. fyrir 2–3 árum eftir miklar umr. sem stúdentar og þm. ásamt ýmsum öðrum tóku þátt í. Niðurstaðan varð sú, að Lánasjóðurinn er nú vísitölutryggður, þannig að til lengri tíma litið má ætla að mestallt það fjármagn, sem veitt er til sjóðsins nú á fjárl. og lánsfjáráætlun, skili sér aftur. Þetta er líklega þess vegna ein öruggasta fjárfesting sem er að finna á tilvonandi lánsfjáráætlun og í þeim fjárlögum sem nú er verið að ræða.

Samhliða þeim lögum, sem tóku gildi fyrir 2–3 árum og gerðu þennan sjóð vísitölutryggðan, var reglugerð fyrir sjóðinn breytt. Þessi reglugerðarbreyting var e.t.v. ekki í samræmi við öll þau lagafyrirmæli sem í lögum um sjóðinn er að finna. Hæstv. menntmrh. lýsti því nokkuð, hvernig þessu máli var komið, og er hér fyrst og fremst átt við málefni þess námsfólks sem á börn á framfæri sínu. Með reglugerðarbreytingu 1976 voru kjör þessa fólks sérstaklega skert. Er talið að ef aftur ætti að breyta reglugerðinni í það horf sem hún var fyrir 1976 og rétta hlut foreldra í framhaldsnámi á sama hátt og samkv. gömlu reglugerðinni þyrfti að bæta við 200 millj. kr. Síðustu ríkisstj. tókst ýmislegt illa, en sennilega hvergi jafnátakanlega og í garð þessa fólks, eins og þetta dæmi ljóslega sýnir. Sú ríkisstj., sem nú situr við völd, verður að taka málið föstum tökum og rétta hlut þessa fólks tafarlaust.

Þó er það svo, að sú leið var valin í þessu máli að fjármagna Lánasjóðinn hvort tveggja með hækkuðu framlagi á fjárlögum til að mæta verðbólgu og í lánsfjáráætlun með lántökuheimildum. Ég ætla ekki að meta hagkvæmni þessara leiða varðandi lánsfjáráætlunina, en segi aðeins, að það hlýtur að vera markmið Alþingis að fjármagna þetta jafnan á fjárl. hverju sinni.

Hæstv. menntmrh. lýsti yfir að hann hefði skipað svo fyrir, að gerðar yrðu breytingar á þeirri reglugerð sem hefði gilt fyrir sjóðinn s.l. ár. Ég skildi orð hans svo, að þar ætti að rétta hlut foreldra í framhaldsnámi. Þetta kostar fjármagn umfram það sem nú er í fjárl. og ætlað er að setja í Lánasjóðinn á lánsfjáráætlun. Að vísu er fjármagnsþörfin miðuð við 12% aukningu eftirspurnar. Búast má við samkv. umsóknum, sem komnar eru, að eftirspurnin verði ekki sú sem reiknað er með, vegna þess að ljóst er að þeir skilmálar, sem sjóðurinn setur námsfólki með endurgreiðslur, eru slíkir að það er hagkvæmara fyrir það námsfólk, sem hefur aðstöðu í bankakerfinu, — og við vitum hvaða námsfólk það er sem hefur aðstöðu í bankakerfinu, það eru dætur og synir forréttindafólksins í landinu, — það er hagkvæmara fyrir það fólk að ganga í bankana, slá sér víxla þar á lágu vöxtunum, neikvæðu vöxtunum. Þessa leið velja margir stúdentar sem njóta þessarar aðstöðu, þegar þeir sjá hvers konar lánskjör eru í boði.

Við höfum rætt hér fyrr um raunvexti, ýmsir á móti og ýmsir með. En það er dálítið skrýtið í þessu samfélagi okkar með 50% verðbólgu, að þeir, sem verja neikvæðu vextina, skuli hafa haft forustu um að skipa málum Lánasjóðsins þannig að raunvextir — og ekki aðeins raunvextir, heldur umframraunvextir — skyldu gilda þar. Við ræddum um raunvexti í þeim tilgangi að lækka verðbólguna. Að hækka vexti á námslánum er ekki viðnám gegn verðbólgu. Það er ekki verðbólguhvetjandi ráðstöfun að hækka fjárframlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna, það er langt frá því. Aftur á móti er það verðbólguhvetjandi ráðstöfun að eyða mörgum hundruðum millj., sem við höfum verið að gera og gerum í dag, í ein og önnur verkefni sem náðst hefur samkomulag um og þeir, sem hafa e.t.v. sýnt einhverja andstöðu, ekki fengið rönd við reist. Þess vegna er það krafa námsfólks, að tillit verði tekið til þess, að réttur foreldra í framhaldsnámi verði bættur, og það verði ekki gert á þann hátt sem margan grunar, með því að millifæra fjármagn innan þess ramma sem sjóðnum hefur verið markaður með tilliti til yfirlýsinga hæstv. fjmrh, og hæstv. menntmrh. áður og nú. Það liggur ljóst fyrir, að ef á að rétta hlut námsfólks, þó ekki væri nema eins og var fyrir 1976, þá þarf að bæta við nokkrum tugum millj., e.t.v. eitthvað á annað hundrað millj. Það liggur ekki ljóst fyrir, hvað þessi upphæð kann að verða há, fyrr en hin nýja reglugerð hæstv. menntmrh. liggur fyrir. Fer vel á því, að reglugerðarbreytingunum verði flýtt þannig að þær megi liggja fyrir fljótlega eftir áramótin eða a.m.k. áður en lánsfjáráætlun verður afgreidd, svo að þá megi reikna út hvað þessar breytingar kosti og taka mið að því við endurskoðun lánsfjáráætlunar eftir áramót. Ég lít svo á, að það sé ekki búið að ganga endanlega frá lánsfjáráætlun og þar megi ýmsu hnika til. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. menntmrh. í framhaldi af ræðu hans áðan, þingið allt og e.t.v. í samræmi við hástemmdar viljayfirlýsingar sumra hv. þm. og nokkurra þingflokka hér áður fyrr, að taka nú höndum saman og tryggja hlut námsfólks í framhaldsskólanámi.

Að lokum vil ég segja þetta, herra forseti: Ég tel að nýta eigi þann tíma, sem nú gefst fram að afgreiðslu lánsfjáráætlunar, til þess að taka þessi mál fastari tökum. Hæstv. menntmrh. og sjóðsstjórn Lánasjóðsins, sem vinna nú að breytingum á reglugerðinni, miði þær breytingar við, þarfir námsfólks, ekki endilega við hugmyndir um fjármagn sem ætlað er að leggja til sjóðsins nú, heldur fyrst og fremst við eðlilegar þarfir námsfólks, vegna þess að það er réttur þessa fólks. Ég mun eftir mætti beita mér fyrir því og fylgjast með því, að hlutur þessa fólks verði ekki skertur meir en orðið er.