21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

54. mál, fjárlög 1979

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég tel nánast nauðsynlegt að bæta örfáum orðum við það sem hæstv. menntmrh. sagði um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Lánin, eru verðtryggð, það er rétt, en endurgreiðslur lánanna eru miðaðar við tekjur eftir að þær hefjast, nema hvað mjög væg lágmarksgreiðsla er ákveðin. Að öðru leyti er miðað við tekjur. Þetta þýðir það, að hafi menn tekið há lán, en fái fremur lélega atvinnu eftir að skóla lýkur, þá verður æðimikið eftir ógreitt þegar 20 ára greiðslutímanum lýkur, og þær eftirstöðvar falla þá niður og verða aldrei innheimtar. Þetta þarf að taka fram, þegar getið er um að lán séu nú verðtryggð. Það er einnig ástæða til að geta þess, að það eru engir vextir af þeim greiddir, heldur eingöngu verðtryggingin, og það getur þó vissulega orðið nógu há greiðsla.

Enn fremur finnst mér nauðsynlegt að auka aðeins við þau orð sem hér féllu um það, hvernig afgreiðsla sjóðsins er varðandi þá námsmenn sem hafa börn á framfæri. Mér fannst sú saga ekki vera nema hálfsögð. Þeir námsmenn mega hafa mun hærri tekjur áður en lán skerðast heldur en hinir sem einhleypir eru. Það er eitt atriði. Hitt er annað, að samkv. 21. gr. laganna er veittur sérstakur styrkur þeim sem m.a. vegna stórrar fjölskyldu geta ekki komist af á þeim tíma sem þeir eru í skóla. Þetta ákvæði hefur verið notað. Þessir styrkir hafa verið auglýstir, það hefur verið um þá sótt og þeir hafa verið veittir í neyðartilfellum. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram einnig.

Það hefur fallið dómur í undirrétti, um útlánareglur sjóðsins nánast. Sá dómur hefur hafnað sumum kröfum námsmanna sem höfðuðu málið, en aftur fallist á sumar. Þetta var undirréttardómur, eins og allir hv. alþm. vita. Málinu var svo áfrýjað til Hæstaréttar, eins og mun nú vera nærri föst venja um mál sem höfðuð eru á hendur ríkissjóði, og þau eru nokkuð mörg. Þegar málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, þá hygg ég að almennt sé talið eðlilegt að bíða eftir úrskurði Hæstaréttar áður en menn t.d. breyta um stefnu í þá veru sem sá hinn áfrýjaði dómur hefur ákveðið.

Mér var það ljóst í sumar og haust, það leyndi sér ekki í þeirri gífurlegu dýrtíð sem geisaði og með þeirri gífurlegu verðhækkun sem varð á erlendum gjaldeyri líka, að það mundi verða æðimiklum erfiðleikum bundið að ná fjármagni til þess að halda áfram að lána 85% af hinni svokölluðu umframþörf. Og enn kom annað til, svo að sýnilegt var að þetta yrði erfitt, og það var fyrirsjáanleg fjölgun námsmanna, m.a. vegna þess, að margir nýir skólar og skóladeildir hafa fengið lánaréttindi á síðustu missirum utan háskólastigs, en það eru skólar nánast eingöngu í verknámi og í listnámi á framhaldsskólastigi, þ.e. undir háskólastigi.

Hækkanir á fjárveitingum til þessa liðar, þ.e. til Lánasjóðs ísl. námsmanna, hafa verið mjög miklar á undanförnum árum. Árið 1971 — ég sé ástæðu til að minna á það — var þessi fjárveiting innan við 100 millj. kr. á fjárl., eða 91 millj., en núna, 1979, eins og tekið hefur verið fram, er gert ráð fyrir að fjárveiting verði með lánum yfir 3300 millj. kr. Að vísu voru fjárl. 1971 ekki nema 11.5 milljarðar að mig minnir, en núna eru þau æðimiklu meira. En þrátt fyrir það hefur heildarfjárhæð fjárl. u.þ.b. átjánfaldast á þessu tímabili, en fjárgreiðslur til lánasjóðsins hafa hækkað 36 sinnum. Árið 1975 — ég vil aðeins nefna það að lokum —stefndi þó í raun og veru í enn meiri þenslu á þessu sviði.

Árið 1976 voru nýju lögin sett. Meginmarkmið þeirra var kannske þríþætt — annars má alltaf deila um hvað er meginmarkmið: Í fyrsta lagi að auka aðhald um lánveitingar og um innheimtur. Þá að leggja drög að nokkurri eigin fjármyndun, eigin uppbyggingu lánasjóðsins, en með því eina móti er kannske í raun og veru hægt að tryggja starfsemi hans þegar fram í sækir. Og svo í þriðja lagi að tryggja það, að útborganir lánanna gætu farið fram á réttum fyrir fram ákveðnum tíma. Þetta hefur tekist m.a. með því móti, að fyrrv. fjmrh. borgaði ærnar fjárhæðir úr ríkissjóði umfram fjárveitingar án þess að stofna til lána fyrir sjóðinn. Og þetta sama er gert í tíð núv. ríkisstj., eða hefur verið gert til þessa, að verulegar fjárgreiðslur hafa átt sér stað umfram til þess að gera mögulegt að afgreiða lánin á réttum tíma. Þetta allt saman álit ég að hafi verið mjög mikilsvert. En við skulum engum lá þó hann vilji meir, því að hver er sá í þessu þjóðfélagi sem vill ekki meira en honum er skammtað, a.m.k. af hendi hins opinbera.

En fyrst ég hef kvatt mér hljóðs á annað borð og af því að mikið hefur verið rætt um atburði síðustu daga, þá vil ég segja um þá örfá orð. Ég skal ekki hafa þau mörg.

Þessir atburðir hafa vakið mér hryggð, en ekki kæti — já, raunar undrun, reiði og hryggð: Undrun, vegna þess að í þau 29 ár sem ég hef haft nokkur kynni af Alþ., þá man ég aldrei eftir neinni hliðstæðu frá þeim árum og hef ekki heldur frétt um hana, reiði, vegna þess að mér hefur ekki alltaf fundist drengilega að verki staðið, en fyrst og fremst þó hryggð, ekki vegna núv. ríkisstj. eða ráðh. eða einstakra alþm., heldur vegna Alþingis sjálfs.