21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

54. mál, fjárlög 1979

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal lofa því að vera stuttorður, enda farið að líða dálítið á nótt og fleiri vilja ólmir komast að, eins og sjá má og eðlilegt er.

Ég ætla ekki að taka þátt í siðvæðingarherferð þeirra félaga hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og Vilmundar Gylfasonar. Það er út af fyrir sig dálítið skemmtilegt að verða vitni að viðræðum þeirra hér á hv. Alþ., og ég efast ekki um að almenningur mundi bíða spenntur eftir því að sjá hvernig það endaði ef þeir tækju sig nú til, þeir ágætu félagar, og reyndu að siða hvor annan — tækju sér góðan tíma til þess í jólafríinu og kæmu væntanlega endurnýjaðir til þingsins og galvaskir samkv. venju. En ég get ekki orða bundist út af þeirri till. sem hér var lögð fram, en hefur nú verið dregin til baka, því að hún lýsir dálitið sérstöku atriði fyrir okkur.

Ef við lítum aðeins á brtt. Alþfl.-mannanna á þskj. 279, þá kemur þar í ljós á að taka 543.5 millj. af ýmsum liðum landbúnaðarins og færa þessa sömu upphæð til sérstakra verkefna fyrir landbúnaðinn, þannig að þær till. slétta sig út. Þá er gert ráð fyrir því, að tekinn sé 1 milljarður af útflutningsuppbótum landbúnaðarins og látinn annars vegar koma til íslensks iðnaðar til þess að bæta samkeppnisaðstöðu hans, eins og sést á viðkomandi þskj., en hins vegar á að nota helminginn af milljarðinum til þess að minnka skattbyrðina, vegna þess að gert er ráð fyrir þeirri breytingu að skattvísitalan hækki um eitt stig. Ég ætla ekki að gera Alþfl. upp neinar sakir. Ég þykist vita að þarna gangi heilir menn til verka. A.m.k. verður maður að álíta svo, þrátt fyrir að þung orð hafi nú fallið í þeirra garð, að þetta sé gert til þess að staðið verði við ákveðin loforð sem komu fram 1. des. — þetta sé viðbót við þá skattalækkun sem átti að felast í því þegar sjúkratryggingagjaldið lækkaði.

Það er athyglisvert við þetta, að þarna er skattalækkunarflokkurinn að reyna að ná jöfnuði í skattbyrðinni við það sem hún var áður, og það kostar að hans áliti 500 millj. Ég vil sem sagt leggja á það áherslu, að nú hefur Alþfl. flúið frá skattalækkunarstefnu sinni. Hann hefur flúið frá ekki bara þessari skattalækkunarstefnu, enginn talar nú um það lengur eða býst við því að Alþfl. ætli sér að lækka skatta af almennum launatekjum, en hann ætlar og metur það samkv. þessum till., að til þess að jafna metin þurfi þarna 500 millj. til að koma. Öðruvísi verður þetta ekki skilið, því að meðaltekjur einstaklinga hafa hækkað líklega um 52% á milli áranna 1977 og 1978. Það verður þess vegna athyglisvert, ef sú till., sem er þarna í síðasta liðnum, þ.e.a.s. 2. till. við 7. gr. frv., verður borin upp á Alþ., eins og hv. þm. Ellert B. Schram boðaði í ræðu sinni áðan, hver verða við brögð Alþfl. Ætlar Alþfl. enn einu sinni að láta aka yfir sig, sem er orðið margoft á sama deginum, eða ætlar hann að standa með þeim sem tekið hafa upp þessa till. og gert hana að sinni? Ég veit að eftir þessum viðbrögðum bíða margir, og ég er einn þeirra.