21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

54. mál, fjárlög 1979

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að mæla stuttlega fyrir einni brtt. á þskj. 269, sem flutt er auk mín af tveim öðrum þm. Alþb., þeim Svövu Jakobsdóttur, hv. 10. þm. Reykv., og Stefáni Jónssyni, hv. 4. þm. Norðurl. e. Þessi brtt. felur í sér að niður falli á útgjaldahlið fjárl. tveir liðir sem í frv. eru nú, báðir í 4. gr. Annars vegar er það liðurinn Tillag til Atlantshafsbandalagsins og hins vegar liðurinn sem fjallar um greiðslu til Þingmannasamtaka NATO. Samtals er upphæðin, sem um er að ræða á þessum tveimur liðum, liðlega 50 millj. kr.

Ég hef ekki hugsað mér að fara að hefja hér umr. um utanríkismál. Afstaða okkar Alþb.-manna til þátttöku Íslands í NATO er alkunn og hefur m.a. verið undirstrikuð í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. Þm. Alþb. hafa áður við afgreiðslu fjárl. flutt till. þessa efnis, og við gerum það enn til að undirstrika andstöðu okkar við þátttöku Íslendinga í þessu hernaðarbandalagi. Ég orðlengi ekki frekar um þessar tillögur.

Ég vil að svo mæltu taka það fram, að ég get sannarlega tekið undir margt af því sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan um brtt. meiri hl. þm. Alþfl. Það vekur vissulega furðu, að eftir þær yfirlýsingar, sem gefnar voru af hæstv. utanrrh., formanni Alþfl., hér fyrr í dag, skuli koma fram af hálfu meiri hl. þm. Alþfl. brtt. við fjárlög sem ganga þvert á samkomulag í veigamiklum málum sem gert hafði verið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna sín á milli. (Gripið fram í: Hvað eiga brtt. þínar að þýða, Kjartan?) Það er ljóst, hvað mínar brtt. þýða, vil ég segja við hv. þm., og kemur engum á óvart þó að við Alþb.menn flytjum brtt. um að fella niður greiðslur til Atlantshafsbandalagsins. Það er ekki nýtt mál. (Gripið fram í.) Það er ég sem hef orðið hér, en ekki hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, ef ég mætti biðja hann að hinkra við.

Ég vil aðeins segja það, að hv. þm. Alþfl., fyrst á þau mál hefur verið minnst, flytja m.a. till. um að ráðstafa nokkrum hundruðum millj. kr. til iðnaðarins í landinu. Það er ekki nema gott um það að segja, að menn hugsi hlýlega til iðnaðarins, og ég vil sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf hér í kvöld til staðfestingar á því, sem hæstv. iðnrh. hafði áður sagt, að ríkisstj. muni beita sér fyrir ráðstöfunum nú á næstu dögum og vikum til að tryggja að sú tollalækkun, sem til framkvæmda kemur um áramót, bitni ekki á íslenskum iðnaði án þess að þar komi aðrar ráðstafanir á móti. Það þurfti engan tillöguflutning af hálfu þm. Alþfl. til þess að ríkisstj. gerði þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru í þessum efnum. En það er athyglisvert, að þegar hv. þm. Alþfl. fara að leita að því, hvert eigi að sækja fjármagnið til að styðja við bakið á íslenskum iðnaði, þá dettur þeim helst í hug að taka það af bændastéttinni í landinu, þar sem þeir leyfa sér í till. sínum að leggja til að útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir verði lækkaðar um hvorki meira né minna en heilan milljarð, 1000 millj. kr. Ég hygg að það séu ýmsir aðilar í þessu þjóðfélagi sem séu betur í stakk búnir til að leggja í sjóð til stuðnings íslenskum iðnaði heldur en bændastéttin í landinu, því að útflutningsuppbæturnar eru að sjálfsögðu ekkert annað en trygging fyrir því, að bændur fái greidd laun sambærileg við aðrar vinnandi stéttir, hinar svokölluðu viðmiðunarstéttir. Ég vil ekki orðlengja frekar um till. Alþfl.

Enda þótt fjöldamargt væri hægt að ræða í sambandi við brtt. frá meiri hl. fjvn., sem margar eru mér fyllilega að skapi, en aðrar síður, mun ég ekki gera það — það er komið fram yfir miðnætti — að öðru leyti en því, að ég sé á bls. 3 á þskj. 271, brtt. meiri hl. fjvn., að n. leggur til í 18. lið brtt., við 4. gr., að verðuppbætur á línufisk verði lækkaðar úr 80 millj. í 40 millj. Ég þekki ekki rökin fyrir þessari till. og ég verð að segja það, að ég felli mig ekki við hana og óska eftir því við hæstv. forseta, að þessi liður verði borinn upp sérstaklega. Mér er fullkunnugt um að þarna er að vísu ekki um neinar meiri háttar upphæðir að ræða, en hitt þekki ég líka, að þeir sjómenn, sem stunda veiðar á bátum, ekki síst línubátum, eru margir hverjir í þeim hópi innan sjómannastéttarinnar sem hvað tekjulægstur er. Ég hygg að það séu ekki nein rök fyrir því að skera þessa litlu upphæð niður um helming nú og vil ekki styðja slíka till.

Það er svolítið fleira sem ég vildi segja úr þessum ræðustól nú, og það snýr að umr, sem hafa orðið um Lánasjóð ísl. námsmanna og fyrirhugaðar fjárveitingar til hans. Ég kemst ekki hjá að eyða örfáum orðum að þessu máli, ekki síst vegna ummæla hv. þm. Friðriks Sophussonar, 5. landsk. þm. Ég hef ekki í huga að fara að endurtaka hér þann fund sem hann vitnaði til með íslenskum námsmönnum fyrir nokkrum dögum, þar sem við vorum báðir mættir sem fulltrúar okkar flokka, en vegna þess að hann vitnaði til ummæla minna á þeim fundi vil ég skýra frá því hver þau ummæli voru. Þau voru á þá leið og komu fram í svari við fsp. frá fleiri en einum fundarmanna um afstöðu mína til þess, hvort þeir í hópi námsmanna, sem hefðu fjölskyldu á framfæri, ættu á næsta ári að fá lánsúthlutun í samræmi við undirréttardóm sem fallið hefur á þá leið, að skylt væri að taka tillit til barna og maka viðkomandi námsmanna við ákvörðun um lánsupphæð. Ég sagði, að ég teldi það með öllu óviðunandi ef ekki ætti að fara eftir þessum undirréttardómi. Og ég sagði líka, að ef ekki fengist trygging fyrir því, að eftir dómnum yrði farið og tekið fullt tillit, eins og þar er kveðið á um, til maka og barna, fjölskyldustærðar námsmanna, þá mundi ég beita mér fyrir því, að sérstök fjárveiting yrði veitt af Alþ. og um það yrði flutt till. til þess að þessi dómur yrði ekki hundsaður.

Nú hefur það komið ljóslega fram, þannig að ekkert er um að villast, að hæstv. menntmrh. hefur nú í kvöld lýst yfir ótvírætt, að fullt tillit verði tekið til undirréttardómsins, þannig að ekki leikur lengur neinn vafi á því, að þegar úthlutað verður námslánum á komandi ári mun verða tekið tillit til þessa dóms og þeir námsmenn, sem hafa börn á framfæri eða tekjulausa maka, munu fá námslán með tilliti til þess, hærri en aðrir, eins og undirréttardómurinn skar úr um. Þar af leiðandi þarf hv. þm. Friðrik Sophusson ekki að hafa uppi neinar spurningar um það, hvorki til mín né annarra, hvort ég muni flytja hér einhverja sérstaka tillögu. Það hefur þegar komið fram, að þetta verður gert, og þarf engan frekari tillöguflutning um það.

Ég vil að gefnu tilefni fagna því, að þessi yfirlýsing hæstv menntmrh. skuli fram komin. Ég leyfi mér einnig að vekja athygli á þeirri staðreynd, að auðvitað er útilokað með öllu fyrir okkur einstaka þm., fyrir hæstv. fjmrh. eða fyrir hæstv. menntmrh. að gera sér nákvæma grein fyrir því nú, hver fjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna verður á næsta ári. Ég býst við því, eins og hæstv. menntmrh. tók fram, að hún verði út af fyrir sig nokkru meiri en nemur þeirri upphæð sem lögð er til á fjárl. og í væntanlegri lánsfjáráætlun. En það hefur verið svo undanfarin ár, að það hefur þurft aukafjárveitingar til að standa við þær skuldbindingar sem fyrir hendi hafa verið á hverjum tíma. Komið hefur fram, að á því ári, sem nú er að líða, hefur þurft hvorki meira né minna en 730 millj. kr. í aukafjárveitingu fram yfir það sem gert var ráð fyrir á fjárl. og í lánsfjáráætlun, og má búast við að sú upphæð verði tæplega lægri í krónutölu á næsta ári. En þetta á auðvitað allt eftir að koma í ljós, því að það eru margvísleg atriði sem verða til þess að hafa áhrif á endanlegu upphæðina. Aðalátriði málsins er að hæstv. menntmrh. hefur tekið það skýrt fram, að úthlutunarreglum sjóðsins verði breytt á þann veg, að tillit skuli tekið til undirréttardómsins, og það verður þá alveg eins nú og oft áður vandi viðkomandi ríkisstj. að útvega það fjármagn, sem á kynni að þurfa að halda, með aukafjárveitingu.

Ég gæti talað hér langt mál um það, hversu brýn þörf sé á því að standa vel að þessum málum, lánamálum námsmanna. en ég sé ekki ástæðu til að gera það úr þessum ræðustól nú. Ég vildi aðeins taka þetta fram, sem ég hef þegar sagt að gefnu tilefni.